Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 16:57:45 (2252)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins leggja orð í þennan belg í þá veru að ítreka stuðning minn við þetta frv. sem hér hefur verið mælt fyrir. Ég tel fulla þörf á því að Alþingi taki til rækilegrar endurskoðunar afstöðu sína gagnvart íþróttum og íþróttahreyfingunni og einkum og sér í lagi tengi hana frekar en nú er forvarnastarfi í heilbrigðismálum og vímuefnamálum, svo við nefnum dæmi.
    Mér hefur stundum flogið í hug að það væri rétt að veita verulegu fé til þessa málaflokks miklu meira en verið hefur og færa það undir forvarnastarf af lið vegna heilbrigðismála. Ég tel það í raun og veru mesta ávinninginn af þessari hreyfingu að skila af sér fólki sem er heilbrigðara en ella ef ekki nyti starfsemi íþróttahreyfingarinnar.
    Auðvitað eru til mörg birtingarform á því að laða ungt fólk til skynsamlegri lifnaðarhátta. Eitt af því er stofnun sjóðs til að styrkja efnilega íþróttamenn. Mér er engin launung á því að ég bind nokkrar vonir við að þetta verði vísir sem muni gildna þegar fram líða stundir og sýna fram á að réttlætanlegt er að staðfesta þetta frv. þegar á þessu þingi.
    Það er nánast hlægilegt þegar maður skoðar fjárlagafrv. og fjárveitingar undanfarinna ára sem merktar eru íþróttamálum. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár kemur fram að þessar fjárveitingar eru skornar niður um 10% frá núgildandi fjárlögum. Það er ekki merki um mikinn metnað af hálfu núv. ríkisstjórnar í viðleitni til þess að skapa æsku landsins þá aðstöðu sem leiðir frekar en ekki fólk inn á réttar brautir. Í fjárlagafrv. er samtals undir liðnum Ýmis íþróttamál 73,4 millj. kr. Það er allt og sumt. Af því eru þegar eyrnamerktar fjárhæðir 5 millj. kr. í byggingarstyrk til Skáksambands Íslands og 6,4 millj. kr. í Launasjóð stórmeistara í skák eða samtals 11,4 millj. kr. Eftir stendur því óskipt til íþróttastarfsemi 62 millj. kr. Þetta eru öll ósköpin og varla svo háar upphæðir að menn ættu að vera að halda því fram að íþróttahreyfingin hafi nokkuð mikla peninga umleikis og geti af þeim fjármunum varið fé til að mæta markmiði þessa frv. Ég undrast satt að segja dálítið þessi viðhorf, svo gamaldags eru þau, og hélt að fáir væri eftir og vandfundnir þeir menn í þjóðfélaginu í dag sem hefðu þau viðhorf til íþróttamála sem fram hafa komið í þingræðu. En það er hlutur sem við verðum auðvitað að búa við og reyna að sannfæra fleiri um að víkja af hinni þröngu stefnu gamaldags hugsunarháttar og snúa þeim til rétts vegar í þessum efnum.
    Ég bendi á að með því að hafa stofnað Launasjóð stórmeistara í skák er þegar búið að viðurkenna meginsjónarmið frv. Þótt þar eigi í hlut afreksmenn en í þessu tilviki efnilegir menn er megintilgangurinn sá sami og Alþingi hefur þegar fallist á þetta sjónarmið. Ég trú því ekki öðru en frv. fái greiða leið í gegnum þingið jafnvel þótt svo sé að upplýst er að Sjálfstfl. er í þessu máli eins og öllum öðrum klofinn í tvennt.