Virðisaukaskattur og svört atvinnustarfsemi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:15:15 (2172)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að virðisaukaskattskerfið hér á landi er tiltölulega nýtt. Þess vegna var það svo til skamms tíma að mikill fjöldi starfsmanna ríkisins, ríkisskattstjóraembættisins og reyndar skattstofanna var upptekinn við að koma kerfinu á. Það tekur auðvitað sinn tíma.
    Ég sagði áðan að nú yrði um áherslubreytingu að ræða. Fólkið sem hingað til hefur verið að koma kerfinu á getur snúið sér í meira mæli að því að stunda eftirlitið og að því er unnið í ráðuneytinu, hjá skattstofunum og ríkisskattstjóra að breyta þessu.
    Ég vil leggja áherslu á að eftirlitið þarf að aukast og þarf alltaf að vera til staðar. Auðvitað er gott að gera einu sinni átak en það kemur ekkert í staðinn fyrir það sem er sífellt.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, vísa á bug ummælum hv. 4. þm. Norðurl. v. Ég held að þau séu óréttmæt og út í bláinn að segja að fjármálaráðherrar hafi verið kærulausir og sinnulausir í sínu starfi. Ég vil eingöngu benda á að þetta er eitt meginviðfangsefni þessara ráðherra og ég tel að bæði sá sem hér stendur og eins aðrir sem hafa farið með þetta embætti, hafi lagt sig fram um að ná tökum á þessum málum. (Gripið fram í.) Mér er alveg nákvæmlega sama hvað hv. þm. segir. Ég hlustaði gaumgæfilega á hann og tel að ummæli hans séu dauð og ómerk og vísa þeim aldeilis á bug. Ég vil þvert á móti segja að núna er að fara af stað starf sem aðilar vinnumarkaðarins koma að og ég vonast sannarlega til þess að árangur náist með þeim hætti. Gífuryrði eins og komu fram hjá hv. þm. gera í hæsta máta talsvert ógagn ef eitthvað er.