Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 14:15:06 (2273)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Það er orðið allangt síðan ég bað um orðið í þessari umræðu og verður að segjast eins og er að samfellan í henni er farin að rofna nokkuð og kannski til lítils að halda þessu mikið áfram því að mér sýnist á þingsalnum að áhuginn sé farinn að dofna heldur á þessu máli sem allir segja þó að sé kannski eitt það mikilvægasta sem við tölum um á þinginu, þ.e. atvinnuleysið og ástandið í atvinnumálum í landinu.
    Það er flutt hér till. til þál. um að kanna áhrif atvinnuleysis á ýmsum sviðum. Ég lít svo á að þetta sé ekki síst félagsleg úttekt á því hvernig atvinnuleysið kemur niður. Það er kunnara en frá þurfi að segja að sveiflur í efnahagsástandi hafa áhrif á öðrum sviðum þjóðlífsins. Þær hafa sveifluáhrif þar líka. Ég ætla bara að nefna það því ég sat í Félagsmálaráði Reykjavíkurborgar á árunum 1985--1988 og var að skoða tölur í ársskýrslum Félagsmálastofnunar. Þar kom fram t.d. ef við tökum árið 1983--1984, sem við getum kallað árið þegar leiftursóknin gegn lífskjörunum var gerð og kjörin voru skert um 30%, að það ár höfðu aldrei verið fleiri barnaverndarmál til meðhöndlunar hjá Reykjavíkurborg ef miðað er við árin á undan. Það var toppur í barnaverndarmálum í kjölfar þeirrar kjaraskerðingar sem þá var. Það sama, ef ég man rétt, gerðist líka í Kvennaathvarfinu í Reykjavík. Það varð aukin ásókn í Kvennaathvarfið í kjölfar þessarar 30% kjaraskerðingar sem þá var gerð. Svo sá ég um daginn úttekt þar sem var verið að fjalla um 6, 7 og 8 ára gömul börn í Reykjavík og hvort þau hugsuðu um sig sjálf eða hvar þau væru yfir daginn. Þá sá ég þá athyglisverðu staðreynd að 1987, þensluárið, skattlausa árið þegar vinnugleðin var sem mest og menn gerðu hvað þeir gátu til þess að afla tekna höfðu kannski aldrei fleiri börn verið á eigin vegum. Þegar vinnugleðin var sem mest og fólk gerði sem mest í því að afla sér tekna voru flest börn sem þurftu að sjá um sig sjálf. Þessar sveiflur, hvort sem þær koma fram í óhófi eða örbirgð, hafa mjög mikil áhrif á líf fólks í landinu. Þess vegna er ákveðinn stöðugleiki í efnahagsmálum mjög mikilvægur því að hann elur af sér stöðugleika á svo mörgum öðrum sviðum. Ég held að það sé öllum ljóst sem eru að tala um mikilvægi þess að varðveita stöðugleikann.
    En við erum hér að tala um atvinnuleysi og það er nýtt fyrirbæri hjá okkur og sérstaklega hjá minni kynslóð sem aldrei hefur þekkt þetta fyrirbæri og veit ekki annað en að fólk geti fengið vinnu ef það óskar eftir henni. Allt í einu stendur það andspænis því að það er enga vinnu að fá á sumum sviðum. Þetta er nýtt hjá okkur en þetta er þekkt og viðvarandi fyrirbæri úti í Evrópu þar sem atvinnuleysi hefur um langt árabil verið um 10%. Ef við tökum lönd eins og Ítalíu og Spán og stöðu ungs fólks þar og sérstaklega ungra kvenna berast okkur hrikalegar tölur frá þessum löndum. Þar er atvinnuleysi meðal kvenna undir 25 ára aldri tæp 40% þannig að tæpur helmingur ungra kvenna á engan möguleika á að komast í störf. Í þessum löndum er atvinnuleysi 11--16% að meðaltali hjá öðrum. Það er alveg ljóst að atvinnuleysi kemur mjög illa við konur og ekki síst ungar konur sem eru að koma út á vinnumarkaðinn.
    Í því sambandi langar mig til þess að nefna ástandið á Suðurnesjum vegna þess að atvinnuleysið hjá konum á Suðurnesjum er að verða á evrópskan mælikvarða. Það er að verða 10% og er búið að vera það um nokkurt skeið. Það stakk mig hins vegar --- ég verð að játa það --- dálítið ónotalega að þegar það gerðist á Suðurnesjum að Íslenskir aðalverktakar sögðu upp 100 karlmönnum, sem auðvitað er mjög alvarlegt mál, fóru allir forustumenn stjórnmálaflokkanna um Suðurnesin og héldu fundi til þess að ræða við menn og athuga hvort ekki væri hægt að gera eitthvað í þeim málum, en atvinnuleysið hjá konum þar hafði verið langvarandi án þess að sæist að menn tækju það mjög alvarlega. Það er því ekki sama hver á í hlut. Það er greinilega enn þá litið svo á að karlmenn séu aðalfyrirvinnur heimilanna og það sé alvarlegra mál þegar karlmenn missa vinnu en konur. Staðreyndin er sú að konur eru jafnmiklar fyrirvinnur og karlar í íslensku samfélagi í dag.
    Þegar kemur að því að skapa vinnu fyrir fólk er ekki sama til hvaða ráða er gripið. Ég hef séð hér þáltill., sem er góðra gjalda verð, um breikkun Reykjanesbrautar sem á að vera atvinnusköpun fyrir fólk

á Suðurnesjum en hver fær vinnu við að breikka Reykjanesbraut? Ekki konurnar sem eru atvinnulausar á Suðurnesjum heldur karlarnir. Það er líka mjög algilt ráð að grípa til byggingarframkvæmda. Hver fær vinnu við byggingarframkvæmdir? Það eru yfirleitt ekki konur. Það er auðvitað hægt að hugsa sér að setja einhverja kvóta á þá hluti en reynslan segir okkur að konur fá ekki vinnu við slík störf. Það sem skiptir máli fyrir konur og atvinnusköpun fyrir konur eru langtímaverkefni, að jafnt og þétt sé byggt upp og sköpuð störf með langtímamarkmið í huga.
    Þegar við tölum um hinar almennu ástæður fyrir atvinnuleysinu, bæði hér á landi og í Evrópu, eru fyrir því almennar alþjóðlegar ástæður. Það sem við sjáum núna og er dálítið alvarlegt er að það er ekki bara ein skrúfa laus í hinu vestræna hagkerfi heldur er almennt og margháttað bilerí í þessu maskíneríi öllu saman. Það er það sem við sjáum í Vestur-Evrópu og er alvarlegt og gerir mann auðvitað óttasleginn.
    Alls staðar í Evrópu eru háir vextir. Þessir háu vextir valda því að menn halda að sér höndum. Það er ekki mikil fjárfesting eða framkvæmdir í gangi, verðbólga er lítil og alls staðar er stuðlað að því að draga saman í opinberri þjónustu og framkvæmdum. Allt þetta veldur því svo að ekki er vöxtur í þessu kerfi. Þess vegna sér maður ekki beinlínis í hverju atvinnusköpunin á að vera fólgin. Verði síðan viðskiptastríð á milli Bandaríkjanna og Evrópu er það náttúrlega eins og olía á eld.
    En það eru líka sérstakar ástæður fyrir atvinnuleysinu. T.d. eru sérstakar ástæður hér á landi og nægir í því sambandi að nefna offjárfestingu í sjávarútveginum og samdrátt í afla, sem ekki er hægt annað en horfa á. Það er líka mikil skuldasöfnun fyrirtækja og opinberra aðila og svo almennt fyrirhyggjuleysi sem hefur verið til margra ára og kemur m.a. fram í því að engin rækt hefur verið lögð við rannsóknir og nýsköpun, við langtímahugsun í atvinnusköpun. Þegar við komum að þeim málum eiga mjög margir sök. Ég get ekki staðið hér og sagt að það sé allt einhverjum davíðisma að kenna. Ég get ekki gert það. Þetta er mál sem á sér djúpar rætur og er uppsafnaður vandi sem margir eiga sök á. Það er alveg fráleitt að skella skuldinni á einhvern einn aðila eða eina ríkisstjórn í því sambandi. Margir hafa komið hér að verki og margir eru ábyrgir fyrir þeirri offjárfestingu sem hefur átt sér stað í sjávarútvegi. Það mætti telja saman marga aðila sem hafa komið þar nálægt og lagt hönd á það verk.
    Hins vegar eru leiðir út úr vandanum í öllum þessum málum og atvinnuleysinu og atvinnusköpunin er á ábyrgð núv. ríkisstjórnar. Það er hægt að gagnrýna núv. ríkisstjórn fyrir að benda ekki á neinar leiðir. Þær leiðir sem hægt er að fara láta á sér standa. Líka er ástæða til þess að óttast kreddurnar sem ríkja á ríkisstjórnarbænum. Þeir tala ævinlega um að skapa skilyrði fyrir fyrirtækin og treysta því að þar með leysist atvinnuleysisvandinn. En það er bara ekki nóg. Þetta hefur verið reynt í Evrópu í tíu ár með engum árangri. Það þarf að beita ríkisvaldinu markvisst í þessu máli til þess að skapa atvinnu.
    Ég vil vara við því, eins og fleiri sem hér hafa talað, að menn haldi sífellt áfram að elta það mýraljós sem álverið er og renna sér út á Keflavíkurflugvöll með rauðan dregil til þess að heilsa upp á einhverja álfursta í hvert skipti sem þeir millilenda hér. Það er margt annað hægt að gera og ég vil í því sambandi nefna t.d. prentiðnaðinn okkar. Við stöndum með 4% atvinnuleysi í prentiðnaðinum núna yfir háannatímann. Hvernig verður þetta eftir jól, sérstaklega ef menn ætla að leggja á virðisaukaskatt og flæma prentverkið úr landi með þeim hætti?