Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:38:46 (2246)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað eru þau sjónarmið sem fram komu í máli hv. 3. þm. Vestf., Einars K. Guðfinnssonar, góðra gjalda verð. Það er auðvitað spurning hvar á að koma þessum hlutum fyrir. Hér er stuðst við það fyrirkomulag að stórum hluta til að gera líkt og byggt hefur verið upp meðal skákmanna. Þar var það var gert af þeirri ástæðu að til voru menn sem stóðu sig afskaplega vel bæði innan lands og líka á alþjóðlegum vettvangi og ríkisvaldið tekur að stórum hluta þátt í því að kosta skákina hvað afreksmennina eða stórmeistarana snertir og hér er þeirri sömu hugmynd fylgt eftir að að þessu leyti.
    En aðeins út af þeim tölum sem hv. þm. fór með um tekjur íþróttahreyfingarinnar þá hygg ég að honum eigi að vera annað ljóst en kom fram í máli hans. Ég veit að á fundi sem Ungmennafélag Íslands átti með fjárln. sl. mánudag voru kynntar tölur fyrir fulltrúum í fjárln., þar sem hv. þm. situr, þar sem allt annað kom í ljós en þingmaðurinn var að tala um. Því miður er ég ekki með þetta plagg fyrir framan mig en ég hygg ég muni rétt að tekjur Ungmennafélags Íslands með ríkisstyrk, getraunum og öðrum fjáröflunum, sem félagið hafði árið 1987 áður en lottóið kom til, hafi verið í kring um 20 millj. kr. Árið 1991 með ríkisstyrknum, getraununum og lottóinu á föstu verðlagi er þessi upphæð komin niður í tæpar 16 millj. eða 15,8 millj. kr. Auðvitað skiptir það höfuðmáli hver upphæðin er á föstu verðlagi en ekki hvaða krónur menn hafa haft milli handa á hverjum tíma eftir mismunandi verðlagi. Ég hygg að það sé eins með Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélagið að þessar tekjur hafa dregist saman hjá íþróttahreyfingunni í heild. Þess vegna er hún ófær um að mínu viti að koma upp slíkum afreksmannasjóði og hv. þm. var að tala hér um.