Staða loðdýrabænda

52. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 13:10:26 (2203)

     Guðni Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki talsmaður gjaldþrotastefnunnar og svona ræður eiga ekki rétt á sér. Ég hef staðið sem formaður deildarinnar fyrir mikilli fyrirgreiðslu til þessarar búgreinar. En mér sýnist . . .  (Forseti hringir) Því miður verð ég að fara út í efnislega umræðu því að forseti leyfir árásir á þingmenn sem ekki hafa málfrelsi undir efnislegum umræðum. ( Forseti: Forseti stjórnar því ekki hvað hv. ræðumenn segja.) Þá skal berja í hausinn á þeim ef þeir ekki gæta hófs í orðum. En það stendur ekki á því hjá deildinni að setjast yfir það verkefni. Hún hefur setið yfir því hvernig má leysa vandann. Ég t.d. tel að þá verði að flokka menn niður. Deildin telur að auðvitað verði að leita lausna hjá þeim sem við vandann búa.
    Mér sýnist að hér sé verið að leggja til flatan niðurskurð á skuldum en ýmsir eru ágætlega settir og þurfa ekki á neinni hjálp frá stjórnvöldum að halda. Þess vegna verð ég líka, miðað við þá miklu fyrirgreiðslu sem þessi búgrein hefur fengið, að gæta hagsmuna annarra búgreina sem ekki sætta sig við það. Það eru margir fleiri í miklum vanda í Stofnlánadeildinni. Ég minni á sauðfjárbændur. Ég get minnt á marga fleiri.
    Hér verða menn því að gæta orða sinna og hæstv. ráðherra hlýtur að leita eftir fundi við deildina fljótlega. Þá mun hann auðvitað sjá að þar er markvisst starf hafið til þess að finna framtíðarlausn á stöðu greinarinnar. En þetta plagg sýnist mér miðað við skinnaverðið að sé gjaldþrotastefna. Það þýðir að fóðurstöðvarnar og búin sem eftir standa fara á hausinn. Þau verða gjaldþrota. 35 millj. á fjárlögum eru ætlaðar til niðurgreiðslu á fóðri. Þær á að fella í burtu og það þýðir dauðadóm yfir búgreininni og gerir auðvitað stöðu Stofnlánadeildarinnar enn þá alvarlegri. Við getum búist við því að t.d. 1994--1995 hækki skinnaverðið úti í heimi á nýjan leik. Það hefur tafist í 2--3 ár miðað við það sem áætlað var.