Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 15:51:36 (2235)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður ræddi þá afstöðu ráðuneytisins að neita að kveða upp skuldbindandi úrskurð vegna gatnagerðargjalda. Ég vil af þessu tilefni vísa í 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga en þar segir:
    ,,Ráðuneytið skal úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerðir þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum.``
    Ákvæði þetta er almennt orðað og er ekki að finna neinar leiðbeiningar í athugasemdum við frv. til sveitarstjórnarlaga eða öðrum lögskýringargögnum hvernig beri að skýra ákvæðin.
    Ég vil einnig benda á að í þessu sambandi hlýtur að vega þungt sjálfsforræði sveitarfélaga í eigin málum og um það er reyndar kveðið á í stjórnarskránni. Sú regla er leidd af því að sveitarstjórnir skulu sjálfar taka ákvarðanir um þau málefni sem þeim eru falin með lögum en ríkisvaldið geti ekki hróflað við efni slíkra ákvarðana nema til þess sé skýr lagaheimild. Með vísan til sjálfsforræðis sveitarfélaga er það skoðun ráðuneytisins að skýra beri 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga þröngt, þ.e. að ákvæðið veiti ráðuneytinu einungis heimild til þess að úrskurða með skuldbindandi hætti um form þeirra ákvarðana sem undir sveitarstjórn heyra en ekki efni.
    Við úrlausn á því hvort ágreiningur um lögmæti gatnagerðargjalda falli undir 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga verður að auki að hafa í huga að löggjafinn hefur skipað skattamálum sveitarfélaganna með ýmsum hætti. Dæmi eru um að embættismönnum ríkisins, skattstjórum, sé falið að leggja á skatta sem til sveitarfélaga renna, svo sem útsvar en slíkum ákvörðunum verður að sjálfsögðu skotið til æðri stjórnvalda. Í öðrum tilvikum leggja sveitarstjórnir sjálfar á slíka skatta, svo sem fasteignaskatt og gatnagerðargjöld. Það er sérstaklega tekið fram vegna álagningar fasteignaskatts að hægt sé að skjóta ágreiningi í því máli til æðri stjórnvalda en ekkert sambærilegt ákvæði er að finna í lögum nr. 51/1974 varðandi gatnagerðargjöld. Með gagnályktun frá þeim lögum er það álit félmrn. að ráðueytið eigi ekki að óbreyttum lögum úrskurðarvald um lögmæti gatnagerðargjalda.
    Ég vil einnig að það komi fram að félmrn. hefur leitast við að fara eftir tilmælum umboðsmanns Alþingis eftir því sem það hefur talið fært. Ráðuneytið tekur undir það sjónarmið sem fram hefur komið hjá umboðsmanni að rök liggja til þess að einstaklingar geti borið lögmæti gatnagerðargjalda, eins og annarra skatta sem til sveitarfélaga renna, undir æðri stjórnvöld. Af þeirri ástæðu mun ráðuneytið beina því til nefndar, sem ákveðið hefur verið að skipa til þess að endurskoða núgildandi lög um gatnagerðargjöld, að skoða þetta atriði sem hér hefur verið rætt sérstaklega.