Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 13:52:18 (2213)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Pálma Jónssyni þá hefur það nokkuð dregist að þessar skýrslur Ríkisendurskoðunar væru teknar til umræðu. Ég vil í upphafi ræðu minnar líka lýsa nokkurri undrun á því að þessi umræða er sett á dagskrá þegar vitað er að hæstv. fjmrh. er fjarverandi. Hann er alla vega ekki í húsinu samkvæmt viðvistartöflu. Ég vil bæta því við vegna þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsir því yfir að fjmrh. hafi verið í húsinu í morgun að það var kannski ákvörðun ráðherrans að vera fjarverandi umræðuna og er það þá ekki í fyrsta sinn sem hann kýs að vera ekki viðstaddur þegar þarf að taka afstöðu til skoðana Ríkisendurskoðunar. Það er mjög vont vegna þess að á undanförnum árum hafa verið skiptar skoðanir um afstöðu Ríkisendurskoðunar í mati á stöðu ríkissjóðs, uppgjöri fjárlaga og hvernig færa skuli langtímaskuldbindingar.
    Ég ætla ekki að verja löngu máli í þessa skýrslu. Ástæðurnar eru einkum þær að við höfum við ýmis tækifæri í þinginu rakið mismunandi sjónarmið varðandi störf Ríkisendurskoðunar og í öðru lagi að nýr maður hefur tekið við starfi ríkisendurskoðanda fyrr á þessu ári og ég tel bæði sanngjarnt og rétt að bíða eitthvað með að meta þá stefnu sem hann kann að taka í málefnum stofnunarinnar. Ég hef gagnrýnt þá stefnu sem fyrirrennari hans fylgdi í málefnum stofnunarinnar og teldi farsælt ef eftirmaður fyrrverandi ríkisendurskoðanda hugaði vandlega að breyttum áherslum.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði áðan, mér var ekki ljóst hvort það var hans persónulega skoðun eða hvort hann var þar að tala fyrir forsætisnefndina, að niðurstöður Ríkisendurskoðunar t.d. um uppgjörið á Framkvæmdasjóði Íslands hefðu ekki verið hraktar. Fyrsta spurningin, þegar slík fullyrðing er sett fram, er hvora niðurstöðuna þingmaðurinn á við. Á hann við fyrri niðurstöðuna um það að fjárhagur Framkvæmdasjóðs sé traustur og ekki þurfi að gera neina athugasemd við stöðu sjóðsins eða á hann við síðari niðurstöðuna sem var sett fram nokkrum mánuðum seinna um það að sjóðurinn sé í raun og veru gjaldþrota og ríkissjóður þurfi að greiða inn í hann?
    Deilan hefur einmitt staðið um það að Ríkisendurskoðun komst að gjörólíkum niðurstöðum um stöðu Framkvæmdasjóðs á innan við ári og sú umræða ætti að vera öllum hv. þm. kunnug. Þess vegna verð ég að segja að ég skil ekki alveg fullyrðingu um það að niðurstöður Ríkisendurskoðunar um málefni Framkvæmdasjóðs hafi ekki verið hraktar.
    Það hefur verið bent á það fyrr að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, núv. þingflokksformaður Alþfl., lét kalla fulltrúa Ríkisendurskoðunar á fund stjórnar Framkvæmdasjóðs Íslands þegar hann sat í þeirri stjórn vegna þess að núv. þm. Össur Skarphéðinsson neitaði að skrifa undir reikninga Framkvæmdasjóðs nema hann væri búinn að fá það staðfest frá ríkisendurskoðanda að staða sjóðsins væri í lagi. Þegar fulltrúar Ríkisendurskoðunar lýstu því formlega yfir að þeir teldu stöðu Framkvæmdasjóðs vera í lagi þá skrifaði stjórnarmaðurinn, núv. þm. Össur Skarphéðinsson, undir reikningana en ekki fyrr.
    Það liggur þess vegna alveg ljóst fyrir að meðferð Ríkisendurskoðunar á fjárhagsstöðu Framkvæmdasjóðs er auðvitað mjög undarleg og skýringin sem kom fram frá Ríkisendurskoðun, þegar þingflokkur Alþb. skrifaði Ríkisendurskoðun fyrr á þessu ári og óskaði eftir því að fá nánari skýringar á þessu misræmi, þá voru svör Ríkisendurskoðunar þau að hinar pólitísku forsendur hefðu breyst, svo ég dragi svörin saman í eina setningu. Þá vaknar auðvitað sú spurning: Er það virkilega þannig að Ríkisendurskoðun geti á innan við ári komist að gjörólíkum niðurstöðum um eiginfjárstöðu opinberra sjóða eftir því hvaða ríkisstjórn er í landinu eða ekki?
    Mat Ríkisendurskoðunar verður auðvitað að vera þannig á opinberum sjóðum og ríkissjóði að við á Alþingi og þjóðin öll, óháð því hverjir sitja á bekkjum stjórnarsinna og hverjir sitja á bekkjum stjórnarandstæðinga í það og það sinn, getum treyst því að um rétt og ópólitískt mat sé að ræða.
    Í öðru lagi hefur verið hér nokkur deila um aðferð Ríkisendurskoðunar við að meta stöðu ríkissjóðs. Sú deila hefur einkum tengst því hvernig eigi að færa langtímaskuldbindingar sem ríkissjóður tekur að sér. Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gaf út í sumar og var reyndar fyrsta skýrslan undir stjórn hins nýja ríkisendurskoðanda brá svo við að allt í einu hætti Ríkisendurskoðun að færa langtímaskuldbindingar ríkissjóðs með sama hætti og hún vildi ætíð gera meðan ég var fjmrh. Þegar ég vakti athygli á þessu misræmi, misræmi sem hafði það auðvitað í för með sér að niðurstaða Ríkisendurskoðunar var spá um minni halla á þessu ári heldur en hefði átt að vera samkvæmt fyrri aðferðum Ríkisendurskoðunar --- gaf núverandi ríkisendurskoðandi út yfirlýsingu þar sem hann játaði það að þetta hefðu verið mistök og það hefði verið réttara að taka fram í niðurstöðum skýrslunnar, eins og gert hefur verið ætíð áður, að reikna ætti langtímaskuldbindingarnar inn í töluna um hallann. Það breytir því ekki að ég er ósammála þessari aðferð Ríkisendurskoðunar hvort sem henni er beitt í þeirri tíð meðan ég var fjrmh. eða henni er beitt í tíð núv. fjmrh. Ég hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum. Ég er ósammála þessari aðferð, ég tel hana óskynsamlega þó ég viti ósköp vel að fyrir henni er hægt að færa fræðileg bókhaldsleg rök, ég tel að hún rugli skilning almennings og þjóðarinnar á því hver er hinn eiginlegi rekstrarhalli ríkissjóðs á hverju ári, þ.e. mismunurinn á tekjum og gjöldum þess árs. Gjöldum sem sannanlega eru innt af hendi á því ári og tekjum sem sannanlega koma inn á því ári. Að taka inn í þá tölu heildarupphæð langtímaskuldbindinga, sem oft

fyrir tilviljun eru skráðar hérna megin við áramótin en ekki hinum megin, ruglar einfaldlega dæmið.
    Það var nokkuð vikið að því í sumar að fjárln. beitti sér síðan fyrir því að við afgreiðslu fjáraukalaga á síðasta þingi var skuldbinding vegna Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins færð öll til gjalda í þeim fjáraukalögum og ég held að ég hafi verið eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn því. Það var eitt atkvæði á móti og það var mitt. Ég hafði reiknað með því að hæstv. fjmrh. hefði tekið þátt í afgreiðslu málsins en hann hefur síðan upplýst að hann hafi verið fjarstaddur og allt í lagi með það, það er sjálfsagt að hafa það sem réttara reynist. Það breytir því ekki að það vekur auðvitað spurningar hver er afstaða hæstv. núv. fjmrh. Er hann sammála fjárln. og Ríkisendurskoðun eða er hann sammála mér? Það er auðvitað mjög slæmt að hæstv. fjmrh. skuli láta þjóðþingið og ég tel reyndar Ríkisendurskoðun og fjmrn. og fjárln. einnig vera í slíkri óvissu um atriði af þessu tagi. Þess vegna hefði mér fundist æskilegra að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur þessa umræðu þannig að hann hefði kost á því að tjá sig um þessi atriði því þetta er eina skiptið á árinu sem þessi mál eru formlega tekin hér fyrir. Þetta er þess vegna hinn þinglega rétti staður til að ræða þetta. Ég hafði lýst því yfir, að mig minnir í ágústmánuði, að ég vildi gjarnan eiga orðastað við hæstv. fjmrh. um þetta mál í stuttri utandagskrárumræðu. Ég ákvað síðan vegna anna í þinginu að bíða með það og taka það þá frekar fyrir undir þessum dagskrárliðum sem ég vissi að kæmu upp hvort sem það væru fjáraukalög eða þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar sem nú er verið að ræða. Það er auðvitað ekki gott að hæstv. fjmrh., fyrst hann er í bænum, sé ekki viðstaddur þessa umræðu.
    Niðurstaða mín er sú að því miður er það þannig að á síðustu missirum hefur orðið efnislegur ágreiningur um meðferð Ríkisendurskoðunar á ýmsum veigamiklum málum. Það er ekki bara eitt og ekki bara tvö mál. Það eru því miður þó nokkuð mörg mál þar sem efnislegur ágreiningur hefur komið fram um aðferðafræði og niðurstöður Ríkisendurskoðunar. Ég vil t.d. nefna að Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu um ákveðinn þátt í heilbrigðiskerfinu sem þó nokkuð mikið var tekinn til umræðu opinberlega. Síðan birtust greinar eftir lækna og ýmsa sérfræðinga þar sem þeir gerðu faglegar athugasemdir við matsaðferð Ríkisendurskoðunar. Mér vitanlega hefur Ríkisendurskoðun hvergi svarað þessu faglega mati læknanna. Það er auðvitað mjög vont þegar Ríkisendurskoðun leggur fram veigamikla skýrslu um stóran þátt í útgjöldum ríkissjóðs og þar eru felldir harðir dómar sem vekja mikla athygli opinberlega og síðan kemur fram fagfólk á viðkomandi sviði og setur fram málefnalega gagnrýni á aðferðafræði Ríkisendurskoðunar í matinu og því er ekki svarað.
    Það er nokkur vandi fyrir Ríkisendurskoðun ef hún ætlar að halda áfram á þeirri braut að vera dómhörð um framkvæmd fjármála á ýmsum sviðum ríkisútgjaldanna, og sjálfsagt hjá henni að vera það, ef hún er síðan ekki reiðubúin að rökstyðja mál sitt og svara faglegri gagnrýni þegar hún kemur fram.
    Ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni að það var breyting til batnaðar að Ríkisendurskoðun var færð frá fjmrn. og yfir til Alþingis. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst þingið ekki hafa staðið sig í stykkinu hvað það snertir að finna sér form og aðferðir til þess að taka á þeim vanda þegar ágreiningur kemur fram um aðferðir og störf Ríkisendurskoðunar.
    Það er óþægilegt að eina umræðan í þinginu um málið er í þingsalnum þar sem ríkisendurskoðandi og starfsmenn stofnunarinnar geta ekki mætt og tekið þátt í umræðunni. Ég hef þess vegna varpað fram þeirri hugmynd, ég held að ég hafi gert það í fyrra og geri það aftur nú, að breyta þingsköpum á þann hátt að þessum skýrsum sé vísað til þingnefnda. Það fari fram fyrri umærða um skýrslurnar og síðan sé þeim vísað, kannski sameiginlega, til fjárln. og efh.- og viðskn. svo að ég taki dæmi eða þá að viðkomandi fagnefnd, t.d. heilbr.- og trn. ef veigamikill þáttur í störfum Ríkisendurskoðunar hefur verið skýrsla um útgjöld t.d. Ríkisspítalanna eða tryggingakerfisins, geti komið inn í þá umfjöllun þannig að það skapist vettvangur tengdur nefndum þingsins þar sem þingmenn geta kallað fyrir starfsmenn Ríkisendurskoðunar og sérfræðinga utan þings, embættismenn fjmrn., sérfræðinga Seðlabankans, sérfræðinga í reikningsskilum og svo sérfræðinga á þeim sviðum sem Ríkisendurskoðun hefur tekið til umfjöllunar hvort sem það eru menntamál eða heilbrigðismál. Við síðari umræður um skýrslurnar fengjum við frásagnir af meðferð þingnefndanna um það og þannig sé skilað nál. til þingsins um skýrslurnar. Ég vil biðja forsætisnefndina að hugleiða það vandlega hvort ekki er nauðsynlegt að breyta þessu formi eitthvað svo það skapist vettvangur fyrir vandaða efnisumfjöllun um þessar skýrslur. Það verður tiltölulega dautt form ef við höldum okkur bara við það að einu sinni á ári séu þessar skýrslur ræddar hér og þeir sem að verkinu hafa komið geti ekki tekið þátt í umfjölluninni. Það t.d. gerir það að verkum að þeir sem vilja gagnrýna hika kannski við að ganga eins langt og þeir vildu gera, bera ekki fram spurningar vegna þess að þeir vita að þingmenn geta ekki svarað þeim, forsætisnefndin getur ekki svarað þeim og þeir einu sem gætu svarað þeim eru ekki viðstaddir umræðuna.
    Ég vona að þingið geti fundið sér form til að geta sinnt því hlutverki sínu að vera ábyrgðaraðili gagnvart Ríkisendurskoðun. Ég vona einnig að nýr yfirmaður Ríkisendurskoðunar hugleiði vandlega reynsluna af störfunum á undanförnum missirum þannig að það geti skapast meiri samstaða um þær aðferðir og þær niðurstöður sem Ríkisendurskoðun fylgir.