Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 14:19:10 (2223)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að bregðast skjótt við og koma í þingsal og bjarga þar með orðstír ríkisstjórnarinnar að hluta til. Það er auðvitað alls ekki nóg og ég verð að gera það að umtalsefni að mér finnst býsna sérkennileg þau sjónarmið sem virðast ráða hér að í hvert sinn sem eitthvert málefni snertir eingöngu eða er flutt af þingmönnum eða forsætisnefndinni láti ráðherrar sig hverfa og láti eins og málin komi þeim ekkert við. Þær skýrslur sem hér eru til umræðu snerta framkvæmdarvaldið, eins og ég nefndi áðan, og það er auðvitað óviðunandi að ræða þessi mál án þess að ráðherrar séu hér og sitji fyrir svörum. Þetta er í eitt af fáum skiptum sem farið er í gegnum svona heildarskýrslur þar sem sjá má úttekt á ýmsum framkvæmdum á vegum ríkisins og ýmsar athugasemdir sem gerðar hafa verið við rekstur ríkisstofnana. Það er hart við það að búa að ekki skuli vera hægt að fá svör hjá ráðherrum. En ég ætla samt að láta mér lynda að glugga aðeins í þessar skýrslur Ríkisendurskoðunar fyrir árin 1990 og 1991.
    Það er auðvitað ljóst af þessum skýrslum að Ríkisendurskoðun vinnur mikið og merkilegt starf. Í ljósi þess að stofnunin heyrir undir Alþingi koma þessar skýrslur til umræðu og hafa þá beðið býsna lengi. Sú spurning sem fyrst og fremst vaknar við lestur þessara skýrslna er sú hvernig þeim er fylgt eftir. Það eru gerðar hér úttektir á heilu stofnununum og lagðar fram tillögur um það hvernig eigi að endurskipuleggja þær og við hljótum að spyrja hvað hefur verið gert. Hér eru teknir fyrir sjóðir og staða þeirra skýrð og skoðuð og við hljótum líka að spyrja: Hvað hefur verið gert í framhaldi af því? Hvað er það sem menn læra af þessu starfi Ríkisendurskoðunar? Það er meginspurningin.
    Ef við lítum á skýrslu ársins 1990, þá fór fram stjórnsýsluendurskoðun á tveimur stofnunum, þeirri stóru stofnun sem nefnist Póstur og sími og er hér í nágrenni við okkur alþingismenn. Þar voru lagðar fram tillögur til úrbóta varðandi skipulag stofnunarinnar. Ég hlýt að spyrja hvað gert hefur verið í þeim málum. Hvernig hefur þeim tillögum verið fylgt eftir?
    Þá var líka gerð úttekt á Launaskrifstofu ríkisins. Sú skrifstofa kemur reyndar líka við sögu í skýrslu umboðsmanns sem hér er til umræðu á eftir. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað hefur verið gert til þess að endurskipuleggja starfsemi Launaskrifstofu ríkisins?
    Af þeim skýrslum sem gefnar voru út árið 1990 vöktu ekki síst athygli skýrslurnar um Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna. Samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar stóðu báðir þessir sjóðir mjög illa enda hefur Byggingarsjóði ríkisins verið lokað að mestu leyti en ríkið situr auðvitað uppi með miklar skuldir vegna hans. Ríkisendurskoðun lagði til eða benti á að ef ekki kæmu til aukin ríkisframlög yrði að hækka vexti verulega og það hefur nú verið gert. Það er nýbúið að hækka vexti í Byggingarsjóði verkamanna en það verður fróðlegt að sjá hvort atvinnunefndin tekur á því máli hér á næstu dögum. Ég á erfitt með að trúa því að verkalýðshreyfingin sætti sig við þessa vaxtahækkun. En spurningin er auðvitað: Hvernig hefur verið tekið á stöðu þessara sjóða og duga þær aðgerðir? Hvað þýðir þetta fyrir framtíðina? Hvað þýðir þetta fyrir skuldastöðu og greiðslur ríkisins í framtíðinni?

    Það var gerð úttekt á húsbréfakerfinu og samkvæmt útreikningum Ríkisendurskoðunar taldist þeim svo til að húsbréfakerfið þyrfti um 12 milljarða á ári til þess að haldast í jafnvægi. Það kom fljótlega í ljós að kerfið kallaði á mun meira lánsfé en á þessu ári og næsta ári er áætlað að halda útlánum við 12 milljarða kr. Ríkisendurskoðun reiknaði með að vaxtabótakerfið mundi kalla á 2--2,3 milljarða kr. á næstu árum, eins og segir í skýrslunni, en samkvæmt fjárlögum þessa árs eru greiddir út 3 milljarðar í vaxtabótum. Það kemur fram í fjárlagafrv. að einhverjar breytingar eru fyrirhugaðar á vaxtabótakerfinu þó að engar slíkar tillögur hafi litið dagsins ljós. Ég hlýt að vara við því að farið verði að krukka í vaxtabótakerfið, að enn einu sinni verði fæti brugðið fyrir það fólk sem hefur verið að kaupa íbúðir og reikna út sína skulda- og eignastöðu. Það er auðvitað ljóst að ef kerfið er ekki í jafnvægi vaxa þær upphæðir sem fara til vaxtabóta.
    Það er líka athyglisvert varðandi skýrsluna um Þjóðleikhúsið, sem snertir fyrrv. menntmrh. sem hér situr í salnum, að Ríkisendurskoðun varaði við því að þar væri farið of hratt og farið út í framkvæmdir og útboð áður en teikningar og verklýsingar væru tilbúnar. Hér er því slegið fram að svona vinnubrögð hafi reynst dýr. Eftir því sem ég best veit eru frekari umbætur nánast úr sögunni í bili í Þjóðleikhúsinu. Það er auðvitað ekki gott mál að hætta svona í miðjum klíðum og ljúka ekki þessu verki. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvað ætlunin sé að gera í því mikla og erfiða máli. Hann verður að sitja fyrir svörum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.
    Varðandi skýrsluna fyrir árið 1992, þá eru þar ýmsir kunningjar. Þar er fyrst af frægum að nefna skýrsluna um Þormóð ramma en eins og fram hefur komið hafa verið allmiklar deilur um niðurstöður þeirrar skýrslu. Ég ætla ekki að leggja dóm á það mál en í framhaldi af skýrslunni um söluna á hlutabréfunum í Þormóði ramma benti Ríkisendurskoðun á, það er á bls. 5 í skýrslunni, að full þörf væri á því að setja með formlegum hætti samræmdar almennar reglur um það hvernig standa skuli að sölu á eignum ríkisins með sama hætti og settar hafa verið reglur um hvernig standa skuli að opinberum innkaupum. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hafa þessar reglur verið settar eða stendur til að setja þær? Þarna er sem sagt enn ein spurningin um það hvernig ábendingum Ríkisendurskoðunar hefur verið fylgt eftir.
    Á árinu 1991 var gerð mikil úttekt á Ríkisspítölunum. Þá vaknar líka sú spurning hvernig þeirri könnun hefur verið fylgt eftir. Það er ýmislegt sem fram kemur í athugasemdunum um Ríkisspítalana sem vert er að staldra við. Ríkisendurskoðun dregur t.d. í efa að það samræmist markmiðum Ríkisspítalanna að reka dagheimili með ærnum tilkostnaði og fara þar með inn á verksvið bæjar- og sveitarfélaga. Ég á erfitt með að sjá það að stofnanir eins og Ríkisspítalarnir hafi ekki heimild til að reka dagvistarheimili til þess að fá til sín starfsfólk og tel slæmt að það sé verið að leggja stein í götu slíkra stofnana því nógu erfið er staðan í dagvistarmálum í borginni þó að ekki sé verið að gera fólki enn erfiðara fyrir eins og raunin hefur reyndar orðið.
    Ríkisendurskoðun lagði til að komið yrði á fót sérstakri þróunardeild í heilbrrn. til þess að marka framtíðarstefnu í málefnum sjúkrahúsanna og í öðrum heilbrigðismálum, ,,ákveða verkaskiptingu og stuðla að frekari samvinnu sjúkrahúsa``, eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta. Mér þætti fróðlegt að vita hvort komið hefur verið á slíkri deild í heilbrrn. eða hver staðan er í þeim málum.
    Það komu þarna fram ýmsar tillögur um nýja verkaskiptingu á sjúkrahúsunum sem ég veit ekki til að hafi verið fylgt eftir. Hér er bent á að lokanir deilda, sem hafa verið eitt helsta ráðið sem heilbrrn. hefur gripið til í sparnaðarskyni, spara lítið þegar öll kurl koma til grafar, eins og segir á bls. 6--7. Það vakna því margar spurningar um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í sparnaðarmálum, spurningar sem fróðlegt hefði verið að fá svör við hjá hæstv. heilbrrh.
    Við vitnuðum mikið í skýrsluna um Lánasjóð ísl. námsmanna á síðasta vori. Eins og við vitum hafa þegar verið gerðar miklar breytingar á lögunum um lánasjóðinn. Ríkisendurskoðun benti náttúrlega fyrst og fremst á það að sjóðurinn ætti fyrir eignum ef hann yrði gerður upp en áframhaldandi vöxtur mundi kalla á aukin ríkisframlög og þá erfiðu stöðu sem sjóðurinn hefur verið settur í vegna þess hve honum hefur verið vísað í ríkum mæli út á lánamarkaðinn þar sem hann hefur orðið að taka lán með háum vöxtum. Við munum á næstu dögum ræða frekar um málefni lánasjóðsins svo ég ætla ekki að víkja að honum neitt frekar.
    Það fór fram stjórnsýsluendurskoðun hjá Tryggingastofnun ríkisins og fróðlegt þætti mér að vita hvort þeirri skoðun hefur verið fylgt eitthvað eftir. Þar kemur margt merkilegt fram eins og það að stjórnskipulag Tryggingastofnunar hefur verið nánast óbreytt síðustu áratugi þrátt fyrir að tillögur um breytingar hafi komið fram. Hér segir, með leyfi forseta, á bls. 9: ,,Helsti galli stjórnskipulags stofnunarinnar er hin víða stjórnspönn forstjóra.``
    Eins og allir vita er Tryggingastofnunin mikið bákn og eftir því sem mér heyrist frá fulltrúum Kvennalistans í tryggingaráði megi þar margt bæta til að gera stofnunina skilvirkari. Hér segir um Tryggingastofnun á bls. 10, með leyfi forseta: ,,Óhentugt og úrelt stjórnskipulag svo að ráðherraráðning ýmissa lykilmanna stofnunarinnar draga þó úr möguleikum forstjóra á að sinna því hlutverki sínu á fullnægjandi hátt.`` Þ.e. að stjórna þessari stofnun. Hér eru gerðar mjög veigamiklar athugasemdir við skipulag og stjórnun Tryggingastofnunar og við hljótum að spyrja hvernig þeim verður fylgt eftir.
    Á síðasta ári var gerð úttekt á öllum helstu sjóðum ríkisins, Byggðastofnun, Framkvæmdasjóði, sem hefur nú verið lagður undir Lánasýslu ríkisins, og ýmsum fleiri sjóðum sem átt hafa í miklum erfiðleikum, hafa lánað mikið fé en fá lítið til baka. Við vitum að þetta komum við til með að greiða á næstu árum og áratugum.
    Að lokum, virðulegi forseti, get ég ekki annað en vakið athygli á hinni ótryggu stöðu Byggðastofnunar. Við hljótum að spyrja hvað ríkisstjórnin ætlar sér með Byggðastofnun. Hennar staða er afar erfið og í rauninni óljóst hvaða hlutverki hún á að gegna í framtíðinni. Ég spyr hæstv. fjmrh. hvað ríkisstjórnin ætlar sér með þá stofnun.
    Að lokum vaknar sú spurning hvort Ríkisendurskoðun þjóni því hlutverki sem henni er ætlað. Við getum spurt okkur: Eru skýrslur hennar hlutlausar? Eru þær vandlega unnar og gefa þær rétta mynd af því ástandi sem verið er að kanna? Við þekkjum það af deilunum um Þormóð ramma og deilunum um það hvernig gerð skuli grein fyrir skuldastöðu ríkissjóðs að það eru auðvitað skiptar skoðanir um þessi mál. Ég tel þó að starf þessarar stofnunar sé afar mikilvægt og mjög nauðsynlegt bæði fyrir alþingismenn og ríkisstofnanir að geta leitað til stofnunar eins og Ríkisendurskoðunar. Að sjálfsögðu þurfi þó að fara rækilega ofan í starfsemi hennar og fylgjast vel með skýrslum þaðan og ræða þær í ríkara mæli en gert hefur verið.