Virðisaukaskattur og svört atvinnustarfsemi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:13:11 (2171)

     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Auðvitað er slæmt að ekki skuli hafa verið framkvæmd sú könnun sem Alþingi fól ríkisstjórninni að láta gera 4. febr. 1991. Mér fannst hins vegar koma fram í máli hæstv. ráðherra að á vegum ráðuneytisins væri að fara í gang starfsemi í þessa veru. Ég læt mig svo sem einu skipta hvort eftirlitið og vinnan fer fram í ráðuneyti eða hvort við fáum hingað skriflega skýrslu. Mestu skiptir að eftirlitið verði framkvæmt.
    Það er mjög varhugavert, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, að fara með tölur sem við heyrum um virðisaukaskattssvik og svarta atvinnustarfsemi. Þó hljótum við á meðan við höfum ekki önnur gögn en þá skýrslu sem var skilað á þinginu 1985--1986, þar sem svört atvinnustarfsemi var áætluð um 5--7% af vergri landsframleiðslu, að miða við þær tölur í dag þar sem við höfum í rauninni ekki aðra viðmiðun. Ef við gerum það gefur það okkur 27 milljarða vegna svartar atvinnustarfsemi í dag.
    Til samanburðar er hægt að nefna að beinu skattarnir allir skila ríkissjóði ekki nema tæplega 20 milljörðum og tekjuskattur einstaklinga 3,5 milljörðum. Hér er því um svo stórar upphæðir að ræða að það er vissulega þörf á því að taka á þessu og kanna hvort sú skýrsla sem þingið fékk 1985/1986 er enn í fullu gildi og þær tölur sem þar koma fram.