Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:28:45 (2244)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að þetta frv. sem hér er til umræðu sé byggt að mörgu leyti á mjög jákvæðri hugmynd, þ.e. þeirri hugmynd að efla virðingu fyrir afreksmönnum í íþróttum. Ég tek undir þau orð hv. 1. flm. frv. að það er mjög mikilvægt að búa vel að íþróttunum í landinu og efla þann hugsunarhátt að góðir íþróttamenn og afreksmenn á sviði íþrótta séu í sjálfu sér jákvæðar ímyndir fyrir æsku landsins. Þess vegna tel ég sérstaka ástæðu til þess, vegna þess að tilefni gefst til þess í þessari umræðu, að andmæla því sjónarmiði sem stundum heyrist að afreksmennska í íþróttum sé eitthvað neikvætt og gagnstætt því að efla almennar íþróttir í landinu. Stundum hafa menn sagt sem svo að það að íþróttahreyfingin leggi áherslu á afreksíþróttir sé í andstöðu við almenna íþróttaiðkan í landinu og komi niður á henni. Þetta held ég að sé alveg fráleitt og ég held að einmitt það að efla áhuga fólks á afreksmönnum og benda fólki á afrek íslenskra íþróttamanna sé mjög jákvætt innlegg í það að auka gildi íþróttanna sem allir eru sammála um að er ótvírætt í okkar þjóðfélagi.
    Það er því ekki vegna þess að ég hafi ímugust á íþróttum né telji að afreksmennska í íþróttum sé eitthvað af hinu vonda að ég leyfi mér að andmæla því frv. sem hér er lagt fram. Ég ætla að gera það á öðrum forsendum og leyfa mér að benda á hluti sem mér finnst skipta dálitlu máli þegar við erum að ræða um íþróttir, gildi íþrótta, afreksmennsku og það hvort við eigum með þeim hætti sem hér er lagt til að ýta undir og efla áhuga fólks á afreksmönnum í íþróttum.
    Íþróttahreyfingin er auðvitað einhver hin merkasta í okkar landi og innan vébanda hennar starfa þúsundir fólks. Að mjög verulegu leyti er starf íþróttahreyfingarinnar borið uppi af mjög duglegu og áhugasömu áhugafólki, en vegna þess að mál hafa þróast með þeim hætti í nútímaþjóðfélagi kostar íþróttahreyfingin að sjálfsögðu mjög mikið fé. Þess fjár er aflað með ýmsum hætti með samskotum, með félagagjöldum og líka með því að ríkið hefur lagt til íþróttahreyfingarinnar fé nokkuð á ári hverju. Til viðbótar við þetta varð sú breyting á högum íþróttahreyfingarinnar á árinu 1989, hygg ég, að tekjustofnar íþróttahreyfingarinnar efldust með því að hún fékk hluta af lottótekjunum svokölluðu. Menn hafa deilt um það hversu eðlilegt það sé að íþróttahreyfingin fái þennan hlut af lottótekjunum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé mjög eðlilegt og sjálfsagt mál að íþróttahreyfingin, ÍSÍ, fái hlut af þessu vegna þess mikla og ótvíræða hlutverks sem hún gegnir.
    Þess vegna tel ég það mjög eðlilega stefnu, sem mörkuð var á 61. ársþingi Íþróttasambands Íslands, að efling afreksmannasjóðs væri gerð innan vébanda íþróttahreyfingarinnar sjálfrar. Íþróttahreyfingin hefur af þessum lottópeningum mjög miklar tekjur og þess vegna fannst mér það mjög sjálfsögð og góð niðurstaða 61. ársþings ÍSÍ að nota stærri hluta af lottópeningunum, þ.e. 8% í stað 3% áður, til þess að efla afreksmannasjóð ÍSÍ.
    Ég er hlynntur þeirri hugsun sem kemur fram í þessu frv., eins og ég hef margítrekað, en tel ég eðlilegast að Íþróttasamband Íslands sjálft annist fjármögnun og útdeilingu þess fjár sem þarf til þess að standa undir afreksmannasjóði. Þetta segi ég einkanlega vegna þess að þegar maður skoðar fjárlagaliðinn

,,Íþróttamál`` aftur í tímann eins og hann birtist í fjárlögunum --- þessar tölur hafa verið unnar af allt öðru tilefni raunar fyrir fjárln. Alþingis --- kemur fram að á sömu árum og íþróttahreyfingin, sem betur fer, hefur verið að fá auknar tekjur vegna lottósins hafa fjárveitingar á liðnum ,,Íþróttamál`` á fjárlögum Alþingis fyllilega staðið í stað og raunar aukist samkvæmt þeim upplýsingum sem ég byggi hér á.
    Samkvæmt þeim tölum sem ég hef er í fjárlögum ríkisins varið til íþróttamála á verðgildi ársins í ár 72,8 millj. kr. árið 1987, 78,8 millj. kr. 1988 --- ég rúnna auðvitað tölurnar af, það er einfaldara --- 59,7 millj. kr. 1989, 75,6 millj. kr. 1990, 80,5 millj. kr. 1991 og 81,2 millj. kr. 1992. Ef við síðan skoðum tekjur ÍSÍ af lottói á árunum 1989--1991, að sjálfsögðu hef ég ekki tölur fyrir þetta ár vegna þess að þær tölur eru ekki til fyrir allt árið, kemur fram að tekjurnar voru árið 1989 148,5 millj. kr., 1990 154 millj. kr. og 1991 137 millj. kr. Þær hafa aðeins minnkað væntanlega vegna minni þátttöku í lottóinu en engu að síður er hér um að ræða mjög miklar tekjur sem, guði sé lof, íþróttahreyfingin hefur úr að spila. Ég veit að henni veitir ekkert af því í sjálfu sér. Þessi starfsemi er dýr og þarfnast auðvitað mikils fjár. En á árunum frá 1989 til 1991 samkvæmt þeim útreikningum sem ég byggi á og hlýt að treysta á hefur ÍSÍ fengið 439,5 millj. kr. af liðnum ,,lottótekjur``. (Gripið fram í.) Frá árinu 1989 til 1991. Ég hygg að það sé rétt hjá mér að lottóið hafi hafist árið 1989, a.m.k. er mér ekki kunnugt um annað.
    Þess vegna vil ég segja að ég tel það sjálfsagða hugsun sem fram kemur í frv. að efla hlut afreksmanna af ástæðum sem ég hef þegar rakið, en tel hins vegar að ekki standi efni til þess sérstaklega að fé sé veitt af fjárlögum af ástæðum sem ég hef verið að rekja. Ég tel miklu eðlilegra að þeim málum sé skipað eins og þeim er gert núna og að Íþróttasamband Íslands efli þátttöku sína í því eins og ákvörðun var tekin um á 61. ársþingi þess.
    Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að flytja langt mál um þetta. Ég sé á fjölda flutningsmanna að þetta mál nýtur víðtæks stuðnings í flestum stjórnmálaflokkum. Að vísu sé ég ekki fulltrúa Kvennalistans og á ekki von á það hafi neina kvennapólitíska skírskotun að sjá hvergi nafn fulltrúa hans enda hef ég ekki áhuga á að velta því fyrir mér. Ég vildi aðeins leyfa mér að benda á þessa hluti í mikilli vinsemd og vekja á þeim athygli vegna þess að mér finnst að þetta eigi erindi inn í umræðuna og tengjast þeirri ákvörðun Íþróttasambands Íslands sjálfs að taka frumkvæði í þessu máli með þeim hætti sem ég hef þegar lýst.