Staða loðdýrabænda

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:54:05 (2192)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum voru bændur hvattir til mikilla fjárfestinga í loðdýrarækt. Sú hvatning kom frá stjórnendum landbúnaðarmála og var byggð á grundvelli arðsemisútreikninga sérfræðinga. Þegar ljóst var að loðdýraræktin varð ekki sú lyftistöng í íslenskum landbúnaði sem ætlað var og tekjuvonir brugðust og margir bændur urðu að hætta við frekari tilraunir í þeim efnum var ljóst að skuldastaða margra þeirra var mjög erfið. Þrátt fyrir að nokkuð hafi verið gert til að koma til móts við bændur í þessari stöðu eiga margir þeirra enn yfir höfði sér gjaldþrot og eignamissi vegna þessarar tilraunar. Ég tel að þarna hljóti ábyrgð stjórnvalda að koma til. Ég vil því beina eftirfarandi fsp. til hæstv. landbrh. á þskj. 233:
  ,,1. Hefur nefndin, sem skipuð var til að skoða stöðu loðdýrabænda, lokið störfum?
    2. Ef svo er, hverjar eru þá tillögur hennar til lausnar á vanda þeirra?``