Sementsverksmiðja ríkisins

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:25:11 (2258)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Um það er enginn ágreiningur með mér og hv. 17. þm. Reykv. að ekki sé eðlilegt að alþingismenn séu skipaðir í stjórnir fyrirtækja á vegum ríkisins. Það sem ég gerði hins vegar ágreining um var sú fullyrðing hans frá því í gær að alþingismenn hefðu ekki vit á rekstri. Þá væri mjög illa komið fyrir Alþingi sem þarf að móta m.a. alla löggjöf sem reksturinn þarf að starfa eftir ef alþingismenn hafa ekki vit á rekstri og ef hér eiga ekki að vera menn sem búa yfir slíkri reynslu.
    Í öðru lagi svaraði hv. þm. mér engu þegar ég spurði hver hefði verið afstaða Alþfl. til mjög umdeilds ákvæðis í lagasetningu á síðasta ári varðandi skattafrádrátt arðgreiðslna. Þar kom ekkert svar. ( ÖS: Það kemur ekkert við málinu um Sementsverksmiðjuna.) Virðulegi forseti. Það kemur mjög við þá umræðu, og nú þori ég ekki að nota orðið skinhelgi því það er orðið bannorð, og því sjónarmiði þingmannsins í gær að stjórnarliðar hefðu einir vit á einkavæðingu og því hvernig ætti að byggja hér upp hlutabréfamarkað.
    Að lokum vil ég segja að ég er sannfærður um að hv. þm. er í hjarta sínu mjög svo sammála okkur frjálslyndum miðjumönnum um það hvernig á að byggja hér upp virkan hlutabréfamarkað og standa að einkavæðingu. Ég held að hluti af því hvernig hann talaði hér í gær sé vegna þess að honum líður illa í samfloti við ýmsa af þeim sem eru innan núv. ríkisstjórnar, samanber fljótfærnislegar hugmyndir um að einkavæða ríkisbankana.