Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 15:42:23 (2288)

     Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Suðurl. ágætt innlegg hans í þessa umræðu og vil aðeins koma með viðbrögð við aðvörunarorðum hans. Fyrst það að fyrirsögn tillögunnar sé villandi. Ég hef rekið mig nokkuð á að menn hafa fjallað um þetta mál eins og verið sé að leggja til friðun fyrir búfé á svæðinu. En það stendur: Friðun fyrir lausagöngu búfjár --- það má vel vera að mátt hefði orða þetta öðruvísi en það átti að vera markmiðið með þeirri áætlanagerð sem færi í gang. Ég lagði sérstaka áherslu á umsögn Ingva Þorsteinssonar og það var reyndar í upplestri úr hans umsögn sem svæðið fyrir sunnan Hafnir var nefnt. Ég lagði sérstaka áherslu á að aðstæður á Kjalarnesi og í Kjós væru aðrar og það hlyti að koma inn í þá áætlanagerð sem væri lögð til. Það kom mér ekki á óvart þótt aðalfundur Landverndar tæki ekki undir þetta mál núna þrátt fyrir það að á sínum tíma, þegar þingmönnum var send áskorun fjórtán félaga og félagasamtaka, hafi Landvernd verið með og einn af frumkvöðlum. Þegar þetta mál var til umræðu á síðasta vetri var formaður Landverndar hér sem varaþingmaður og var með nokkuð skörp viðbrögð við þessari tillögu. Ég get ekki deilt því sjónarmiði sem þar kom fram vegna þess að þótt verið sé að vinna að svæðaskipulagi eða skipulagsmálum á ákveðnum svæðum er það bara til að festa í sessi hvar ákveðin staðsetning á hinum ýmsu sviðum skuli vera. Kaupstaðirnir t.d. eru búnir að búa við skipulag í sínum bæjarfélögum um áratuga skeið. Þó gerist ekkert í lausagöngumálum hjá þeim fyrr en þeir setja reglur um lausagöngu. Skipulagsmál og vinna að svæðaskipulagi er allt annað en að sporna við þeirri lausagöngu sem hér er verið að tala um.
    Þingmaðurinn nefndi líka að bændur hefðu mest áhrif á uppgræðslu. Ég ætla ekki að deila við þingmanninn um það. Við erum að tala um að hjá okkur gildi þær sérstöku aðstæður að sauðfé hefur ótrúlegt frelsi miðað við hvað viðgengst í nágrannalöndum okkar. Það er verið að leggja hér til að stefnt verði að því að á ákveðnu árabili verði sauðfé á þessu þéttbýlasta svæði landsins í afmörkuðum beitarhólfum, stórum eða smáum, á það er ekki lögð áhersla. Ég setti meira að segja fram þá skoðun mína að það væri hugsanlegt að á einhverjum stöðum væri ástæða til að girða af vegi. Það ætla ég ekki að leggja mat á fyrir fram. Mér finnst fráleitt að á okkar þéttbýlasta svæði landsins eigi að girða vegina af og alla þá staði þar sem ræktun fer fram. Um það snýst þetta mál.
    Það var líka nefnt að sjálfsagt væri að græða landið en að það væri ekki gott ef ekki mætti sjást skepna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að sátt verði um það búfjárhald sem verður áfram á þessu svæði. Ég er í hópi þeirra sem vilja sjá ákveðið búfjárhald á svæðinu. Ég er ekki að leggja til að búfjárhald verði lagt af í Þingvallasveit. En ég er mjög meðvituð um að það þarf að hafa það þar eins og annars staðar í ákveðnum böndum. Um þetta snýst málið.
    Ég er mjög ánægð með að eins og kom fram í máli hv. 2. þm. Suðurl. þá held ég að meiri sátt sé um þetta mál en menn vilja láta. Því teysti ég mjög vel á það að landbn. muni á þessum vetri taka af festu á þessu máli, hafa um það samvinnu og kalla á sinn fund þá aðila sem sagt var á síðasta vetri að væru að vinna að þessum málum á vegum landbrh. og kanna á hvern hátt er hægt að hrinda þessum málum í framkvæmd. Þá vil ég m.a. nefna það sem hefur staðið til í nokkurn tíma, þ.e. að setja girðingu þvert yfir Reykjanesskagann sem er einn angi af þessu máli. Ég hef kannað hvort þetta hafi verið gert. Það stóð til að það yrði gert í sumar en því miður þá náðist það ekki fram vegna þess að enn þá er eitthvert sauðfjárhald fyrir sunnan þá línu þar sem girðing átti að vera en menn töldu að það yrði lagt af. Ég fagna viðbrögðum hv. 2. þm. Suðurl. við þessu máli og vona að góð samstaða verði um það.