Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:03:03 (2253)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að orðlengja umræðuna svo mjög. Sjónarmiðin sem uppi eru í þessari umræðu eru ekki þau hvort það eigi að búa vel að íþróttahreyfingunni, eru ekki þau hvort menn greini á um gildi íþrótta. Enginn slíkur ágreiningur hefur komið fram. Það er heldur enginn ágreiningur um að efla beri hlut afreksmanna né um að æskilegt sé að ungt og áhugasamt og efnilegt íþróttafólk fái sómasamlega aðstöðu. Það er enginn ágreiningur um neitt af þessu. Ég hef ekki andmælt neinu af þessu að minnsta kosti.
    Ég hef þvert á móti verið að draga það fram að ég telji að íþróttir hafi ómetanlegt gildi og ég hef verið að leggja á það áherslu að fólk, hvort sem við köllum það ungt og efnilegt eða afreksfólk, skapi jákvæðar ímyndir fyrir íþróttahreyfinguna og sé þáttur í því að leiða ungt fólk af villigötum og forða æsku landsins, eins og hv. 1. flm. þessa frv. lagði svo mikla áherslu á í sínu máli að þyrfti að gerast, frá solli og óheilbrigðum lifnaðarháttum.
    Deilurnar snúast nefnilega ekkert um þetta og þess vegna mega menn ekki vera að gera sér að leik í þessari umræðu að reyna að snúa umræðunni í að einhverjar deilur séu um hvort það eigi að búa vel að íþróttahreyfingunni eða búa vel að ungu æskufóki eða búa vel að efnilegu fólki eða afreksfólki. Við megum ekki fara að leiða umræðuna á villigötur með einhverjum slíkum útúrsnúningum.
    Kjarni málsins er einfaldlega sá að ég hef verið að benda á að á sama tíma og íþróttahreyfingin hefur, guði sé lof eins og ég hef orðað það, verið að fá betri og meiri tekjur, þá hefur ríkið ekki fram undir þetta séð ástæðu til þess að draga úr framlögum til íþróttamála í fjárlögum. Þess vegna finnst mér að það standi engin sérstök efni til þess að stofna sérstakan sjóð sem sé fjármagnaður af fjárlögum til þess að standa undir því sem ég í sjálfu sér tek undir að sé hin jákvæðasta og besta hugmynd. Ég tel hins vegar miklu eðlilegra og heppilegra og rökréttara í ljósi þess sem ég hef verið að segja að þessum málum sé einfaldlega skipað innan vébanda íþróttahreyfingarinnar. Þetta mál er ekkert flóknara en það. Ég tel að það eigi að efla hag ungs og efnilegs, íslensks íþróttafólks. Það eigi að efla hag afreksmanna en það ber að gera

það innan vébanda íþróttahreyfingarinnar af þeim tekjum sem íþróttahreyfingin hefur, hvort sem það eru tekjur sem hún hefur af fjárlögum eða með öðrum tekjustofnum svo sem lottói eða einhverju öðru.
    Ég vil ítreka það sem kom fram í máli hv. 1. flm., og sem ég áréttaði raunar og lagði mikla áherslu á í máli mínu áðan, að langstærsti hluti af þeirri vinnu sem er unninn innan íþróttahreyfingarinnar er að sjálfsögðu unninn sem sjálfboðavinna og þess vegna hefur íþróttahreyfingin svona mikið gildi. Það væri útúrsnúningur og rangt að halda því fram að ég hafi verið að gefa eitthvað annað til kynna. Hins vegar er auðvitað íþróttahreyfingin í okkar nútímaþjóðfélagi hreyfing af því taginu að hún er fjárfrek vegna þess að íþróttakappleikir kosta fé m.a. vegna þess að það þarf að ferðast á milli landa. Það þarf að búa vel að ungu íþróttafólki með góðri íþróttaaðstöðu o.s.frv. Allt kostar þetta fé og þess vegna er ég ekki að halda því fram nokkurn tíma að íþróttahreyfingin sé of sæl af þeim tekjum sem hún hefur.
    Hins vegar vildi ég í þessu sambandi benda á að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafa framlög til íþróttamála ekki dregist saman á sama tíma og hreyfingin hefur verið að fá aðrar tekjur. Og svo ég dragi þetta saman í örfáum orðum tel ég eðlilegast að þessum málum, hvort sem við erum að tala um sjóð til að styrkja afreksmenn eða sjóð til að styrkja efnilega íþróttamenn, sé langeðlilegast að skipa innan vébanda íþróttahreyfingarinnar.