Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

54. fundur
Mánudaginn 16. nóvember 1992, kl. 16:00:27 (2293)

    Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt andsvar. Vegna þeirra orða sem hér féllu um fyrri þingmál þá vil ég gjarnan að það komi fram að bæði í greinargerð með tillögunni sem sett var fram sl. vetur, svo og í þingræðu minni þá, rakti ég þau fyrri þingmál sem varða þetta mál og þetta svæði og eðli þeirra og tengsl við það sem ég var að flytja nú.
    Varðandi það að Landnám Ingólfs sé e.t.v. ekki landfræðilega besta afmörkunin þá hefur það verið mat þeirra sem skorað hafa á þingheim að gera eitthvað í þessu mál og ég tel að það komi þá í ljós og yrði e.t.v. breytt í nefnd ef niðurstaða yrði sú að taka fyrir eitthvað þrengra svæði.
    Ég er mjög bjartsýn á að landbn. taki vel á þessu máli miðað við það sem hér hefur komið fram og ég þakka mjög jákvæð innlegg í umræðuna af hálfu allra þeirra sem taka til máls.