Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 14:38:44 (2226)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get verið sammála hv. 18. þm. Reykv. um það að ekkert óeðlilegt er við að það sé fjölbreytilegt form á rekstri dagvistunarstofnana. Þetta mál snýst ekki um það. Þetta mál snýst um það að hér hefur það gerst að stofnanir ríkisins, sem eru sjúkrahúsin, hafa verið að reka dagvistunarstofnanir. Það var upplýst í greinargerð þeirrar þáltill. sem ég og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson fluttum að kostnaður við þetta væri á þriðja hundrað milljónir á ári sem sannarlega eiga í þessu tilviki að greiðast af viðkomandi sveitarfélögum. Ég tel mjög eðlilegt að þessum kostnaði sé létt af ríkinu. Það er auðvelt að finna þeim orðum stað að a.m.k. Ríkisspítalarnir og önnur sjúkrahús í landinu gætu hæglega nýtt þetta fé til annarra hluta. Það liggur auðvitað í augum uppi, eins og hv. þm. veit, að í landinu eru ákveðnar reglur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eins og ég rakti áðan og eins og hv. þm. veit er það þannig að dagvistunarstofnanir eru greiddar af sveitarfélögunum. (Gripið fram í.) Dagvistunarstofnanir eru greiddar af sveitarfélögum. Það vill þannig til, hv. þm., að greiðslur á kostnaði við dagvistunarstofnanir sjúkrahúsanna eru ekki bundnar við Reykjavík. Það er þess vegna sem ég nefndi ekki Reykjavík, hv. þm., heldur nefndi ég sveitarfélögin og ég vona að hv. þm. viti hvaða stjórnsýslueining það er.