Endurgreiðslur lána vegna framkvæmda í vegagerð

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:38:02 (2298)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ef ég hef skilið spurningu hv. þm. rétt, þá sé ég ekki neinar ástæður til þess. Við skulum átta okkur á því að hér er um viðbótarfjármagn að ræða næstu árin sem ætti auðvitað að þýða það að næstu árin þar á eftir mætti draga saman seglin án þess að allur framkvæmdamátturinn riðlaðist. Það er athyglisvert í þessu sambandi að koma því að við þessa umræðu að framkvæmdamáttur þeirra fjármuna sem renna til vegagerðar um þessar mundir er mun meiri en áður vegna þess að verðbólga nú er lægri en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlagafrv. yfirstandandi árs. Það segir sína sögu og auðvitað hljótum við að líta til þess og fagna því að vel hefur gengið í þeim efnum.