Staða loðdýrabænda

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 12:55:24 (2193)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Spurt er hvort nefnd sem skipuð var til að skoða stöðu loðdýrabænda hafi lokið störfum. Svarið við því er já. Síðan er spurt hverjar séu þær tillögur sem hún leggi til til lausnar á vanda þeirra. Vegna þess skamma tíma sem ég hef til umræðu kýs ég að svara fyrst hvaða tillögur það eru sem ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarflokkanna hafa samþykkt um vanda loðdýraræktar. Þær tillögur eru svohljóðandi:
    ,,Lagt er til að öllum aðilum sem hafa heimild til reksturs loðdýrabúa og fengið hafa lán til þeirra hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins verði gefinn kostur á að sækja um fyrirgreiðslu stjórnvalda.
    Lagt er til að stjórnvöld beiti sér fyrir almenmum aðgerðum til aðstoðar starfandi loðdýrabændum og þeim loðdýrabænum sem hætt hafa starfsemi. Annars vegar verði leitað eftir því við Stofnlánadeild landbúnaðarins og aflað nauðsynlegra heimilda til að deildin geti fellt niður verulegan hluta af lánum til loðdýraræktar sem verði liður í heildarsamningum um skuldauppgjör loðdýrabænda. Miðað er við að sú niðurfelling geti numið allt að helmingi af heildarskuldbindingum sem til hefur verið stofnað vegna loðdýraræktar. Hins vegar leggi ríkissjóður fram fé til greiðslu á lánum með ríkisábyrgð. Verði framlagið veitt árlega og svari til greiðslu afborgana og vaxta af þeim lánum.
    Lagt er til að jöfnunargjald á loðdýrafóður verði fellt niður frá og með 1. jan. 1994.
    Lagt er til að beina tilmælum til sveitarfélaga um að gefa eftir eða lækka kröfur sínar vegna fasteignaskatts og aðstöðugjalds sem er í vanskilum hjá loðdýrabændum.
    Lagt er til að um frekari aðgerðir verði ekki að ræða af hálfu stjórnvalda að þessum aðgerðum loknum.``
    Fyrir utan þær aðgerðir sem ég hef minnst hér á lagði nefndin til varðandi ráðstöfun eigna:
    ,,Ríkissjóður heimilar að ónotuð loðdýrahús verði seld og/eða nýtt til annarrar starfsemi án þess að endurgreiða þurfi af þeim söluskatt samkvæmt þinglýstri kvöð. Aflétta ber þeirri kvöð enda ekki í samræmi við núgildandi skattkerfi.``
    Enn fremur um jöfnunargjald á loðdýrafóðri og ráðgerðri fóðurframleiðslu:
  ,,1. Jöfnunargjald á loðdýrafóður verði greitt áfram á þessu ári og næsta með sama hætti og á árinu 1990.
    2. Samsvarandi fjármagni og Framleiðnisjóður hefur veitt til greiðslu afurðalána verði varið frá sjóðnum til að auka fóðurniðurgreiðslur enn frekar og til ráðgjafar við fóðurgjald. Reiknað er með því að slíkt jöfnunargjald verði greitt á næsta ári eins og á þessu.``
    Í nefndini var fjallað um fóðurstöðvar. Í nefndaráliti segir:
    ,,Vegna þess hver staðan er breytileg er ljóst að erfitt er að leggja til ákveðnar lausnir fyrir fram. Grípa þarf til sértækra aðgerða fyrir hverja og eina ef bæta á stöðu þeirra. Meginmáli skiptir að fylgjast með og hafa viðbúnað ef fóðuröflun loðdýrabænda stefnir í að vera ótrygg á einstökum svæðum.``
    Um afurðalán segir:
  ,,a. Afurðalán til loðdýrabænda verði hækkuð þannig að þau nemi 75% af söluverðmæti skinna hvers undanfarins árs, þó ekki hærri en sem nemur breytilegum kostnaði búanna.

    b. Fóðurstöðvar hafi forgangsrétt til afurðalána til að standa undir fóðurúttekt hvers og eins loðdýrabónda.
    c. Viðskiptabankar veiti viðbótarlán til skinnaverkunar í nóvember og desember.
    Það felst ekki í samþykkt ríkisstjórnarinnar að koma að afurðalánum til loðdýrabænda heldur er það málefni sem þeir verða að taka upp við sína viðskiptabanka.``
    Til þess að gera þetta skýrara vil ég endurtaka það sem er kjarninn í aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú. Í fyrsta lagi að afla nauðsynlegra heimilda til að Stofnlánadeild landbúnaðarins geti fellt niður verulegan hluta af lánum til loðdýraræktar sem verði liður í heildarsamningum um skuldauppgjör loðdýrabænda. Er miðað við að sú niðurfelling geti numið allt að helmingi af heildarskuldbindingum sem stofnað hefur verið vegna loðdýraræktar. Í öðru lagi taki ríkissjóður að sér greiðslur á þeim lánum sem loðdýrabændum hafa verið veitt með ríkisábyrgð þannig að þau lán verði niður felld.