Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:41:22 (2247)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur eitthvað skolast til í máli mínu gagnvart hv. þm. Finni Ingólfssyni. Þær tölur sem ég nefndi voru tölur, eins og ég held að ég hafi þráfaldlega útskýrt, um tekjur ÍSÍ, Íþróttasambands Íslands. Því má auðvitað ekki rugla saman við Ungmennafélag Íslands. Bæði þessi samtök vinna að hinum merkustu verkum. En þær tölur sem ég nefndi um tekjur Íþróttasambands Íslands eru þær tölur sem ég hef verið að byggja á. Og ég varð ekki var við að hv. þm. gerði neinar tilraunir til þess að hrekja þær. Þær sýna að á sama tíma og íþróttahreyfingin, guði sé lof, hefur verið að fá auknar tekjur af lottói hafa

tekjur ÍSÍ til íþróttamála ekki verið að dragast saman á fjárlögum ríkisins.
    Varðandi það sem hv. þm. nefndi um að auðvitað beri að bera svona hluti saman á föstu verðlagi er ég honum fullkomlega sammála og þess vegna gerði ég það. Þær tölur sem ég las upp áðan voru einmitt framreiknaðar til verðlags ársins í ár. Mér er það mjög vel ljóst að það er afarlítið gagn í því að bera saman tölur nema þær séu bornar saman á sambærilegum verðlagsgrundvelli.
    Varðandi það sem hv. þm. nefndi með Skáksambandið, án þess að ég þekki fjármál þess sambands, held ég að fram til þessa hafi það samband ekki haft sambærilega tekjustofna og t.d. lottóið. Þess vegna er tæplega hægt að bera saman Íþróttasamband Íslands og Skáksamband Íslands að þessu leytinu.