Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 14:29:23 (2277)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég stend nú í ræðustóli öðru sinni við þessa umræðu þar sem mér tókst ekki að ljúka því sem ég vildi segja í fyrri hluta umræðunnar. Eins og fram kom í máli mínu þá er aðalatriðið í þessu mikla vandamáli sem við stöndum frammi fyrir, þ.e. atvinnuleysinu sem því miður virðist fara stöðugt vaxandi, hvernig menn bregðast við. Hvað er til ráða? hljótum við að spyrja. Hvaða tillögur hafa menn til þess að leysa þennan vanda? Á landsfundi Kvennalistans, sem haldinn var um síðustu mánaðamót, voru settar fram nokkrar tillögur til úrbóta í atvinnumálum sem mig langar til að kynna hér. Það er síður en svo að hugmyndir skorti eða að ekki sé nóg af verkefnum en það er viljann sem vantar.
    Við leggjum til að samfélagsþjónusta verði aukin við börn, aldraða og fatlaða vegna þess að aukin þjónusta við einstaklinga er ekki síður arðbær en t.d. vegavinna. Við leggjum til að hér hefjist bygging barnaheimila og félagslegra þjónustuíbúða fyrir aldraða sem er mjög hagkvæmt núna vegna lækkandi byggingarkostnaðar. Það þarf að endurskoða lög um Lánasjóð ísl. námsmanna í ljósi efnahagskreppunnar svo fleira fólk eigi kost á að velja milli atvinnuleysis og menntunar. Við bendum á að það er nauðsynlegt að semja um styttingu vinnutímans til að draga úr fjöldauppsögnum, m.a. vegna þess að erlendar rannsóknir sýna að konur eru fyrstar til að missa vinnuna þegar kreppir að í atvinnumálum og síðastar til að fá vinnu aftur. Með því að stytta vinnutímann má veita fleirum vinnu. Það þarf að stórefla rannsóknir og þróunarstarfsemi til að tryggja næga atvinnu fyrir komandi kynslóðir og til að draga úr landflótta, ekki síst menntafólks. Það þarf að byggja upp víðtækt endurmenntunarkerfi svo fólk geti tileinkað sér nýjustu tækni og verkþekkingu eins og best gerist í samkeppnislöndum okkar. Það þarf að breyta lögunum um atvinnuleysistryggingar þannig að atvinnuleysisbætur falli ekki niður eftir að fólk hefur verið atvinnulaust í heilt ár. Eins og þingmenn vita missa menn þá atvinnuleysisbætur og fá engar bætur í 16 vikur. Það þarf að efla atvinnuþróunarfélög svo þau geti unnið markvisst að atvinnumálum einstakra byggðarlaga á grundvelli langtímamarkmiða. Atvinnuþróunarfélög eiga að beita sér fyrir frumathugunum á nýjum atvinnumöguleikum ásamt því að veita einstaklingum og fyrirtækjum markaðs- og rekstrarráðgjöf. Brýnt er að ráðin verði kona sem atvinnumálaráðgjafi í hverju kjördæmi og hún sinni sérstaklega atvinnumálum kvenna. Lækka þarf orkuverð til íslenskra fyrirtækja til að bæta samkeppnisstöðu þeirra. Lækka þarf vexti lánastofnana og beina auknu fé í ferðaþjónustuna sem er einhver helsti vaxtarbroddur okkar atvinnulífs. Fjöldi erlendra ferðamanna hefur rúmlega tvöfaldast á einum áratug. Ársverk eru nú talin um 6.000 eða 4,8% af vinnuaflinu. Ferðamálaráð telur unnt að skapa 2.200 ný ársverk á næstu átta árum án mikillar fjárfestingar. Þar þarf auðvitað mikil vinna og skipulagning að koma til. Efla þarf rannsóknir á atvinnuskapandi möguleikum sem felast í visthæfri framleiðslu og endurvinnslu. Hvetja þarf fyrirtæki til nýsköpunar á því sviði því markaður fyrir visthæfar vörur stækkar stöðugt bæði hér og erlendis. Stjórnvöld ættu að vera stefnumótandi og leita eftir samstarfi við atvinnulífið með því að styrkja fyrirtæki sem áhuga hafa á að starfa áð visthæfri framleiðslu á einn eða annan hátt. Í síðasta lagi, segir í tillögum Kvennalistans, er á tímum vaxandi atvinnuleysis áríðandi að efla frumkvæði og efnahagslegt sjálfstæði kvenna varðandi eigin atvinnusköpun. Nauðsynlegt er að stjórnvöld styðji stofnun lánatryggingasjóðs kvenna sem veiti þeim aðgang að ráðgjöf og fjármagni.
    Virðulegi forseti. Eins og þessar tillögur bera með sér skoðum við að sjálfsögðu atvinnuvanda kvenna sérstaklega enda eru fleiri konur atvinnulausar en karlar og eitt brýnasta verkefni okkar þjóðfélags er að taka á atvinnuvanda kvenna. Í þeirri umræðu sem hér fór fram í síðustu viku um þessa tillögu sem við erum að ræða létu ráðherrar ýmis orð falla sem nauðsynlegt er að svara. Það er vinsælt í þeirra máli að horfa annars vegar til Svíþjóðar þar sem gripið var til efnahagsaðgerða og menn bera Ísland og Svíþjóð saman eins og enginn munur sé þar á. Á hinn bóginn eru svo Færeyjar þar sem allt er í kalda koli og það virðist um þetta tvennt að velja, Svíþjóðarleiðina eða leið Færeyja. Sannleikurinn er nú sá að Ísland og Svíþjóð eru alls ekki sambærileg. Menn verða að horfa á að þegar Svíar treysta sér til að skera niður í sínu velferðarkerfi er það nú einfaldlega vegna þess að það er miklu umfangsmeira en það kerfi sem við búum við.
    Hæstv. fjmrh. nefndi það á fundi á laugardaginn, þar sem konur voru saman komnar, að til greina kæmi að stytta fæðingarorlof og hækka greiðslurnar, greiðslurnar mundu þá þjappast saman á styttri tíma og vísaði þar til þess sem gert var í Svíþjóð. Sannleikurinn er hins vegar sá að fæðingarorlof í Svíþjóð hefur verið helmingi lengra en hér. Ég vara því við því að menn séu að bera saman þessi kerfi og gefa sér það að hægt sé að ná miklum peningum út úr íslenska velferðarkerfinu. Við kvennalistakonur höfum bent á ýmsar betri leiðir til þess og þar er ekki síst að nefna fyrirbyggjandi aðgerðir í heilbrigðiskerfinu sem verulega gætu eflt sparnað.
    Ráðherrarnir horfa mjög til Norðurlandanna og bera saman þann efnahagsvanda sem þar er og þann vanda sem við eigum við að glíma. Auðvitað erum við öll háð utanaðkomandi áhrifum og efnahagsþróun í heiminum en okkar vandi er þó miklu frekar heimatilbúinn en það sem riðið hefur yfir Norðurlönd og þá ekki síst Finna sem hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna hrunsins í fyrrverandi ríkjum Sovétríkjanna. Það sem hér hefur verið að gerast er einfaldlega það að við höfum horft upp á atvinnuástandið versna mánuð eftir mánuð án þess að ríkisstjórnin hafi gripið til nokkurra aðgerða. Hún situr enn með hendur í skauti. Segist reyndar eiga tillögur í skúffunni. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Þeir sem nú sitja á ríkisstjórnarstólunum trúa því að markaðurinn muni jafna þetta þótt mönnum sé að takast að þvinga þá til einhverra aðgerða. Við bíðum enn til að sjá hverjar þær verða. Svona getur þetta ekki gengið. Hér verður að grípa til atvinnusköpunar. Það verður að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði meira en það er nú.