Sjávarútvegssamningur milli Íslands og Evrópubandalagsins

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:44:21 (2302)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það hefur allan tímann legið fyrir í þessum samningum í heild sinni að tvíhliða samningarnir sem EFTA-ríkin skuldbundu sig til að gera þyrftu að vera frágengnir fyrir áramót til þess að EES-samningurinn tæki gildi. Það er ekkert nýtt í því. Það hefur legið fyrir allan tímann.
    Að því er varðar samningsstöðuna, þá er hún sú að því er okkur varðar að takist að lúka þessum samningi í byrjun desember þannig að hann megi leggja fyrir í byrjun desember, þá höfum við nægan tíma til þess að afgreiða samninginn og þá er ekkert það að óttast að EES-samningurinn taki ekki gildi af þeim sökum. Hins vegar er það alveg vitað að það er komin tímapressa innan Evrópubandalagsins af því að staðfestingarferill þess er miklu flóknari. Það verða öll þjóðþing aðildarríkja EB að staðfesta samninginn fyrir utan Evrópuþingið sjálft þannig að sá tími sem er til stefnu fyrir Evrópubandalagið að lúka þessu fyrir áramót er orðin naumur. Sá tími sem við höfum til stefnu er hins vegar nægur.
    Að því er varðar einstök atriði í frétt Morgunblaðsins, þá get ég hvorki staðfest þau eða neitað að

öðru leyti en því að í raun og veru er það fyrst og fremst eitt atriði sem er ásteytingarsteinn og það er mat okkar að önnur atriði verði auðleyst þegar það er leyst.