Sjóður til að styrkja efnilega íþróttamenn

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:08:07 (2254)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil minna hv. þm. sem hér talaði síðast á að innan ÍSÍ er 21 sérsamband sem er ætlað að þrífast á þeim fjármunum sem lottóið og þær tekjur sem þingmaðurinn minntist á áðan gefa þeim. Sennilega, ég ætla ekki að fullyrða það, eru öll þessi sambönd rekin með bullandi tapi. Innan þeirra eru svo aftur félög í einstökum greinum sem sömu sögu má segja um.
    Ég skal alveg taka undir það með hv. þm. að þetta má alveg greiðast út úr þessum sjóðum. En þá skulum við líka gera það með því laginu að hækka hið árlega framlag til íþróttahreyfingarinnar sem þessu nemur og fela þeim að standa fyrir slíkum sjóði. Það er allt í lagi. Svo framarlega sem þessi hugsjón kemst á laggirnar er mér nokkuð sama hvort það er gert með þessu forminu eða öðru en það verður að vera eyrnamerkt á fjárlögum hvers árs fyrir þennan tiltekna málaflokk líkt og sjóðurinn fyrir stórmeistara í skák. Í liðnum Ýmis íþróttamál verði undirliður sem er sjóður fyrir unga, efnilega íþróttamenn. Ég skal samþykkja það hvenær sem er ef hv. þm. vill fara þá leið.