Starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar 1990 og 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 14:41:05 (2228)

     Jón Kristjánsson :

    Herra forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. er mættur á staðinn og fagna ég því auðvitað. En ég sé að það er illt í efni að frummælandi er horfinn á braut. Mér finnst nú satt að segja dálítið skothent að halda áfram þessari umræðu og að sá hlýði ekki á fyrir hönd Alþingis sem mælir fyrir málinu. Vil ég nú spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé rétt að fresta þessu máli. Ég gæti að vísu fallist á það að flytja mál mitt af því að það er ekki langt. Það voru einkum spurningar til fjmrh. sem ég vildi bera fram. Ég vildi beina því til hæstv. forseta, hvort ekki væri rétt, af því að áreiðanlega eru fleiri á mælendaskrá, að gera hlé á. ( Forseti: Forseti getur fallist á að þessari umræðu verði frestað. Það hafði komið ósk um það og verið gert ráð fyrir að fresta þessari umræðu innan tíðar. En ef þingmaðurinn óskar eftir því og er tilbúinn að gera hlé á ræðu sinni þá er forseti tilbúinn til að fresta þessari umræðu.)
    Hæstv. forseti. Ég er tilbúinn til að segja þau orð sem ég ætlaði að segja hér nú en ef --- ( Forseti: Forseti mun þá fresta umræðu að lokinni ræðu hv. þm.)
    Mín ræða í þessu máli átti ekki að verða löng og ég tel að breytt skipulag á starfsemi Ríkisendurskoðunar sé til bóta. Það hefur oft komið fram að það eru miklar endurbætur í stjórnsýslunni síðan hún kom undir Alþingi en hætti að heyra undir framkvæmdarvaldið. Hins vegar er það svo með hinni nýju skipan að verk stofnunarinnar vekja meiri athygli og umtal í þjóðfélaginu þegar þau birtast en áður var.
    Það hefur verið svo undanfarið að Ríkisendurskoðun hefur verið nokkuð í sviðsljósinu og m.a. vegna ágreinings við fjmrn. út af uppsetningu fjárlaga. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í þær deilur sem verið hafa um það. Ég vil benda á að á vegum fjmrn. er ríkisreikninganefnd að störfum. Fyrir störfum hennar er gerð rækileg grein í fjárlagafrv., sem liggur fyrir, á bls. 368--373. Ég hygg að það sé rétt að bíða eftir tillögum ríkisreikninganefndar um þessi mál en þær eru væntanlegar, það er upplýst, fyrir áramót 1993.
    Það er sagt frá því hér í fjárlagafrv. á bls. 373 um áhrif tillagnanna, sem væntanlegar eru, með leyfi forseta: ,,Tilllögur vinnuhópsins hafa veruleg áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlaga og ríkisreiknings. Þannig verða heildartekjur og heildargjöld ríkissjóðs 15,5 milljörðum kr. hærri samkvæmt tillögunum en fram kemur í fjárlögum fyrir árið 1992. Þyngst vegur gjaldfærsla ýmissa bótagreiðslna í tekjuskatti einstaklinga og tilfærsla á sértekjum frá gjaldahlið.``
    Hér hafa verið á undanförnum vikum deilur um að hversu mikill halli væri á ríkissjóði og ég ætla í sjálfu sér ekki að blanda mér í þær deilur. Það hefur komið fram að áætlaður halli á yfirstandandi ári er í rauninni meiri ef fjárlögin eru sett upp á rekstrargrunni en greiðslugrunni. En ég tel að það sé mjög áríðandi að það komist niðurstaða í þessi mál og þessum deilum milli Ríkisendurskoðunar og fjmrn. eða skoðanaskiptum um þessi mál linni. Og ég tel að sú nefnd og þeir vinnuhópar, sem eru að störfum, séu réttur vettvangur fyrir þá vinnu.
    En það var eitt atriði varðandi uppsetningu fjárlaga sem varðar Ríkisendurskoðun og starfsemi hennar á næsta ári sem ég vildi spyrja út í við þessa umræðu. Ríkisendurskoðun er ætlað að innheimta hærri sértekjur á næsta ári en gert var ráð fyrir á síðasta ári. Hér tel ég að sé farið út á varhugaverða braut og vil spyrja hæstv. fjmrh. hvað fyrir fjmrn. vaki í þessum efnum. Á Ríkisendurskoðun að fara í vaxandi mæli að selja út þjónustu sína eins og hver önnur endurskoðunarskrifstofa eða hvaða tekjustofnar eru þarna og hvað vakir fyrir fjmrh. með þessari uppsetningu? Gert er ráð fyrir að Ríkisendurskoðun innheimti sértekjur upp á 3,6 millj. á næsta ári á móti 1,1 millj. á árinu 1992. Mér finnst þetta vera dálítið einkennilega að verki staðið svo ekki sé meira sagt vegna þess að hér er um stofnun að ræða sem heyrir undir Alþingi. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvaða tekjustofnar eru þetta? Hefur verið haft samráð við forsætisnefnd. Alþingis um uppsetningu á þessum sértekjulið?
    Það er ekki fleira að sinni sem ég hef að leggja inn í þessa umræðu. Ég hef tækifæri til þess, ef umræðan heldur áfram síðar, að fjalla nánar um þessi mál eða aðrir úr þingflokki Framsfl. sem það kynnu að vilja.