Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1991

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 15:57:16 (2237)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir þriðja og fjórða starfsár þeirrar stofnunar. Ég leyfi mér að þakka þessar skýrslur og það starf umboðsmanns og starfsliðs hans sem frá er skýrt í þessum skýrslum. Þessi stofnun hefur nú fest sig í sessi og ég hygg að með því brautryðjandastarfi hafi starfsliðið skapað embættinu þá stöðu að það nýtur virðingar sem gefur því möguleika til að fylgja eftir viðhorfum sínum og álitum. Umboðsmanni Alþingis hefur þegar tekist að þoka mörgum málum til betri vegar eins og fram kemur í þessum skýrslum og reyndar í þeim umræðum sem hér hafa farið fram.
    Það er líka vert að benda á og þakka að það hefur ekki farið eins og margir óttast þegar nýjar stofnanir eru settar á fót hafi þær tilhneigingu til þess að stækka ört í upphafi og þenjast út. Í þessari stofnun tel ég að hafi verið haldið mjög vel á málum að þessu leyti. Það hefur tekist að velja þangað gott starfslið sem hefur leyst þessi verkefni vel af hendi án þess að um fjölmenna stofnun yrði að ræða. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að Alþingi taki jákvæða afstöðu til ábendinga umboðsmanns og styðji hann í þessu mikilvæga starfi. Í þessum umræðum hefur verið bent á atriði þar sem tilmæli umboðsmanns hafa ekki verið nægjanlega tekin til greina og náð fram að ganga. Þau þarf að sjálfsögðu að taka til skoðunar og sjá hvað þar er hægt að gera til að bæta úr. Það hefur einnig verið vakið athygli á ýmsu sem gagnlegt er bæði fyrir löggjafarvald og framkvæmdarvald að hafa í huga í framtíðinni. Ýmis slík atriði komu fram í máli frsm. allshn., hv. 3. þm. Reykv. Þar má benda á að ekki eigi að ganga of langt í setningu reglugerða eða veitingu heimilda til þeirra nema það sé þá skýrt afmarkað hvert svið þeirra eigi að vera. Það finnast mér orð í tíma töluð eins og fram hefur komið í umræðum áður þegar fyrir þinginu liggja mörg frumvörp þar sem gengið er lengra í heimildum til reglugerðarsetninga en áður hefur verið.
    Þá var vakin athygli á ábendingu umboðsmanns um setningu stjórnsýslulaga en þau eiga m.a. að fela í sér ákvæði um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Ég vil aðeins benda á í því sambandi að nú liggur fyrir eitt frv. sem inniheldur slíkt ákvæði, þ.e. um upplýsingaskyldu um umhverfismál. Það mál er nú til meðferðar í umhverfisnefnd og þar er aðalálitamálið hversu langt eigi að ganga í ákvæðum um upplýsingaskyldu sem allir eru sammála um að ekki megi vera alveg fortakslaus en undantekningarheimildirnar mega þó ekki leiða til þess að það verði beinlínis til að þrengja upplýsingaskylduna. E.t.v. mun setning þeirra laga sem frv. liggur fyrir um verða nokkur prófsteinn á þetta atriði og auðvelda framhaldið með þeirri reynslu sem þar fæst.
    Ég vil svo að lokum aðeins víkja að málsmeðferð við þessar umræður. Það var ákvörðun forsætisnefndar að vísa þessum skýrslum til allshn. til skoðunar áður en umræðan færi fram. Ég held að það sé gagnlegt til þess m.a. að gefa umboðsmanni og starfsliði hans kost á að koma ábendingum á framfæri beint við þingmenn um þau atriði sem þeir vilja sérstaklega leggja áherslu á. Auk þess tel ég að það hafi verið mjög gagnlegt fyrir allshn. að fá þá gesti á sinn fund. Að sjálfsögðu er möguleiki líka ef sérstakar óskir koma fram um það við þessa umræðu hér að fresta umræðunni og óska eftir því að allshn. leiti svara við spurningum sem ekki er hægt að fá svarað hér beint við umræðuna. Þetta tengist þeirri umræðu sem fram fór fyrr í dag um skýrslu Ríkisendurskoðunar sem enn hefur ekki fengið þá meðferð hjá forsætisnefnd að vera vísað til sérstakrar nefndar fyrir umræðu. Þetta hvort tveggja gefur tilefni til þess að huga að breytingum á þingsköpum um það atriði að þarna sé umræðum um skýrslurnar markaður ákveðnari farvegur. Eins og ég sagði tel ég að forsætisnefnd og Alþingi geti ákveðið slíka málsmeðferð þó að það sé ekki beinlínis tekið fram en það mundi skapa meiri festu í meðferð þessara umræðna ef ákveðnari ákvæði væru um það í þingsköpum.