Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 13:47:47 (2270)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Þegar þetta mál var til umræðu um daginn þótti mér mikilvægt þegar svo stórt mál er til umræðu sem rannsókn á afleiðingum þess mikla atvinnuleysis sem nú er að skella yfir að hæstv. félmrh. væri viðstaddur umræðuna. Nú sé ég að svo er. Einnig taldi ég þá mikilvægt að hæstv. iðnrh., sem farið hefur með iðnaðarmálin um mjög langt skeið, væri hér einnig því að það liggur ekki síst í iðnaðinum hver atvinnuleysisþróunin er. Á einu ári hefur hæstv. iðnrh. horft á bak hvorki meira né minna en 1.200 störfum úr þeirri grein einni. Þetta segir að ráðherrar sem fara með svo stóran málaflokk komast ekki hjá því að svara á Alþingi hvort þeir ætla að knýja í gegnum þessa ríkisstjórn nýja og markvissa stefnu í atvinnumálum.
    Það er sjálfsagður hlutur að kanna og rannsaka hverjar afleiðingar atvinnuleysis eru. Ef ríkisstjórnin þarf að fá þær upplýsingar í gegnum nefnd, þá álít ég að Alþingi eigi að verða við því. Ég hygg að flestir sem hér eru séu þó sammála því að það þarf í sjálfu sér ekki að rannsaka afleiðingarnar. Við höfum séð þennan harmleik skella yfir í nokkur missiri og við vitum hverjar afleiðingarnar eru. Fólkið missir vinnuna, það verður örvinglað við þær aðstæður en vandinn sem fylgir því er óleystur. Vandinn á eftir að margfaldast því að Ísland, þar sem ekki hefur verið atvinnuleysi í yfir 20 ár, er ekki undirbúið undir slíkan harmleik sem atvinnuleysið er. Þess vegna hefur enginn búið sig undir þessi mögru ár og framhald þess, að missa vinnu sína, er auðvitað persónulegt gjaldþrot einstaklinganna, hjónaskilnaðir o.s.frv. Þetta á ekki að þurfa að segja eða rannsaka, við þekkjum afleiðingarnar hér og frá löndunum í kringum okkur.
    Fyrir ári síðan þegar við stóðum hér á Alþingi var á Íslandi rúmlega 1% atvinnuleysi eða rúmlega þúsund manneskjur í landinu sem ekki höfðu atvinnu. Nú komum við saman ári síðar og þá er þetta 3% þjóðarinnar eða 4.200 manns. Spárnar, sem settar eru fram, eru hrikalegar, að hér muni atvinnuleysið margfaldast á næstu mánuðum og menn deila um hvort það verður 10, 15 eða 20%, það er að segja verði stjórnarstefnunni ekki snúið við. ( Gripið fram í: Tuttugu og fimm.) Þess vegna ræða menn ekki bara um atvinnuleysi undir þessum lið heldur hljóta menn að spyrja: Til hvaða ráða ætlar ríkisstjórnin að grípa því það er stefna hennar sem veldur ástandinu í þjóðfélaginu?
    Ég sagði um daginn að staðan væri sú að í Bandaríkjunum hefðu menn hafnað reganismanum, í Bretlandi væru menn að hafna thatcherismanum. Á Íslandi verða menn að hafna davíðismanum því það er frjálshyggjan og hin nýja stefna þessarar ríkisstjórnar sem ber sök á þeim voða sem nú er að skella yfir heimilin.
    Fyrir stuttu síðan var mjög gagnleg grein eftir Magnús Torfa Ólafsson í blöðunum þar sem hann skýrir þetta nokkuð vel. Ég ætla að grípa ofan í þessa grein Magnúsar Torfa. Hann er þar að fjalla um afleiðingar frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum en mér finnst að nákvæmlega það sama sé að gerast hér. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Þýðingarmesta kosningamálið er hvort stefnuleysi í efnahagsmálum og hrörnun að tiltölu í iðnaði verða stöðvuð og Bandaríkjunum beint í nýja stefnu þar sem tillit til félagslegs réttlætis fær að njóta sín á ný eftir tólf ár.``
    Þetta er nákvæmlega það sem hér þarf að spyrja um. Eigum við ekki að reyna að snúa ofan af þessari 18 mánaða stefnu, efla félagslegt réttlæti og koma stoðum undir iðnaðinn og atvinnulífið?
    Magnús segir síðar, með leyfi forseta:
    ,,Kosningasmiðirnir sem færðu okkur slíka og þvílíka stefnu bera það enn blákalt fram í berhögg við sönnunargögnin að sérhver ríkisafskipti af mörkuðum eða alvarleg tilraun til að breyta tekjuskiptingu eyðileggi samkeppnisstöðu þjóða. Þeir neita að viðurkenna að Þýskaland, Japan og Frakkland ásamt öðrum löndum sameina með góðum árangri afar samkeppnishæfa iðnaðarframmistöðu og félagslegt réttlæti. Auðvitað er ekki í tísku að tala um félagslegt réttlæti. Þeir sem hafa tekið markaðinn í guðatölu neita að viðurkenna að með þjóð verður að ríkja félagslegur sáttmáli þar sem þeir sem stjórna fyrirtækjunum og þeir sem vinna verkin viðurkenna sameiginlega hagsmuni og gagnkvæmar skuldbindingar.``
    Það er nefnilega sú oftrú sem hefur verið sett í gang af þessari ríkisstjórn að markaðurinn skuli ráða og að mennirnir, sem hafa verið kjörnir til að stjórna þessu þjóðfélagi, skuli helst ekkert gera heldur horfa á með hendurnar í vösunum. Það var athyglisvert að hlusta á viðtal við Davíð Scheving Thorsteinsson fyrir nokkrum kvöldum þar sem hann sagði að umhverfi atvinnulífsins væri eins og Ódáðahraun. Hann beindi t.d. spurningum til iðnrh. sem byggi íslensku atvinnulífi raforkuverð sem væri 800% hærra en það raforkuverð sem erlendum eigendum fyrirtækja reknum hér á landi væri ætlað að borga.
    Ég veit að við eigum í þessari viku eftir að taka upp umræðu um atvinnumálin á hv. Alþingi og reyna að knýja fram þá stefnu ríkisstjórnarinnar að stöðva þróun atvinnuleysis og þá erfiðleika sem nú ríkja í atvinnulífinu og stafa fyrst og fremst af mannavöldum því ytri áföllin eru fram undan. Þess vegna get ég

vel tekið undir það, svo ríkisstjórnin átti sig á þeim harmleik sem fjölskyldurnar eru að upplifa með auknu atvinnuleysi, að hér verði sett á stofn nefnd sem segi frá því hvaða afleiðingar fylgja því að verða atvinnulaus. Ég styð þess vegna þáltill.