Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 15:51:59 (2292)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Hér eru nú fluttar miklar þakkarræður á báða bóga en ég ætla ekki að fara inn í þann kór. En ég tel að fullþakkað sé í allar áttir. Ég vil eingöngu bæta við fáeinum upplýsingum um þetta mál. Það hefur lengi verið til umfjöllunar á ýmsum stigum í stjórnsýslunni og þar á meðal var þetta kunningi mikill í landbrn. í minni tíð þar. Þá var heilmikil vinna lögð í það af hálfu landbrn. að reyna að ná fram samkomulagi um friðun verulegs hluta þess landssvæðis sem hér er fjallað um. Bæði Landgræðslan og landbrh. og fleiri aðilar komu að því máli og menn voru þá og eru vonandi enn tilbúnir til að leggja talsvert á sig, þar á meðal í formi fjármuna til þess að ná fram slíku samkomulagi og náðst hefur talsverður árangur. Ég tel rétt að það komi hér fram. T.d. hafa aðilar eins og Hafnarfjarðarkaupstaður tekið mjög myndarlega á sínum málum í þessu efni. Þar var sett reglugerð ef ég man rétt um búfjárhald og í framhaldinu kostaði Hafnarfjarðarbær girðingu á beitarlandi og kom skikk á búfjárhald sinna íbúa þannig að til fyrirmyndar var í góðu samstarfi við landbrn. og reyndar undir forustu þess að nokkru leyti.
    Það var sömuleiðis unnið að því í samstarfi Landgræðslunnar, Vegagerðarinnar og landbrn. að reyna að ná fram friðun Reykjanesskagans með girðingu þvert yfir skagann um Kleifarvatn og með það að markmiði að afnema lausagöngu sunnan þeirrar girðingar og þar með losna við þann kostnað sem girðingar meðfram Reykjanesbrautinni enda í millum ella hefði orðið. En eitt vandamálið í þessu sambandi er lausaganga búfjár á jafnumferðarmikilli æð og Reykjanesbrautin er. Og það liggur í hlutarins eðli að eftir að búpeningur er orðinn jafnsjaldgæfur, ef svo má að orði komast, og hann nú er á Reykjanesskaganum þá er það mun ódýrari og skynsamlegri lausn að koma honum fyrir í girðingum heldur en girða helstu umferðaræðar á skaganum og láta nokkur hundruð eða þó það séu 1--2 þúsund kindur ganga þar lausnar. Þannig að ég held einfaldlega að öll skynsemisrök mæli með því að unnið sé að málinu á þessum nótum.
    Ég vil hins vegar láta það sjónarmið mitt koma fram varðandi þessa tillögu, um leið og ég styð meginefni hennar, þ.e. þá hugsun að afnema lausagöngu búfjár á þessu þéttbýla svæði hér í kringum höfuðborgina, eða að hafa þó þann fyrirvara á að það er ekki að mínu mati að öllu leyti víst að Landnám Ingólfs, eins og það er nú að bestu manna yfirsýn miðað við sagnfræðilegar heimildir, sé heppilegasta landfræðilega afmörkunin á þessu svæði né heldur sú auðveldasta að ná fram. Því vil ég eingöngu hafa þann fyrirvara á að það kann að vera að einhver ofurlítil önnur landfræðileg afmörkun heldur en Landnám Ingólfs sé auðveldari viðfangs í þessum efnum. Það breytir ekki því að hitt hlýtur að vera markmiðið að koma á samkomulagi um að afnema lausagöngu hér á þessu þéttbýla svæði og einfalda þar með til mikilla muna alla vörslu og friðun landsins með því að ekki þurfi þá að girða af þá reiti sem á að friða. Eins og ástandið er í dag eru tugir ef ekki hundruð alls konar girðinga á þessu svæði utan um skógræktarbletti og garða og friðlönd af ýmsu tagi sem allar mætti leggja niður ef skynsamlegt samkomulag tækist um að setja þessa skipan á. Ég er alveg viss um að þeir aðilar, sem þarna eiga líka mikilla hagsmuna að gæta eins og Landgræðslan, Vegagerðin og Skógræktin og landbrn. og fleiri slíkir, eru tilbúnir til þess að leggja í nokkurn kostnað ef nauðsynlegt er til þess að koma þessari skipan á.
    Ég vil svo minna á, eins og reyndar hefur þegar verið gert, að þessu máli hefur oft verið hreyft áður. Það á sér langa sögu. Þannig flutti t.d. hv. fyrrv. þm. Reykn. Geir Gunnarsson iðulega og ítrekað till. til þál. um könnun á möguleikum skóg- og trjáræktar á Suðurnesjum og á þessu svæði með það í huga að slíkir möguleikar yrðu kannaðir í tengslum við átak til að friða þetta land.
    Úr því að farið er að ræða hér lausagöngu eða vörslumál búfjár á annað borð þá vil ég að lokum láta þess getið að það var unnið talsvert að því máli í minni tíð sem landbrh. M.a. vann starfshópur að þessu með aðild Vegagerðar ríkisins, Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og fleiri aðila og skilaði að mínu mati ágætum niðurstöðum og tillögum sem því miður strönduðu á andstöðu nokkurra þáv. hv. stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar sem ekki féllust á að tillögur starfshópsins yrðu lagðar fram í frumvarpsformi, en þær gengu m.a. út á það að taka upp þá almennu reglu að lausaganga stórgripa yrði bönnuð í landinu. Ég er þeirrar skoðunar og ég vil láta það koma hér fram við þetta tækifæri úr því að verið er að ræða þessi mál á annað borð að óheft lausaganga stórgripa sem almenn regla sé alger tímaskekkja á Íslandi. Ég bendi á þau hroðalegu slys sem verða nánast í hverjum mánuði svo tugum skipta núna t.d. á Norðurl. v. þar sem lausaganga stórgripa á þjóðvegi 1 er mikið vandamál svo ekki sé meira sagt. Þeir sem taka fram slysakort Umferðarráðs og skoða blettina sem tengjast slysum vegna lausagöngu búfjár og þá fyrst og fremst stórgripa, hljóta auðvitað að horfast í augu við þá staðreynd að ástand þessara mála t.d. í Skagafirði og Húnavatnssýslu er óviðunandi í dag. Vöruflutningabílstjórar eru farnir að sjóða stórar stálgrindur framan á trukkana til þess að verja þá fyrir skemmdum ef til árekstrar kemur milli bílanna og stórgripa. Og slysin stafa fyrst og fremst af stórgripunum. Sauðféð er hér allt annað mál og ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að sama skapi hvað snertir tjón á mönnum eða ökutækjum. Þó svo að umferðaróhöpp tengist lausagöngu sauðfjár þá er þar sem betur fer í sárafáum tilvikum um alvarleg óhöpp að ræða.
    Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það eigi að breyta löggjöf í þessa veru en ég hafði ekki til þess stuðning að flytja það mál eins og ég hefði þó viljað í minni tíð sem landbrh. Ég minni þó á að í þessari þáltill. er vitnað í lagabreytingar sem gerðar voru á vormánuðum 1991 og eru m.a. grundvöllur þess að sveitarfélög geta nú tekið á þessu máli með öðrum hætti en áður var.
    Ég væri tilbúinn til þess að standa að því fyrir mitt leyti að breyta lögunum frekar og þá í þá veru að afnema sem almenna reglu lausagöngu stórgripa. Ég tek það þó fram að að mínu mati þarf að vera heimild til þess að stórgripir geti gengið lausir í beitilandi eða á afréttum. Það sem ég er hér fyrst og fremst að tala um er lausaganga stórgripa á vegum eða í byggð sem er alvarlegt vandamál sem þarf að taka á. Ég fagna því eins og fleiri að hv. landbn. ætlar að skoða þessi mál og ég bind vonir við að hún líti þá á þau í víðara samhengi heldur en þessu einu sem snýr að Reykjanesskaganum.