Staða loðdýrabænda

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 13:06:02 (2196)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað mjög sérkennilegt af hv. 5. þm. Suðurl. að gera lítið úr tillögum til lausnar á vanda loðdýraræktarinnar sem eru þær mestu og stærstu sem gerðar hafa verið í einstakri aðgerð frá því að þessari grein var komið á. Það er alveg ljóst að hér er verið að leggja til að annars vegar verði felldar niður greiðslur sem geta numið í heild allt að 850 millj. kr. og hins vegar að létta af greiðslum vegna Ríkisábyrgðasjóðs sem uppreiknaðar munu nema þegar þær hafa verið greiddar um 450 millj. kr.
    Hér er verið að leggja til aðgerðir sem eru ómetanlegar fyrir þessa grein. Það er ljóst að til þess og ef þessi aðgerð á að ganga upp --- vegna ummæla hv. 1. þm. Norðurl. v. --- verða allir að koma að því verki, Stofnlánadeildin, Ríkisábyrgðasjóður og aðrir þeir lánardrottnar sem máli skipta. Enginn getur vikið sér undan.
    Aðalatriðið er að með þessum aðgerðum er verið að viðurkenna þann vanda sem greinin stendur og hefur staðið frammi fyrir og taka á honum með ábyrgum og hraustlegum hætti.