Staða loðdýrabænda

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 13:03:10 (2195)

     Elín R. Líndal :
    Virðulegi forseti. Loðdýrabændur bíða og hafa beðið lengi eftir lausnum á þeim vanda sem þeir sitja enn uppi með. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvort hann vildi skýra það aðeins betur út hvernig tillögurnar eru um lán sem eru með ríkisábyrgð. Það kom fram að Stofnlánadeildin geti fellt niður allt að helmingi heildarskuldanna. Ég óska eftir svörum um hvort sú aðgerð sé tengd afgreiðslu lána með ríkisábyrgð. Mig langar að fá fram hvort það verði að gerast jafnhliða.
    Ég vil bara leggja áherslu á það að stofnanir þær sem málið varðar mega ekki leyfa sér að ýta málinu á milli sín á meðan þolendur fá engar lausnir á sínum málum mánuðum og sumir árum saman.