Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:49:56 (2251)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég geta þess varðandi Kvennalistann að honum var boðin þátttaka á þessu frv. Ég hafði samband við þingflokksformanninn og bauð honum að standa að málinu. Hún tók málið og skoðaði það en eins og sést varð niðurstaðan sú að Kvennalistinn er ekki með á þessu máli. Það þýðir í mínum huga ekki andstöðu Kvennalistans við málið. Það getur vel verið að mismunandi skoðanir séu innan flokksins um það en ég tel að góður hugur sé til málsins hjá einstaka þingmönnum þar.
    Ég verð að segja að mér létti mjög þegar ég hlustaði hér á ræðu hv. þm. Einars Guðfinnssonar. Mér létti mikið. Ég vissi að hann ætlaði að tala gegn málinu en þegar ég heyrði að hann hafði gjörsamlega misskilið málið létti mér mjög mikið. Vegna þess að það er gríðarlegur munur á því að vera efnilegur eða vera afreksmaður. (Gripið fram í.) Hv. þm. er hvort tveggja já, á mismunandi sviðum að vísu. Það er gríðarlegur munur á því. Við erum að tala um það, hv. þm., að við viljum styrkja efnilega unga íþróttamenn ekki afreksmenn. Það er geysilegur munur á því. Við viljum ekki týna þessum ungu, efnilegu íþróttamönnum. Við viljum ekki missa þá út úr íþróttunum eins og við erum að gera í dag. Það er meginhugsunin á bak við frv., ekki það að styðja afreksmenn. Í dag missum við þessa menn út í tugatali. En ef við komum á virkri keppni og hvetjum til frekari þátttöku í íþróttum þar sem menn gera sér grein fyrir að kannski er von á því að þeir verði studdir til frekari dáða, þá held ég að það virki sem hvati. Ef menn setja upp heilu stóru skólamótin með stórum úrslitakeppnum þar sem þessi efni koma fram, þar sem þjálfarar, kennarar, foreldrar eða einhverjir aðrir geta tilnefnt þessa einstaklinga til stjórnarinnar komum við í veg fyrir að missa þessi efni. Þannig getum við hlúð að þeim og þá kannski búið til afreksmenn. En þá líka sleppir tökunum hvað þennan sjóð varðar. Hann er bara forvörn í raun og veru til að við týnum ekki þessum efnum.
    Hvert erum við að týna þeim í dag? Örugglega hluta þeirra í það sem var nefnt hér áðan. Þess vegna í fíkniefnin, í óregluna, í afbrotin. Það er geysilegt forvarnastarf sem er verið að leggja til með þessu litla frv.
    Þess vegna fagna ég því að það er um misskilning að ræða. Og ég vona að þegar hv. þm. hefur áttað sig á því að þetta er misskilningur geti hann stutt málið. Því öll hans rök hnigu að afreksmönnum. Vonandi verða þessir ungu og efnilegu íþróttamenn að afreksmönnum og við verðum stolt af þeim seinna meir og við verðum þá stolt af því að hafa samþykkt lög eins og hér er verið að leggja til. Þetta er meginhugtakið.
    Varðandi afrekssjóðinn og tillöguna sem var samþykkt á ársþingi ÍSÍ gegnir allt öðru máli. Ég tók þátt í að semja þá tillögu og ég þekki hana mjög vel. Það er bara allt annað mál. Hins vegar á ÍSÍ einn af fulltrúum í þessari litlu sjóðstjórn þannig að ÍSÍ er mjög virkur aðili þarna.
    Hv. þm. fór aðeins yfir fjárveitingar til íþróttanna undanfarin ár, að ég hygg frá 1987 til 1992, og þær hafi spannað eitthvað frá rúmum 50 millj. kr. upp í rúmar 80 millj. kr. Finnst þingmanninum það mikið? Nei, það er ekki mikið. Það er skammarlega lítið. Og ekki einu sinni öll sú upphæð sem hv. þm. nefndi fara beint til íþrótta. Upphæðin fer ekki öll þangað.
    Hér var líka minnst á íþróttasjóðinn sem er rangnefni. Það er enginn sjóður. Hann var 16 millj. kr. á síðasta ári. Umsóknir í sjóðinn voru hátt í 300 millj. kr. Menn sjá hvað slíkur sjóður getur gert fyrir 16 millj. kr. Ég fagna því að hér á eftir að koma tillaga sem hnígur að því að efla þann sjóð. Og eftir því hvernig hún er úr garði gerð mun ég væntanlega styðja þá tillögu.
    Þó ÍSÍ fái einhverja fjármuni úr lottósjóðum er það allt annað mál. Lottóið er hugmynd íþróttahreyfingarinnar. Það var ekki frumkvæði ríkisvaldsins sem lottóið var sett á. Hins vegar er það lögverndað. Og vissulega hjálpar það geysilega mikið til innan íþróttahreyfingarinnar að fá þá fjármuni. En það er langur vegur í að það dugi eitthvað. Það er langur vegur. En auðvitað hjálpar það. Innan vébanda ÍSÍ eru tugþúsundir manna og ég efast um að rekstur Íþróttasambands Íslands þegar allt er tekið til, allt sjálfboðaliðsstarf og slíkt, sé undir milljarði. Það er ríkinu og okkur auðvitað til skammar hvernig við stöndum að baki íþróttum.
    Það vantar ekki að menn hlaupi út í Leifsstöð í hvert einasta sinn sem einhver nær góðum árangri og rífi upp veskin og segja: Milljón hér og milljón þar. Borgum þetta og borgum hitt. Þá vilja menn styðja. En þegar við komum með lítið frv. upp á fjórar til fimm milljónir sem er stefnumarkandi frv. fyrir íþróttir í landinu hiksta menn. Ég segi að það er hræðilegur tvískinnungur í þeim mönnum sem hlaupa út í Leifsstöð í hvert sinn sem við náum góðum árangri og ætla að baða sig í ljómanum með íþróttamönnunum. Það er tvískinnungur í því. En ef menn samþykkja mál hér í þingsalnum sem virkilega styðja íþróttahreyfinguna þá skal ég taka mark á þeim. En tyllidagaræður eru einskis virði.
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan eigum við að líta á þetta m.a. sem forvarnastarf. Það sem mun gerast í framhaldi af samþykkt svona frv. er að menn fara að gæta betur að efniviðnum, bæði innan íþróttahreyfingarinnar, íþróttafélaganna í skólunum og á heimilunum. Þegar jafnaldrar sjá strákinn eða stelpuna við hliðina á sér sem allt í einu kom í ljós á einhverju skólamóti eða einhvers staðar að var spretthörð eða stökk langt og það er farið að styðja við bakið á þessum einstakling og framfarir farnar að sjást og hugsanlega að þetta verði afreksmaður, ef nota má það orð, þá virkar það auðvitað sem hvati. Það smitar út frá sér. Og þó við bara björgum einum unglingi frá því að lenda í fíkniefnum erum við búin að greiða þetta frv. niður.