Samningafundir Íslendinga og EB um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:46:42 (2304)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það sem hér er átt við er það að það hefur enginn fundur verið haldinn fullskipaður með fulltrúum frá öllum aðildarríkjum. Hitt er annað mál að málið hefur verið rætt af hálfu samninganefnda eftir þessa dagsetningu, þ.e. eftir að samningamenn Evrópubandalagsins komu úr sumarleyfi. Sérstaklega hafa þessar viðræður farið fram milli aðalsamningamanns Íslands annars vegar, sem styðst við sérstaka baknefnd af sinni hálfu, þar sem m.a. eiga sæti aðilar frá sjútvrn., ráðuneytisstjóri og fulltrúar hagsmunaaðila, og hins vegar við fulltrúa DG 14, þ.e. sjávarútvegsnefndarinnar undir forustu Schmieglows samningamanns EB. Formlegur fundur þar sem koma að málinu fulltrúar allra aðildarríkja verður væntanlega haldinn undir lok þessa mánaðar.
    Að því er varðar frétt Morgunblaðsins, þá hefur málið sem sé verið í umfjöllun og vinnslu þó að ég geti ekki fullyrt hvort fullskipaður samninganefndarfundur hafi komið saman frá þeirri dagsetningu sem hv. þm. nefndi.