Jarðgangagerð á Austurlandi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:47:41 (2189)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að fram komi vegna athugasemda ráðherra að það var bærileg samstaða um þá langtímaáætlun í vegagerð sem lögð var fram á þinginu á sínum tíma þótt hún hlyti ekki afgreiðslu og bókun fulltrúa Sjálfstfl. lýtur ekki að efnisatriðum í tillögugerðinni. Það verður því ekki skilið svo frá þeirri bókun að ágreiningur hafi verið í nefndinni um einstakar framkvæmdir og tímasetningu á þeim.
    Það er ljóst þeim sem þetta lesa og kynna sér efni langtímaáætlunarinnar að áformin eru alveg skýr. Það á að ráðast í Austfjarðagöng þegar að loknum Vestfjarðagöngum þannig að samfella verði í jarðgangaframkvæmdum. Ástæða er til að ítreka það og fá fram viðhorf ráðherra til þess hvort hann sé þeirrar skoðunar að svo beri að vera eða hvort áform ráðherra lúti að því að slíta þessi verk í sundur og láta einhvern tíma líða frá því að menn ljúka Vestfjarðagöngum og þar til hafist verði handa á Austfjörðum.