Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 15:09:31 (2232)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka frsm. fyrir þá ítarlegu ræðu sem hann flutti. Hann kom inn á margt það sem merkast er í þessum skýrslum en ég vil vekja athygli á því í upphafi máls míns að samkvæmt dagskrá á eingöngu að ræða skýrslu ársins 1991. Mér skilst að þetta sé villa en ég tók þetta mjög bókstaflega og fjallaði aðeins um skýrsluna fyrir árið 1991.
    Eins og hefur verið komið inn á var embætti umboðsmanns Alþingis stofnað með lögum nr. 13/1987, en Íslendingar voru óvenjuseinir til að stofna slíkt embætti og stafar það e.t.v. af því að menn hafi talið að almenningur hér á landi ætti greiðan aðgang að stjórnvöldum og dómstólum. Reynslan hefur leitt í ljós að mikil þörf var fyrir embætti umboðsmanns Alþingis hér á landi, ekki eingöngu vegna þeirra sem leita þurfa réttar síns og telja sig misrétti beitta af stjórnvöldum, heldur ekki síður vegna þess aðhalds sem embættið veitir stjórnkerfinu.
    Í mars sl. sótti ég fund nefndar þeirrar sem fer með málefni flóttamanna, mannfjöldaþróunar og lýðfræði innan Evrópuráðsins, en ég á sæti í þeirri nefnd. Á þeim fundi, sem haldinn var í Valencia á Spáni, var farið gegnum stöðu mála þar í landi og var staða flóttamanna einkum könnuð. Umboðsmaður fólksins, eins og hann heitir á Spáni og jafngildir embætti umboðsmanns Alþingis hér á landi, kom á fund nefndarinnar til að greina frá því hvernig málefni flóttamanna snerta embætti hans. Hann sagði okkur jafnframt frá ýmsu því sem hans embætti fæst við. Það vakti athygli mína hve umboðsmaðurinn naut mikillar virðingar. Sjónvarpsstöðvar voru mættar til að fylgjast með máli hans, spænskir þingmenn, sem þarna voru mættir, lýstu því hve þungt álit hans vega í spænska stjórkerfinu og sögðu að stjórnvöld tækju mikið mark á hans ábendingum sem hann leggur fram til úrbóta í stjórnkerfi þeirra. Þá kom einnig fram að spænski umboðsmaðurinn heimsækir spænska þingið einu sinni á ári, gefur því skýrslu sína, svarar fyrirspurnum og hlýðir á umræðuna um skýrslu umboðsmannsins. Síðan víkur hann af þingfundi.
    Mér þótti þetta mjög athyglisvert og hjá mér vöknuðu spurningar um það hver staða umboðsmannsins íslenska er, hvort hann njóti tilhlýðilegrar virðingar, hvort stjórnvöld virði ábendingar hans og ekki síst hvort fjölmiðlar veiti störfum hans nægilega athygli. Samkvæmt skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir

árið 1991 kvartar hann ekki og telur að stjórnvöld taki oftast mið af álitum hans enda eru þess dæmi að ráðuneyti hafi tapað málum fyrir dómstólum, málum sem ráðuneytið neitað að leiðrétta í samræmi við álit umboðsmanns en fóru síðan rétta leið til dómstólanna.
    Í skýrslunni fyrir árið 1991 kemur fram að fjöldi mála sem embætti umboðsmanns Alþingis tók fyrir var 170. Þar af tók umboðsmaðurinn upp tvö mál að eigin frumkvæði.
    Þegar málalistinn er skoðaður kemur margt athyglisvert í ljós. Í fyrsta lagi er merkilegt hve fáar konur leita til umboðsmannsins. 28 konur áttu við hann erindi á móti 123 körlum. Nú er það svo í þjóðfélagi okkar að staða kvenna er mun lakari en staða karla og iðulega brotið á þeim jafnt á vinnumarkaði sem í einkalífi. Það kann að vera að tilvist Jafnréttisráðs og tilvist kvörtunarnefndar Jafnréttisráðs hafi einhver áhrif en ég hlýt að spyrja hvaða skýring er á þessum mikla mun milli kynjanna. Getur verið að konum sé ekki almennt kunnugt um þann möguleika sem felst í því að leita til umboðsmanns Alþingis eða speglar þessi mikli munur einhvers konar mismun á virkni og óvirkni? Ég held að það sé ekki raunin og við þurfum að kafa dýpra eftir skýringum. En við hljótum að spyrja hvort öllum almenningi hér á landi sé ljóst hvaða möguleikar felast í því að leitar réttar síns hjá umboðsmanni Alþingis.
    Þá er athyglisvert að skoða hvaðan þeir koma sem leita til umboðsmannsins. Eins og vænta mátti eiga flest málin uppruna sinn í Reykjavík og á Reykjanesi, en það vekur athygli hve Vestfirðingar eru duglegir að leita til umboðsmannsins miðað við íbúafjölda. Þegar litið er á það að hverju kvartanirnar beinast kemur í ljós að 25 mál snerta málefni dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Það kemur ekki mjög á óvart því að þar er m.a. að nefna mál sem snerta barnavernd og forræðismál og annað slíkt. 25 mál af þessum 170 sem umboðsmaðurinn fjallaði um á sl. ári snúast um stjórnun fiskveiða og þar kemur kannski skýringin á því hve Vestfirðingar eru iðnir við að leita til umboðsmannsins. Málafjöldinn varðandi stjórnun fiskveiða sýnir að mínum dómi hve vandasamt mál er á ferðinni og umdeilt.
    Sú spurning vaknar við lestur skýrslunnar hvernig þeim málum, sem koma til umboðsmannsins og hann gefur álit sitt á, er fylgt eftir. Ég ætla að varpa fram nokkrum spurningum en hér eru fáir til svara. Engu að síður ætla ég að láta þessar spurningar koma fram.
    Eitt af þeim málum sem umboðsmaðurinn fjallaði um varðaði erlenda leiðsögumenn sem störfuðu hér á landi. Hann leggur til að félmrn. komi málefnum erlendra leiðsögumanna í löglegt horf, eins og segir í skýrslunni og sú spurning vaknar hvort eitthvað hafi verið gert í því máli.
    Eins og fram kom í máli frsm., hv. 3. þm. Reykv., hefur umboðsmaður Alþingis ítrekað bent á seinagang hjá ýmsum ríkisstofnum og þar er ekki síst að nefna lögregluna og skattayfirvöld svo og meðferð mála hjá ríkissaksóknara og jafnvel dómstólum. Við hljótum að spyrja hvort og hvernig hafi verið brugðist við þessum athugasemdum. Umboðsmaður Alþingis gerir athugasemd við það í skýrslunni fyrir árið 1991 að fólki sé ekki tilkynnt um það þegar stjórnvöld, t.d. lögreglan, kemst að niðurstöðu í málum og mér er spurn hvort bætt hafi verið úr því. Mér er kunnugt um mál þar sem dómur hefur verið felldur og fólk hefur ekki hugmynd um niðurstöðuna.
    Í skýrslunni er sagt frá málum sem snerta launagreiðslur ríkisins og sú spurning vaknar hvort þeim málum hafi verið kippt í liðinn þar sem áfátt var. Eitt málið snertir kaupskrárnefnd utanrrn., þ.e. launanefnd sem ákveður laun starfsmanna á Keflavíkurflugvelli, og umboðsmaður bendir á að þar þurfi að taka til hendi og spurningin er hvort það hafi verið gert. Fleiri dæmi mætti nefna úr skýrslunni en frsm. vék að mörgum málum og ég ætla ekki að endurtaka það. Það má ljóst vera af þessari upptalningu að við stöndum auðvitað frammi fyrir ýmsum málum sem við þingmenn ættum að spyrja ráðherra um. Hér eru efni í fyrirspurnir.
    Virðulegi forseti. Ég tel að embætti umboðsmanns Alþingis gegni mjög mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar. Hann er kjörinn af Alþingi og því ber okkur alþingismönnum að standa vörð um virðingu þessa embættis, fylgja málum eftir og kanna hvort framkvæmdarvaldið sinnir þeim ábendingum sem frá umboðsmanninum koma. Samfélag okkar verður æ flóknara og vandamál einstaklinganna æ fjölbreyttari. Því er afar brýnt að standa vörð um lög og rétt og tryggja að fólk geti leitað réttar síns jafnframt því að við sjáum til þess að hér á landi sé haldið uppi góðum stjórnarháttum. Í því starfi er embætti umboðsmanns Alþingis afar mikilvægt.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég nefna að umboðsmaðurinn á Spáni gat þess að til hans leita oft útlendingar sem telja á sér brotið á Spáni, en mér er alls ekki ljóst af þeim lögum sem gilda hér á landi um umboðsmann Alþingis hvort útlendingar, t.d. flóttamenn, eiga greiðan aðgang að umboðsmanni Alþingis. Í lögunum stendur, með leyfi forseta:
    ,,Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.``
    Og síðar segir: ,,Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir kvörtun eða að sjálfs síns frumkvæði.
    Kvörtun getur hver sá borið fram við umboðsmann sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum.``
    Lokaspurning mín er hvort það sé skilningur umboðsmanns Alþingis að þetta ákvæði nái einnig til útlendinga. Við því hef ég ekki fengið svar.