Stjórn fiskveiða

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:30:37 (2154)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Við myndun núv. ríkisstjórnar var um það samið að við endurskoðun laganna um fiskveiðistjórnun skyldi sett á fót sérstök nefnd stjórnarflokkanna þar sem slíkt jafnræði væri með stjórnarflokkunum að báðir hefðu þar jafna hlutdeild að því er varðaði forustu. Eins og hv. þm. er kunnugt lyktaði því máli á þann veg að skipa varð tvo menn til þess að hafa forustu fyrir nefndinni.
    Það er vissulega óheppilegt þegar pólitísk ábyrgð eða stjórnskipuleg ábyrgð er slitin í sundur með þessum hætti en það hefur verið aðstaða þeirra sem unnið hafa að þessari endurskoðun og vissulega haft nokkur áhrif á störf nefndarinnar. Hitt er þó mikilvægast að fyrir góð persónuleg tengsl þeirra tveggja manna sem þarna hafa valist í forustu, þeirra Magnúsar Gunnarssonar og Þrastar Ólafssonar, hefur nefndin unnið mjög örugglega að þeim meginviðfangsefnum sem henni hefur verið ætlað. Hún hefur unnið að mati á þeim kostum sem fyrir hendi eru í þessu efni, upplýsingaöflun um stjórnunarkerfi við fiskveiðar hjá öðrum þjóðum og samanburð á þessum atriðum, tengsl fiskveiðirannsókna og aðstæðna í hafinu við fiskveiðistjórnun. Hér liggur sem sagt að baki mjög viðamikil vinna og gagnaöflun. Komið hafa fram hugmyndir í nefndinni frá þeim eina þingmanni sem sæti á í henni að rétt hefði verið að leggja fram fleiri kosti til umræðu af hálfu nefndarinnar við nefnd hagsmunaaðila sem skipuð hefur verið og sjútvn. Alþingis. Á hinn bóginn hefur það sjónarmið verið uppi í nefndinni að stjórnarflokkarnir eða nefnd stjórnarflokkanna yrði að koma sér endanlega saman um tillögur áður en hún hefði raunverulegt samráð við nefnd hagsmunaaðila og sjútvn. Þar erum við komin að kjarna málsins. Eins og hv. þm. er kunnugt hefur verið og er mjög verulegur ágreiningur á milli stjórnarflokkanna að því er varðar skattheimtu eða gjaldtöku af sjávarútveginum. Sá ágreiningur hefur tafið nefndarstarfið að undanförnu.
    Nú er það svo að það er ágreiningur í öllum flokkum um þessi málefni. Innan Sjálfstfl. eru til menn sem vilja skattleggja sjávarútveginn. Innan Alþfl. eru menn sem mega ekki heyra það nefnt að sjávarútvegurinn sé skattlagður og við heyrum umræður bæði innan Alþb. og Framsfl. um gjaldtöku af sjávarútvegi, svo ég nefni ekki veiðaleyfagjaldahugmyndir Kvennalistans sem hv. 17. þm. Reykv. hefur verið iðinn við að gera að umtalsefni á hinu háa Alþingi. Þetta er kjarni málsins. Vandinn er enn óleystur og það hefur tafið niðurstöðuna.
    Ég geri mér enn vonir um það að menn geti, innan ekki langs tíma, lokið þessu nefndarstarfi og í framhaldi af því geti umræður hafist við hagsmunaaðila og sjávarútvegsnefnd þingsins.
    Inn í alla þessa umræðu koma ýmis tæknileg atriði varðandi núgildandi löggjöf sem rætt hefur verið um að þyrfti að endurskoða. Þar á ég m.a. við reglur um tvöföldun línuveiða á ákveðnum tímabilum og þær reglur sem í gildi hafa verið um krókaveiðar smábáta. Þannig eru ýmis tæknileg atriði sem þarf að hyggja að. Hitt er svo sérstakt athugunar- og íhugunarefni hvort ekki þarf mun lengri reynslutíma til þess að meta árangur af núverandi kerfi. Í reynd höfum við ekki í höndum upplýsingar nema frá einu og hálfu ári sem þetta núverandi kerfi hefur staðið. Ýmislegt mælir því auðvitað með því að menn taki lengri tíma til þess að meta raunverulega reynslu og árangur af stjórnkerfinu.