Sjávarútvegsstefna

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:46:26 (2160)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég lít svo á að þessi fsp. sé ekki í samræmi við ákvæði þingskapa um það hvernig bera eigi fram fyrirspurnir en þar er tekið fram að þær skuli vera um afmörkuð málefni. Það er miklu nær að hér sé um að ræða tilefni til þess að biðja um skýrslu og eftir atvikum umræður um hana. Væri mér auðvitað ljúft að verða við því ef áhugi væri á því af hálfu hv. þingmanna. En vegna ummæla hv. 2. þm. Suðurl. er nauðsynlegt að leiðrétta nokkrar missagnir. Hann minnti á tillögur sem ég flutti fyrir tæpu ári til þess að bregðast við rekstrarvanda sjávarútvegsins. Meginuppistaðan í þeim tillögum var sú að hafist yrði handa við skuldbreytingu á skuldum sjávarútvegsfyrirtækjanna, að hafist yrði handa við að afnema aðstöðugjald og athugað yrði með lækkun raforkuverðs.
    Tillögunni um að lengja lán sjávarútvegsins var hrundið í framkvæmd þegar í stað. Sú ákvörðun var tekin nokkrum dögum eftir að tillögurnar lágu fyrir og lán sjávarútvegsfyrirtækjanna í Atvinnutryggingarsjóði voru lengd og afborganir felldar niður í tvö ár og lánin lengd að sama skapi. Fiskveiðasjóður varð við tilmælum mínum um svipaðar aðgerðir til þess að lengja lán sjávarútvegsfyrirtækja sem staðið hafa í endurskipulagningu á rekstri og hafa verið að sameinast. Þannig hefur mjög umtalsverð aðstoð verið veitt af hálfu Fiskveiðasjóðs eins og ég veit að hv. þingmanni er kunnugt um.
    Nú er verið að ræða hugmyndir um afnám eða lækkun aðstöðugjaldsins til þess að bæta rekstraraðstöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Því miður hefur ekkert unnist að því er varðar raforkuverðið.
    Næsta atriði lýtur svo að því að ég setti fram tillögur um það að stöðva inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins þó að gildandi lagaákvæði, eins og fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar gengu frá þeim, gerðu ráð fyrir að atvinnufyrirtækin yrðu þá að halda áfram inngreiðslu í sjóðinn. Þessar breytingar voru samþykktar fyrir áramót í fyrra.
    Á vormánuðum var augljóst að til viðbótarráðstafana yrði að grípa og þá var lagt til að þrátt fyrir ákvæði verðjöfnunarsjóðslaganna, eins og fyrrv. stjórnarflokkar gengu frá þeim, yrði greitt út úr sjóðnum til atvinnufyrirtækjanna í þeim tilgangi að mæta skuldum. Vegna þeirrar ráðstöfunar hefur rekstrarstaðan verið viðunandi fram undir þetta. Nú þarf hins vegar að bregðast við og það er fagnaðarefni að aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt því máli mikinn áhuga og forustumenn bæði launþega og atvinnurekenda sýnt vilja til þess að ná saman, mynda nýja þjóðarsátt um ráðstafanir til þess að styrkja útflutningsframleiðsluna. Það er of snemmt að segja nokkuð til um það hvort sú viðleitni ber árangur en hún er lofsverð í þröngri stöðu. Það er auðvitað mjög mikilvægt atriði að það hefur tekist að viðhalda hér lágri verðbólgu og ná enn frekari árangri í þeim efnum á síðustu missirum. Þjóðarsáttasamningarnir í febrúar 1990 mörkuðu þar sannarlega þáttaskil en það er mjög mikilvægt að það hefur tekist með markvissri og aðhaldsamari stjórn peningamála og ríkisfjármála að tryggja að verðbólgan hefur enn haldið niður á við. Það er mikilvæg undirstaða til að það takist að skjóta styrkari stoðum undir rekstur útflutningsfyrirtækjanna í landinu.