Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 15:03:24 (2285)

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þá ágætu umræðu sem fram hefur farið hér á tveimur fundum um rannsóknir á afleiðingum atvinnuleysis. Það eru um 20 ræðumenn sem hér hafa komið við sögu og haldið um 30 ræður að andsvörum meðtöldum. Það er sem sagt mikill áhugi á málinu. Hann hefur komið fram og það er ástæða til að þakka fyrir það, bæði þátttöku þingmanna úr stjórnarliði og stjórnarandstöðu, sömuleiðis hæstv. félmrh. Ég vona að þessi áhugi sé til marks um það að menn vilji í raun og veru rannsaka afleiðingar atvinnuleysis og að þessi tillaga, sem hér er flutt, fái jákvæða meðferð í hv. félmn., hún verði ekki söltuð og látin liggja óafgreidd eins og yfirleitt allar tillögur stjórnarandstöðunnar,

jafnvel góðar tillögur sem menn hafa með vörunum játað að væru góðar og jákvæðar í umræðum í þessari virðulegu stofnun en svo hefur verið tregt um að fá þær afgreiddar í hv. þingnefndum.
    Í tengslum við þessa umræðu, virðulegi forseti, vil ég skýra frá því að ég fékk í hendur í dag grein sem mun birtast eftir nokkra daga í Vinnunni, tímariti Alþýðusambands Íslands, eftir Jón Sigurð Karlsson sem er í senn sálfræðingur og viðskiptafræðingur. Í þessari grein eru teknar saman niðurstöður erlendra greina úr 12 virtum tímaritum á þessu sviði og er þetta afar fróðleg grein og ég vona að hv. þm. kynni sér efni hennar þegar þar að kemur. Í greininni kemur það greinilega fram að það er eins og allir geta svo sem ímyndað sér en samkvæmt vísindalegum niðurstöðum sem hafa verið unnar erlendis er fylgni á milli atvinnuleysis og mælikvarða á streitu enda þótt þar með sé ekki orsakasamband fundið, eins og það er orðað í greininni. Síðan segir í greininni:
    ,,Öllum sem hafa rannsakað þetta ber saman um að hópar atvinnuleysingja finni að meðaltali meira fyrir álagi og neikvæðum tilfinningum en sambærilegir hópar í vinnu. Þeir sýna færri vísbendingar um hamingju, lífsgleði og jákvæðar tilfinningar en það fólk sem hefur fulla atvinnu.`` Og síðan segir m.a.: ,,Í stórum dráttum er samsvörun milli allra vísbendinga í þessu efni. Það kemur t.d. fram í hærra meðaltali af streituhormónum í blóði hjá atvinnulausum. Oft koma vísbendingar um lakari líkamlega heilsu meðal atvinnulausra og minnkaða mótstöðu gegn sjúkdómum fram í þessum könnunum.``
    Síðan eru raktar ástæðurnar fyrir þessu samkvæmt þeim könnunum sem gerðar hafa verið, svörum sem atvinnulausir hafa veitt við spurningum og m.a. segir svo í greininni, með leyfi forseta:
    ,,Hugarangur vegna atvinnumissis gerir menn enn viðkvæmari fyrir mótlæti á öðrum sviðum. Það þarf minna til að fylla mælinn. Oft aukast spenna og togstreita innan fjölskyldunnar. Spennan getur leitt til meiri óróleika hjá börnum sem aftur eykur á líkur á ósamkvæmni í uppeldi og vítahringur er kominn af stað. Það er hins vegar mjög einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við,`` segir svo í þessari grein.
    Í greininni segir enn fremur: ,,Sjálfsvirðing minnkar og margir finna fyrir tilgangsleysi. Eitt mikilvægasta atriði í andlegri vellíðan er tilfinning um að maður geti haft áhrif á gang mála. Algengt er að atvinnuleysingjum finnist þeir hafa lítil eða engin áhrif. Þeir séu að miklu leyti leiksoppar örlaganna og geti ekki tekið málin í eigin hendur. Hjá flestum leiðir þetta meinta áhrifaleysi til aukinnar streitu.``
    Síðan eru raktir þættir eins og hætta á misnotkun áfengis, tíðni sjálfsvígstilrauna sem sérfræðingar telja oftast vera ákall um hjálp og er mun hærra meðal atvinnulausra en annarra. Hér er farið rækilega yfir atvinnuleysi og geðrænar truflanir og þar kemur t.d. fram að þegar borin eru saman stig á algengum geðlægðarkvarða í mjög fjölmennri könnun að meðaltal þeirra sem eru í vinnu eru 5,5 stig en hjá þeim atvinnulausu 11 stig. Á þessum kvarða eru 0--9 talin eðlileg en 10--19 talin gefa vísbendingu um væga geðlægð.
    Samkvæmt sænskri könnun sýnir u.þ.b. einn af hverjum fimm atvinnulausum vísbendingar um geðrænar truflanir sem þarfnast meðferðar sem er mun hærri tíðni en hjá þeim sem hafa atvinnu. Það kemur einnig fram að atvinnuleysið kemur misjafnlega við fólk eftir svæðum m.a. eftir því hve stór fjöldi atvinnulausra er o.s.frv. Loks hefur það verið kannað mjög rækilega hver eru óbein áhrif atvinnuleysis á vinnumarkaðinn. Það kemur t.d. fram eins og segir hér: ,,Atvinnuleysið breytir valdahlutföllum á vinnumarkaði atvinnurekendum í hag. Þeir þurfa t.d. ekki að hafa eins mikið fyrir að halda fólki í vinnu, geta gefið í skyn að hægt sé að fá nóg af fólki ef þeim finnst starfsfólkið ekki leggja nógu mikið á sig. Sænsk könnun er t.d. með vísbendingar um að yfirvinna hafi aukist í þó nokkrum greinum þegar atvinnuleysi fór vaxandi. Þetta skýrðu þeir m.a. með því að starfsfólk hafi síður viljað neita að vinna yfirvinnu af ótta við að missa starfið.``
    Þessi grein eftir Jón Sigurð Karlsson, sem er bæði viðskiptafræðingur og sálfræðingur, kemur eins og ég sagði áðan í tímaritinu Vinnunni eftir nokkra daga. Sömuleiðis er rétt að geta þess að greinin er unnin upp úr víðtæku greinasafni og jafnframt kemur fram í bréfi Jóns Sigurðar Karlssonar til mín í dag að hann er að vinna að annarri grein þar sem mun verða farið enn þá rækilegar yfir þessi mál. Þetta dreg ég hérna inn, virðulegi forseti, vegna þess að þetta er innlegg í málið. Það sýnir að rannsóknir af þessu tagi hafa farið fram víða annars staðar og þess vegna er ekki þörf á neinni þriggja binda rannsókn hér á Íslandi. Eins og hæstv. félmrh. gat um þá er óþarfi að fara út í neina slíka rannsókn hér heldur ber að staðnæmast við aðalatriðin sem m.a. eru nefnd í þeirri tillögu sem við flytjum.
    Ég tel að í þessari umræðu hafi komið mjög margt gott og gagnlegt fram og ég þakka fyrir það. Ég tel mjög mikilvægt t.d. sem kom fram í máli hv. varaþingmanns Guðmundar Þ Jónssonar, sem sat hér í síðustu viku og næstsíðustu þar sem hann segir frá því, sem ég held að verði að kanna sérstaklega, hvernig atvinnuleysið er farið að koma niður á fólki á vinnustöðunum. Hv. þm. orðar það svo að sé það mjög algengt að yfirmenn, verkstjórar, komi fram með yfirgangi og óbilgirni, eru meira að segja með hótanir og hræði fólk frá því að sækja rétt sinn. Það er ekki óalgengt og alla tíð hefur verið brotið á fólki, stundum viljandi, stundum óviljandi, segir hv. þm. Nú er það oft þannig að fólk leitar upplýsinga en þorir ekki að segja til nafns. Það þorir ekki að segja hvar það vinnur o.s.frv., enda klingir oft ef það gerir athugasemdir: Góði maður, hér bíða hundruð manna við dyrnar og vilja komast í vinnu. Það hræðir fólk og kúgar það til að sætta sig við að á því sé brotið. Fólk veigrar sér við að sækja rétt sinn.
    Þetta er ekki eins sýnilegt og það sem við sjáum fyrir okkur og er afleiðing atvinnuleysis. Þessi ummæli hv. þm. Guðmundar Þ Jónssonar finnst mér sýna að það er óhjákvæmilegt að í þessari könnun

verði líka skoðað hvaða áhrif atvinnuleysið hefur á líðan og stöðu fólksins á vinnustöðunum, sjálfsvirðingu þess og reisn.
    Þetta segir líka, virðulegi forseti, að við þessar aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu miklu frekar en ella er hættulegt, að ég segi ekki stórhættulegt, að skerða félagslegt öryggi fólks vegna þess að einmitt á tímum eins og þessum þegar um er að ræða mikið atvinnuleysi þarf félagslegt öryggi að vera styrkara og þéttara og þéttriðnara net í kringum fólk en ella. Þess vegna ber sérstaklega við þessar aðstæður að mótmæla þeim hugmyndum sem uppi hafa verið af hálfu hæstv. utanrrh., formanns Alþfl., um að skerða félagsleg réttindi launafólks sem ráðstafanir í því efnahags- og atvinnuástandi sem nú er. Það er algerlega fráleitt við þessar aðstæður. Ég bið menn að hugleiða hvaða afleiðingar slíkt hefur á fólk sem er á vinnustöðunum og er kannski með tæpa stöðu með hliðsjón af atvinnuleysinu.
    Virðulegi forseti. Hér hafa menn rætt ítarlega um það af hverju atvinnuleysið er og við höfum í sjálfu sér ekki ætlað okkur að fara út í það rækilega í þessari umræðu. Þó er nokkurn veginn samstaða um það af hverju atvinnuleysið er. Atvinnuleysið stafar auðvitað í fyrsta lagi af almennum efnahagslegum aðstæðum sem eru allt í kringum okkur. Það er atvinnuleysi í löndunum allt í kringum okkur. Með því eru menn ekki að afsaka atvinnuleysið á Íslandi heldur er það staðreynd. Það þýðir að menn geta ekki sótt sér atvinnu til útlanda, til Málmeyjar, Lundar eða Kaupmannahafnar eins og gerðist á árunum 1968--1970 þegar menn breyttu kontórum verkalýðsfélaganna í ferðaskrifstofur. Það gengur ekki lengur. Þar er enga vinnu lengur að hafa.
    En þessi veruleiki, hið almenna efnahagslega ástand í löndunum í kringum okkur, hlýtur hins vegar að vekja okkur til umhugsunar um hvort það að sækja út m.a. inn á hið Evrópska efnahagssvæði sé lausn á vanda. Ég tel það í raun og veru mýraljós að halda því fram alveg á nákvæmlega sama hátt og haldið hefur verið fram að það hafi verið mýraljós að tala t.d. um álverksmiðju hér. Það er mýraljós af því að í Evrópsku efnahagssvæði er engin lausn. Þar er alveg nákvæmlega sama myrkrið alls staðar og það er ljótt að blekkja fólk, sérstaklega atvinnulaust fólk. Það eigum við ekki að gera.
    Í öðru lagi er ástæðan fyrir þessum vanda auðvitað sú að það er samdráttur í sjávarútvegi.
    Í þriðja lagi er ástæðan offjárfesting á liðnum árum hvar svo sem hún er, fjárfesting sem m.a. nýtist okkur ekki í dag, t.d. í orkumannvirkjum svo ég nefni dæmi.
    Í fjórða lagi er það líka rétt að vandinn stafar af stórfelldri skuldasöfnun á undanförnum árum. Það er líka vandi sem við glímum við aukalega.
    Í fimmta lagi stafar vandinn af því að við höfum ekki lagt peninga í rannsókna- og þróunarstarfsemi á neinu sviði.
    En í sjötta lagi er það staðreynd að núverandi ríkisstjórn er á villigötum samdráttar og niðurskurðar á sama tíma og það liggur fyrir að sú stefna í Bandaríkjunum, Bretlandi og öðrum löndum þar sem hægri menn hafa stjórnað ber dauðann í sér. Aðrir eru að hafna hægri stefnunni, reaganismanum. Íslendingar eru núna að taka þá stefnu upp og afleiðingarnar sjást strax.
    Það er því augljóst mál að hvernig sem menn skoða þetta er niðurstaðan sú að við þurfum virk afskipti félagslegra aðila, verkalýðssamtaka, ríkisvalds og sveitarfélaga ef við eigum að komast út úr þessum vanda í efnahags- og atvinnumálum sem nú blasir við. Þar duga engin mýraljós og þar dugir enn síður sú stefna hinnar köldu markaðshyggju sem hefur verið látin taka völdin í landinu og situr til borðs svo að segja á fjögur þúsund heimilum á Íslandi um þessar mundir, þökk sé Alþfl. m.a.
    Það versta í atvinnuleysinu er auðvitað það að atvinnuleysið brýtur niður fólk. Við þekkjum jafnvel persónulega dæmi um slíkt og við vitum líka að það er sárara að vera atvinnulaus á Íslandi en í öðrum löndum af því að við erum fá og hér hefur einstaklingurinn verið mikilvægur og vinnuframlag hans mikils metið. Framlag hans til samfélagsins hefur verið mikils metið og þess vegna er það sárara hér en í nokkru öðru landi, liggur mér við að segja þar sem íbúar eru yfirleitt miklu fleiri t.d. á Norðurlöndum, að missa vinnuna.
    Þess vegna er það svo, virðulegi forseti, að það dugir ekki fyrir okkur að halda því fram að við höfum leyst einhver efnahagsleg vandamál á Íslandi meðan atvinnuleysið er jafnmikið og raun ber vitni um og fer vaxandi. Við höfum ekki leyst nein vandamál. Ríkisstjórn sem hefur lága verðbólgu en mikið atvinnuleysi er vond ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem hefur lítinn viðskiptahalla en mikið atvinnuleysi er vond ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem hefur lítinn halla á fjárlögum en mikið atvinnuleysi er vond ríkisstjórn. Það er ekki stöðugleiki í efnahagsmálum, það er ekki stöðugleiki í atvinnumálum að henda fólki út. Það er ekki stöðugleiki í efnahags- og atvinnumálum að neita fólki um að nota það eina sem það á, einu vöruna sem það á, þ.e. vinnuaflið, sem það getur selt sér og sínum til lífsframfæris.
    Ég tel, virðulegi forseti, að sú umræða sem fram hefur farið um þessa tillögu sé til marks um það að allir þingmenn vilji gera sér grein fyrir afleiðingum vandans. Ég mun leggja á það áherslu og margir aðrir þingmenn trúi ég að þessi tillaga fái jákvæða afgreiðslu í hv. félmn. og ég þakka enn fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram.