Jarðgangagerð á Austurlandi

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:51:47 (2191)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Mjög fjölgar fyrirspurnum, enda hef ég engan tíma til svara og rétt að haga sér þannig ef menn vilja fá svör. Ég vil fyrst segja að það vekur ekki undrun mína þótt hv. 5. þm. Vestf., Kristinn H. Gunnarsson, vilji hlaða mjög verkefnum á vegáætlun á næstu árum. Það stendur þannig á í hans kjördæmi að sennilega þarf ekki mikið að huga að Djúpvegi eða öðru slíku því hér virðist hann styðja öll stórverkefni sem fram koma og vilja hraða þeim miklu meir en forveri minn gerði og setur fram miklu stífari kröfur en hann í þeim efnum.
    Við fyrirspyrjanda vil ég segja í fyrsta lagi að ég hef gefið þau fyrirmæli og hann getur sjálfur síðan, ef hann vill draga í efa að eftir þeim sé farið, haft samband við vegamálastjóra og formann þessarar nefndar, sem raunar er Austfirðingur, og spurt hann hvort ástæða sé til að reka mjög á eftir honum í þessum störfum. Ég er mjög undrandi á því að slíkt skuli gefið í skyn. Það er verið að tala um mjög kostnaðarsamar framkvæmdir sem skipta milljörðum kr. Ég skal ekki segja hversu mörgum milljörðum kr. en milljörðum kr. Og það hvort skýrsla um slík efni berist mánuði fyrr eða síðar er auðvitað ekki höfuðatriðið. Aðalatriðið er að reynt sé að standa vel að slíkum undirbúningi og athuga sinn gang vel áður en farið er af stað. Ég hef óskað eftir því að undirbúningur miðist við að verkinu verði ekki seinkað frá því sem áður hafði verið ákveðið.
    Nú er hins vegar komið í ljós að hv. 2. þm. Austurl., Jón Kristjánsson, sem og fyrirspyrjandi eru mjög óánægðir með þá stefnu sem mörkuð var meðan þeir voru í stjórnarmeirihluta varðandi jarðgöngin fyrir austan. Nú sætta þeir sig ekki lengur við að nokkurt hlé sé gert á jarðgangagerðinni eins og ákveðið var af þeim samgrh. sem þeir báru sjálfir ábyrgð á og ákveðið var í þál. sem samþykkt var á Alþingi á síðasta kjörtímabili.