Sementsverksmiðja ríkisins

53. fundur
Fimmtudaginn 12. nóvember 1992, kl. 17:27:57 (2260)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða gefur tilefni til eftirfarandi athugasemda.
    Í fyrsta lagi virðist vera um það breið samstaða að æskilegt sé og styðjist við veigamikil rök að breyta fyrirtækjum sem ríkið á í hlutafélagsform. Þegar að því kemur hvort beita eigi ákvæðum um heimild til sölu á hlutum í fyrirtækinu kunni að vera skiptar skoðanir. Það er hins vegar sérstakt mál eins og hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir komst að orði. Til þess taka menn afstöðu síðar, enda verður ekki gengið með þá ákvörðun fram hjá Alþingi.
    Annað mál. Sumir hafa látið í ljós ugg um að þessi rök eigi ekki við ef um er að ræða fyrirtæki sem er í einokunaraðstöðu, markaðsráðandi fyrirtæki. Í því efni var því haldið fram að ákvæði samkeppnislaga dygðu ekki til að gæta hagsmuna neytenda gagnvart einokunaraðstöðu. Ég held að það sé á misskilningi byggt. Samkvæmt frv. til samkeppnislaga á þskj. 9 er tekið á eftirliti með verðmyndun fyrirtækja sem hafa markaðsráðandi stöðu. Þar segir í 17. gr. 5. kafla sem fjallar um eftirlit með samkeppnishömlum:
    ,,Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum og athöfnum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Hin skaðlegu áhrif geta m.a. falist í:
    a. að fyrirtækin nái, viðhaldi eða styrki markaðsráðandi stöðu sína á þeim markaði sem um ræðir,
    b. óhagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta, t.d. vegna þess að valkostum viðskiptavina fækkar, framleiðsla og sala verður dýrari og keppinautar útilokast frá markaðnum.
    Íhlutun getur falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Íhlutun getur m.a. falið í sér að samkeppnisráð grípi til ákvörðunar um verð og viðskiptakjör einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa.``
    Þetta, virðulegi forseti, er frumvarpsgreinin sjálf. Hún er betur skýrð í allrækilegri greinargerð þar sem m.a. segir á þessa leið:
    ,,Þá getur samkeppnisráð mælt fyrir um á hvaða verði fyrirtæki eða fyrirtækjahópar skulu selja vörur sínar eða þjónustu. Þessi heimild kemur einkum til greina þegar samkeppni er ófullnægjandi. Hin ófullnægjandi eða takmarkaða samkeppni getur átt sér ýmsar orsakir. Fyrirtækin sem í hlut eiga kunna að hafa komið málum svo fyrir með því að viðhafa ýmiss konar samkeppnishindranir. Fyrirtæki kann að vera markaðsráðandi sökum eðlis þess sviðs sem það starfar á, svo sem veitufyrirtæki og ýmis önnur þjónustufyrirtæki fyrir almenning. Loks getur fyrirtæki verið einrátt á markaði sökum þess að hið opinbera eða löggjafinn hefur séð svo til.``
    Nú er það svo að Sementsverksmiðjan er ekki einokunarfyrirtæki í tæknilegum skilningi vegna þess að innflutningur á sementi er frjáls. En það sem ég nú hef vitnað til ákvæða samkeppnislaga, ef að lögum verða og greinargerð, sýnir að markaðsráðandi fyrirtæki, hvort heldur er í eigu ríkis eða hlutafélaga, er undir þessum ákvæðum og að samkeppnisráð hefur ærnar heimildir til að ekki aðeins hafa eftirlit með heldur hafa íhlutun um verðmyndun við þær kringumstæður sem hér um ræðir. Eftir því sem slíkum málum verður ráðið með löggjöf er því vel fyrir þeim séð.
    Þriðja mál sem menn hafa nefnt varðar það að menn hafa vakið upp spurningar um atvinnuöryggi starfsmanna. Menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því í þessu tilviki. Samsvarandi ákvæði og í 4. gr., sem gefa fastráðnum starfsmönnum rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi, er að finna í ýmsum lögum sem samþykkt hafa verið umræðu- og athugasemdalaust á undanförnum árum, m.a. af öllum hv. þm. Framsfl. og Alþb. Ég nefni sem dæmi um þetta 5. gr. laga nr. 7/1987, um stofnun hlutafélags um Útvegsbanka Íslands, 2. gr. laga nr. 59/1988, um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 79/1985, þ.e. Ferðaskrifstofu ríkisins sem nú er Ferðaskrifstofa Íslands, 3. gr. laga nr. 45/1989, um stofnun hlutafélags um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, 52. gr. laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, en með þeim var Grænmetisverslun ríkisins lögð niður, og 6. gr. laga nr. 107/1985, um Jarðboranir hf. Ég hygg að þetta skýri það að hér er stuðst við nákvæmlega sams konar lagaákvæði í fyrri tilvikum og um þau hefur ekki orðið ágreiningur.
    Þá hafa menn vakið upp spurningar um biðlaun varðandi þau atriði sem mest hafa verið til umræðu um réttindi starfsmanna. Um biðlaun gildir 14. gr. laga nr. 38/1954 og um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna er enn fremur svipað að segja, þ.e. réttur til biðlauna fellur niður samkvæmt greininni ef menn þiggja sambærilegt starf hjá hinu nýja hlutafélagi, enda óeðlilegt við þær kringumstæður að menn gegni sama starfi áfram á tvöföldu kaupi. Hins vegar ef núverandi starfsmenn Sementsverkmiðju ríkisins hafna starfi hjá hinu nýja hlutafélagi vegna þess að þeir telja það ekki sambærilegt, þá verður biðlaunaréttur þeirra virkur. Starfsmenn eiga þess vegna valið í þessu tilefni og það styðst við önnur fordæmi.
    Að því er varðar lífeyrisréttindi, þá er það svo að þeir sem eru í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna eiga einstaklingsbundinn rétt til þess að sækja um að vera áfram í þeim sjóði, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 29/1963. Munu þeir starfsmenn sem lent hafa í sams konar aðstöðu á síðustu árum í flestum tilvikum hafa notfært sér þann rétt.
    Þá hafa verið gerðar athugasemdir um ákvæðin um samstarfsnefndir skv. 6. og 7. gr. frv. um samstarfsnefnd stjórnar og starfsmanna hins nýja hlutafélags. Þetta ákvæði er nú byggt á 12. gr. laga nr. 18/1977, um Járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Það ákvæði hefur gefið mjög góða raun. Slík ákvæði mun í framtíðinni verða að finna í lögum og samþykktum um hlutafélög þar sem þetta er þróun í evrópskum félagarétti sem er orðin að veruleika og kveðið er á um í EES-samningnum. Þessi þróun mála verður að teljast jákvæð þar sem hún tryggir hagsmuni og samstarf þessara samstarfsaðila.
    Því var haldið fram að það vantaði svör varðandi þá ósk þriggja núv. stjórnarmanna um að samþykki þriggja fjórðu hluta atkvæða á Alþingi þurfi að koma til gagnvart sölu á hlutabréfum í hinu nýja hlutafélagi. Nú er því til að svara að það er sjálfstæð ákvörðun hvort hlutur ríkisins verður seldur og sú ákvörðun verður ekki tekin nema leggja hana fyrir Alþingi Íslendinga. Hins vegar er það ljóst að slík samþykkt er auðvitað gagnstæð grundvallarreglum um lýðræði með því að láta þannig minni hluta alþingismanna hafa úrslitaáhrif á hugsanlega sölu hlutabréfa í fyrirtækjum og stenst þess vegna ekki. Nægileg trygging fyrir vandaðri málsmeðferð við sölu felst í 8. gr. frv. en hún kveður á um samþykki Alþingis við sölu hlutabréfa í fyrirtækjum.
    Hv. 9. þm. Reykv. skemmti sér nokkuð við að lesa upp athugasemdir frá fjmrn. við þetta frv. Það þarf að koma fram að sá texti sem hann las er úreltur, fylgir ekki lengur þessu frv. og hefur verið dreginn til baka. Um hann þarf því ekkert meira að segja. Hins vegar er ástæða til að minna á að ríkisstjórnin hefur samþykkt að láta ávallt birta kostnaðarumsögn fjmrn. við frumvörp sem lögð eru fyrir Alþingi og er reyndar lagaskylda. Slík ákvörðun er af hinu góða og leiðir til mun betri yfirsýnar allra sem um málið fjalla um hvaða kostnað ný frumvörp geta haft í för með sér. Síðan þessi ákvörðun var tekin hefur mikill fjöldi frumvarpa sætt þessari meðferð. Sú umsagnarkvöð er í höndum starfsmanna fjmrn. Hún á eingöngu að snúast um kostnaðaráhrif en ekki afstöðu fjmrn. til einstakra efnisákvæða frv. Um það er ekki mikið meira að segja.
    Ég þakka fyrir þessa umræðu, virðulegi forseti, og óska eftir því að að henni lokinni verði frv. vísað til hv. iðnn. og 2. umr.