Sjávarútvegssamningur milli Íslands og Evrópubandalagsins

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:38:57 (2299)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að beina spurningu til hæstv. utanrrh. Í Morgunblaðinu í dag er frétt frá fréttaritara Morgunblaðsins í Brussel þar sem segir m.a., með leyfi forseta, þegar verið er að ræða um sjávarútvegssamning milli Íslands og Evrópubandalagsins: ,,Náist þessir samningar ekki mun bókun 9 við EES-samninginn, sem kveður á um tollaívilnanir á sjávarafurðum til aðildarríkja EB, ekki taka gildi.`` Síðan segir: ,,Ekki hefur enn náðst samkomulag um rétt Íslendinga til eftirlits með löndunum í höfnum innan EB úr þeim skipum sem koma til með að stunda veiðar á Íslandsmiðum. Aðildarríkin hafa hafnað öllum hugmyndum Íslendinga um slíkt eftirlit.`` Og svo segir undir lok fréttarinnar: ,,Reiknað er með því að samningafundur verði boðaður fyrir lok þessa mánaðar.``
    Mig langar því að spyrja hæstv. utanrrh. í fyrsta lagi hvort þetta séu réttar upplýsingar sem þarna koma fram frá fréttaritara Morgunblaðsins í Brussel og hvenær gerir hæstv. utanrrh. ráð fyrir að samningurinn verði lagður fyrir Alþingi?