Sjávarútvegsstefna

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 11:52:10 (2162)

     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Hér er ekki tími til að fara ítarlega í þetta merkilega mál sem hv. þm. Jón Helgason hefur hafið umræður um. Ég kem hér til að mótmæla og lýsa undrun minni á þeim orðum hæstv. sjútvrh. að rekstrarstaðan hafi verið viðunandi í sjávarútveginum. Rekstrarstaðan í sjávarútveginum hefur verið allsendis óviðunandi allan starfstíma þessarar ríkisstjórnar. Það streyma milljarðar á milljarða ofan úr þessum framleiðslubyggðarlögum. Það er óviðunandi að búa við það. Ég veit að hæstv. sjútvrh. veit betur. Hann veit betur í þessum efnum. En hér er ekki staður né stund, því miður, undir þessum kringumstæðum til að ræða svo ítarlega sem nauðsynlegt væri þennan þátt mála, sjávarútvegsmálin, en sem betur fer eru fáir dagar í það að tekin verði upp umræða um atvinnumálin og hún mun óneitanlega og óhjákvæmilega standa lengi og þar munu menn ræða sjávarútvegsmálin.