Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 15:34:03 (2287)


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér er flutt tillaga um landgræðslumál sem er mikið áhugamál allra hér á landi. Eins og kom fram í máli hv. 1. flm. eru flestir sammála um að að þessu þurfi að vinna. Ég get tekið undir fjölmargt af því sem kom fram í máli hennar, sérstaklega vegna þess að ég tel mikilvægt að allir aðilar reyni að standa þannig að þessum málum að auka samvinnu um þau en koma í veg fyrir að nokkuð það sé gert sem geti valdið misskilningi og óþarfa deilum. Þess vegna vil ég, þótt ég taki undir hennar málflutning, koma með nokkur aðvörunarorð um þessa tillögu því mér finnst a.m.k. fyrirsögn hennar sé nokkuð villandi miðað við þann rökstuðning sem flm. færði fyrir sínu máli.
    Ég vil benda á að þessi tillaga kom til umræðu á nýafstöðnum aðalfundi Landverndar sem var haldinn í Reykjavík. Þar var ekki tekið undir stuðning við hana heldur bent á að við friðun þurfi fyrst og fremst að huga að aðstæðum á hverju svæði. Eins og hv. flm. sagði eru aðstæður á því svæði sem hér er tiltekið ákaflega misjafnar. Hún nefndi sandfok suður í Höfnum en það svæði hefur í áratugi verið friðað svo engin skepna hefur komið þar að. Hins vegar væri ástand gróðurs gott uppi í Kjós þar sem landið hefur verið beitt frá landnámstíð og er enn þótt þar, eins og alls staðar á landinu, hafi sauðfé fækkað mjög mikið síðustu ár. Að sjálfsögðu hefur það áhrif á það hvernig hægt er að taka á þessum málum og kannski ekki síður þeir breyttu búskaparhættir sem orðið hafa á þessum tíma.
    Ég vil taka undir það að bændur hafa að sjálfsögðu manna mestan áhuga á uppgræðslu lands. Það eru þeir sem nýta landið og lifa á að nýta það. Að sjálfsögðu er það þeirra hagur að þannig sé með landið farið að það gefi sem mestan arð og að það gangi ekki úr sér heldur verði betra fyrir afkomendurna til nytja. Það hafa bændur sýnt á svo marga vegu í verki.
    Það hefur komið fram í fréttum að fyrir stuttu stofnuðu t.d. bændur í Öræfum landgræðslufélag í samvinnu við Landgræðslu ríkisins. Þótt þar í sveit hafi kannski orðið meiri uppgræðsla af sjálfu sér á síðustu áratugum en víðast hvar annars staðar, að vísu vegna mannvirkja sem þar hafa verið reist, fyrirhleðslna fyrir jökulár, þá eru þar enn gífurlega stór svæði gróðurlítil eða gróðurlaus. Þessu vilja bændurnir ekki una og hafa því óskað eftir samvinnu við Landgræðsluna. Til að vinna að því þarf auðvitað fjármagn. Því er sérstök áhersla til að ítreka það sem hv. flm. sagði eða las upp úr ályktun Stéttarsambands bænda að sýnd sé viðleitni til að standa við þau fyrirheit sem bændum og þjóðinni allri voru gefin með búvörusamningnum árið 1991 um fjárveitingar til landgræðslu og skógræktar. Í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir er það ekki gert heldur eru fyrri fjárveitingar til þessara verkefna skornar niður svo minna en ekki neitt verður þarna til ráðstöfunar. Það er vissulega alvarlegt mál því það er ekki aðeins í Öræfum sem

bændur hafa hug á að vinna markvisst að þessum verkefnum í samvinnu við Landgræðsluna. Ég veit að vilji er miklu víðar til að gera það í ríkara mæli en gert hefur verið á síðustu árum. Því er það mjög slæmt ef ekki er komið til móts við þau fyrirheit sem þarna voru gefin.
    Ég skal ekki orðlengja þetta frekar því út af fyrir sig held ég að við séum öll sammála um það markmið að græða upp landið. Ég held að það sé misskilningur, og reynslan hefur sýnt það, að ekki sé hægt að græða upp land þótt einhvers staðar sjáist skepna. Það er spurning til hvers er verið að græða landið ef ekki má nytja það um leið. Ég held að þarna þurfi að fara hinn gullna meðalveg til að allir sjái árangur og hann sem bestan í samræmi við þær sameiginlegu óskir sem við höfum.
    Ég held að nauðsynlegt sé að sú nefnd sem fær málið til meðferðar hafi þetta í huga og það veit ég sannarlega að mun verða gert af hálfu þeirra ágætu þingmanna sem sæti eiga í landbn. Ég vil sem sagt ítreka stuðning minn við það að unnið sé að landgræðslu á markvissan hátt til að sem bestur árangur náist en jafnframt verði þess gætt að gera það í samvinnu við alla svo kraftarnir nýtist sem best.