Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 13:57:21 (2309)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði sem er á þskj. 249. Þetta frv. er eitt af mörgum fylgifrv. EES-samningsins. Samhliða þessu frv. hefur verið lagt fram á Alþingi frv. til laga um breytingu á lögunum um geymslufé sem er á dagskrá þessa fundar. Þá hyggst ég leggja fram á þingi frv. til laga um aðrar lánastofnanir en viðskiptabanka og sparisjóði en þar er einkum um að ræða fjárfestingarlánasjóði og eignarleigur. Ég vil einnig geta þess að frv. til laga um Seðlabanka Íslands sem lagt var fram til kynningar á síðasta þingi verður lagt fram í þinginu á ný á næstunni.
    Í þessu frv. um viðskiptabanka og sparisjóði er fólgin sú tillaga að öll lagaákvæði um þessar stofnanir verði sameinuð í einum lögum. Hingað til hafa gilt aðskilin lög um þessar stofnanir. Lengi vel var það svo að sérstök lög giltu um hvern viðskiptabanka. En á árinu 1985 voru samþykkt almenn lög um stofnun og starfsemi viðskiptabanka hér á landi. Þau lög tóku gildi 1. jan. 1986. Á sama tíma tóku gildi ný lög um sparisjóði sem komu í stað eldri laga frá árinu 1941.
    Þátttaka okkar í Evrópsku efnahagssvæði krefst þess að sett verði nokkru ítarlegri ákvæði um stjórnun, breytingar á eignarhaldi og starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða en gilt hafa til þessa hér á landi, auk ákvæða sem beinlínis tengjast því að stofnunum þessum verður nú heimilt að opna útibú og veita þjónustu sína hvar sem er innan EES-svæðisins. Þegar ljóst var við athugun málsins að mun fleiri sameiginleg ákvæði áttu bæði við um viðskiptabanka og sparisjóði fremur en ólík var ákveðið að leggja til að sameiginlegur lagabálkur skyldi gilda um báðar þessar greinar lánastarfseminnar og kæmi sá lagabálkur í stað laganna um viðskiptabanka og laganna um sparisjóði frá 1985.
    Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að fyrr á þessu ári voru samþykktar breytingar á lögunum um viðskiptabanka og á lögunum um sparisjóði þannig að lögfestar voru nýjar eiginfjárreglur um þessar stofnanir. Þar var um að ræða alþjóðlegar reglur, hinar sömu og gilda innan Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins.
    Aðlögun að öðrum ákvæðum EES-samningsins um þessar stofnanir er því tiltölulega einföld. Því er í frv. lagt til að Ísland nýti sér ekki aðlögunarfrest til ársloka 1994 á þessu sviði. Það er hér gert að tillögum fulltrúa þessara stofnana í nefndarstarfi sem undirbjó þetta frv. Það er rétt að benda á að væri aðlögunarfresturinn nýttur mundi starfsleyfi íslenskra stofnana ekki gilda í öðrum EES-ríkjum á meðan fresturinn stæði. Hins vegar mundi starfsleyfi erlendra stofnana gilda hér á landi samkvæmt gagnkvæmnisreglum. Með þessu væri því innlendum stofnunum búin þrengri starfsrammi en erlendum keppinautum þeirra.
    Virðulegur forseti. Ég tel ekki rétt að taka upp allt of mikið af dýrmætum tíma þingsins til að gera í smáatriðum grein fyrir öllum ákvæðum þessa 103 greina frv. Þar er að langmestu leyti um það að ræða að fella í einn lagabálk ákvæði gildandi laga og fella inn í lögin breytingar sem á þeim hafa orðið. Hér er því í senn verið að skipa lögunum saman með einfaldari hætti en gilt hefur og færa þau til samræmis við þær skuldbindingar sem við höfum tekið á okkur í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.
    Það eru þó nokkur mikilvæg atriði, virðulegur forseti, sem ég vil vekja athygli hv. þm. á. Að öðru leyti treysti ég á gott samstarf við hv. efh.- og viðskn. um meðferð þessa mikilvæga máls.
    Ég nefni þá fyrst að í frv. er lagt til að starfsheimildir viðskiptabanka og sparisjóða verði nokkru víðtækari en nú gildir. Þetta er í samræmi við þróun víða um lönd á síðustu árum og þær reglur Evrópubandalagsins að bönkum og sparisjóðum sé heimilt að veita alhliða fjármálaþjónustu. Auk hefðbundinnar banka- og sparisjóðastarfsemi fengju þessar stofnanir samkvæmt frv. nú fullar heimildir til að stunda verðbréfaviðskipti og fjármögnunarleigu. Hingað til hafa þær haft takmarkaðar heimildir til verðbréfaviðskipta og ekki verið heimilt að stunda fjármögnunarleigu.
    Þá verður þessum stofnunum heimilt að stunda vátryggingastarfsemi en einungis í sérstökum dótturfyrirtækjum. Auk þess er þeim heimilt að stunda aðra starfsemi en talin er upp í 44. gr. frv. enda sé þar um að ræða hliðarstarfsemi í eðlilegum tengslum við viðskiptabanka- og sparisjóðareksturinn. Í þeim tilvikum þarf þó að koma til samþykki bankaeftirlitsins. Samkvæmt ákvæðum frv. getur það ákveðið að starfsemin skuli stunduð í sérstöku félagi telji eftirlitið ástæðu til þess. Slík krafa kæmi að mínu áliti einkum til geina ef talið væri að umrædd starfsemi væri áhættumikil eða fjarskyld viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi.
    Þá er í þessu frv. lagt til að bankar og sparisjóðir í öðrum aðildarríkjum hins væntanlega EES-svæðis fái heimild til að stofna útibú hér á landi eða veita þjónustu hér á landi án opnunar útibús, án þess að þurfa sérstaklega að sækja um leyfi til þess. Í þessu felst að vísu ekki grundvallarbreyting því erlendum hlutafélagabönkum hefur verið heimilt að opna útibú hér á landi frá byrjun þessa árs. Þá hefur markvisst afnám gjaldeyrishafta leitt til þess að Íslendingar geta nú í auknum mæli nýtt sér þjónustu erlendra banka og lánastofnana. Samhliða því að EES-stofnanir fá heimild til að starfa hér á landi fá íslenskir bankar og sparisjóðir fullar heimildir til að opna útibú hvar sem er innan EES-svæðisins eða veita sína þjónustu utan Íslands. Í þessu kunna að felast margvísleg tækifæri fyrir framsæknar stofnanir.
    Þá vil ég geta þess að í frv. er lagt til að heimildir banka og sparisjóða til að eiga eða taka að veði hluti í félögum sem ekki stunda viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi verða nú auknar samkvæmt tillögum frv. verulega frá því sem í dag gildir. Þetta er í samræmi við ríkjandi reglur innan Evrópubandalagsins sem reyndar taka að mestu leyti mið af þýskum bankarétti, þýskum bankareglum. Eins og kunnugt er eru bankar stórir eigendur í fjölmörgum mikilvægum framleiðslufyrirtækjum þar í landi. Samkvæmt núgildandi lögum má eignarhlutur banka í einstöku félagi og lán til félagsins ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar 2% af eigin fé bankans og samtala allra slíka eignarhluta og lána má ekki fara yfir 15% af eigin fé bankans.
    Í frv. eru mörkin hins vegar þau að eignarhlutur í einstöku félagi eða hlutir teknir að veði megi ekki verða hærri en 15% af eigin fé viðkomandi banka eða sparisjóðs. Samtala virkra hluta, þ.e. hluta umfram 10% af eigin fé eða atkvæðisrétti í viðkomandi félagi, má ekki verða hærri en 60% af eigin fé viðkomandi banka eða sparisjóðs. Loks má bókfært virði allra eignarhluta sem banki eða sparisjóður hefur eignast ekki nema hærri fjárhæð en allt eigið fé viðkomandi banka eða sparisjóðs. Með þessum tillögum er lögð til umtalsverð rýmkun á gildandi heimildum sem að mínu áliti gætu komið íslensku atvinnulífi til góða og gefið færi á einfaldari og hagkvæmari lausnum á ýmsum fjármögnunarvandamálum okkar atvinnulífs.
    Í frv. sem hér er til umræðu er áfram gert ráð fyrir að tvenns konar viðskiptabankar starfi á Íslandi. Annars vegar ríkisviðskiptabankar og hins vegar hlutafélagsbankar. Það er hins vegar stefna ríkisstjórnarinnar að breyta ríkisviðskiptabönkunum tveimur í hlutafélagsbanka. Að því gerðu yrðu allir viðskiptabankarnir þrír hér á landi seldir undir sömu starfsskilyrði. Eftir að ríkisviðskiptabönkum hefði verið breytt í hlutafélagsbanka verða þau ákvæði þessa frv. sem lúta sérstaklega að ríkisviðskiptabönkunum að sjálfsögðu óþörf.
    Ég vil vekja athygli þingmanna á einu af ákvæðum frv. um ríkisviðskiptabankana. Í 3. mgr. 8. gr. frv. segir að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabanka. Hér er kveðið skýrt og afdráttarlaust að orði. Í samsvarandi ákvæði í núgildandi lögum er kveðið á um að ríkissjóður beri ábyrgð á öllum skuldbindingum ríkisviðskiptabanka en til þess að taka lán erlendis án tryggingar í sjálfs sín eigum þurfi ríkisviðskiptabanki sérstaka lagaheimild hverju sinni. Þetta ákvæði hefur verið túlkað með mismunandi hætti af ýmsum fræðimönnum og lögfræðingum. En þegar á reyndi hefur ríkissjóður tekið á sig allar skuldbindingar viðkomandi banka. Ég tel því eðlilegt að við búum nú þannig um hnútana að ríkissjóður beri með skýrum hætti ábyrgð á skuldbindingum ríkisviðskiptabankanna. Með hlutafélagsforminu er hins vegar unnt að takmarka þá ábyrgð sé það ákvörðun þingsins.
    Ég vek athygli þingmanna á þeirri nýjung í frv. að tilkynna verður til bankaeftirlitsins fyrir fram um breytingar sem verða kunna á eignarhaldi í þessum stofnunum: Upp fyrir eða niður fyrir 10%, 20%, 33% og 50% af hlutafé eða stofnfé eða þegar breytingarnar leiða til þess að viðkomandi stofnun fer að teljast dótturfyrirtæki annars félags. Bankaeftirlit getur samkvæmt tillögum frv. synjað viðkomandi hluthafa eða stofnfjáreigenda um að eignast hlut eða fara með atkvæði telji bankaeftirlitið viðkomandi ekki hæfan til þess með tilliti til heilbrigðs reksturs viðkomandi banka eða sparisjóðs eða eðlilegra viðskiptahátta. Þá er bankaeftirlitinu einnig heimilt að svipta hluthafa atkvæðisrétti ef það telur að viðkomandi fari þannig með hlut sinn að það geti skaðað heilbrigðan rekstur bankans eða sparisjóðsins eða samrýmist ekki eðlilegum viðskiptaháttum. Þótt vonandi komi ekki til þess að beita þurfi ákvæðum af þessu tagi tel ég engu að síður mikilvægt að öryggisákvæði af þessu tagi séu til staðar í okkar löggjöf.
    Varðandi sparisjóðina vil ég nefna það sérstaklega að í frv. er lagt til að sparisjóður verði ekki stofnaður með lægra stofnfé en 80 millj. kr. Hér er um umtalsverða hækkun að ræða frá 3 millj. kr. lágmarkinu í gildandi lögum. Þar kemur tvennt til sem ég vil nefna:
    Í fyrsta lagi reglur Evrópubandalagsins og hins vegar sú skoðun fjölmargra hér á landi að það sé í hæsta máta óeðlilegt að unnt sé að stofna sparisjóð með aðeins 3 millj. kr. stofnfé. Í þessu sambandi má benda á að lágmark hlutafjár í eignarleigufyrirtæki eru 10 millj. kr. samkvæmt gildandi lögum og 20 millj. kr. í verðbréfafyrirtæki.
    Þá vil ég nefna að framvegis er gert ráð fyrir því að svokallaðir ábyrgðarsparisjóðir heyri sögunni til. Í ábyrgðarsparisjóðum er ekkert stofnfé heldur leggja stofnendur fram ábyrgðir í stað stofnfjár. Í þessu frv. er lagt til að starfandi ábyrgðarsparisjóðum verði breytt í stofnfjársjóði innan þriggja ára frá gildistökudegi laganna.
    Við gerð þessa frv. var reyndar mikið rætt í hópi nefndarmanna sem undirbjuggu það um eignarhald og stjórnarfyrirkomulag í sparisjóðunum sem augljóslega þarf að breyta í framtíðinni. Niðurstaðan varð þó sú að leggja ekki til breytingar í því efni heldur gera það með sérstöku frv. síðar þannig að sú samræming og samfelling löggjafarinnar sem hér er gerð tillaga um blandist ekki inn í það viðkvæma mál.
    Í frv. er lagt til að gildandi ákvæði um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða verði lögfest að nýju. Í athugasemdum með frv. er hins vegar vakin athygli á því að unnið sé að samræmingu á reglum um tryggingarsjóði banka og sparisjóða á vettvangi Evrópubandalagsins. Þegar niðurstaða er fengin úr því starfi verða þær reglur væntanlega einnig teknar upp innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Því er fyrir séð að þessi ákvæði frv. muni koma til endurskoðunar í náinni framtíð.
    Ég vil ekki draga dul á þá skoðun mína að ég tel afar brýnt að hér á landi starfi öflugir tryggingarsjóðir til að standa að baki innstæðum í bönkum og sparisjóðum. Það er mitt álit að við eigum ekki að bíða eftir endanlegri niðurstöðu nágranna okkar í Evrópu í þessu efni. Því hyggst ég skipa á næstunni nefnd til að móta tillögur um annars vegar sameiningu tryggingarsjóðanna tveggja og hins vegar hvernig

efla megi tryggingar fyrir innstæðum í bönkum og sparisjóðum hér á landi.
    Virðulegi forseti. Í gildandi viðskiptabankalögum er ekki sérstaklega kveðið á um heimildir erlendra aðila til að eiga hlut í íslenskum viðskiptabanka. Ákvæði þess efnis eru í lögunum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri frá árinu 1991. Þar eru ákvæði um það að erlendum aðila sé í hæsta lagi heimilt að eiga um 25% af hlutafé í íslenskum hlutafélagsbanka. Í gildandi sparisjóðalögum er hins vegar kveðið á um að erlendur ríkisborgari sem á hér lögheimili og hefur átt það a.m.k. samfellt eitt ár geti orðið aðili að sparisjóði.
    Samkvæmt EES-samningnum er Íslendingum heimilt að viðhalda gildandi reglum á þessu sviði fram til ársbyrjunar 1996 gagnvart ríkisborgurum og lögaðilum í öðrum aðildarríkjum EES. Það er mín tillaga að sá aðlögunarfrestur verði nýttur til fulls. Á þessu er ekki tekið í frv. sem hér liggur fyrir um viðskiptabanka og sparisjóði. Þar er einungis að finna almenn ákvæði um eignaraðild að þessum stofnunum, en þessa takmörkun verður áfram að finna í lögunum um erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.