Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 15:06:58 (2313)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðum þeirra þriggja sem hér hafa talað að þeim þætti þetta mál harla seint fram komið. Það má til sanns vegar færa. En til að skýra nokkuð aðdraganda málsins, sem ég vona að verði til hægari verka og geti tryggt þessu máli skjóta en vandaða meðferð í hv. efh.- og viðskn., vil ég taka það fram að fyrir réttu ári, nánar tiltekið 18. nóv. 1991, skipaði ég nefnd manna úr bankakerfi og ráðuneyti til að semja tillögur um lagabreytingar vegna væntanlegrar aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Það var mín von að frv. yrði tilbúið þá um vorið, þ.e. á liðnu vori. Það tókst ekki, m.a. vegna þess hversu mjög var til verksins vandað, m.a. með því að leita til þeirra sem málið snertir með umsagnir og álit meðan á verkinu stóð. Ég fékk svo hið fullbúna frv. í hendur fyrir stuttu og lagði það fyrir þingið jafnskjótt og kostur var. Ég vona að þessi undirbúningsvinna muni gera þingnefndinni og þinginu sjálfu auðveldara að vinna málið og meta það. Ég vil leyfa mér að benda á að það að hér er stærstum hluta um að tefla að einfalda lög og hreinsa úr lögum ákvæði sem ekki eru þörf, að fella saman í einn bálk það sem saman á. Ég tók eftir því í máli flestra sem hér hafa talað að þeir fögnuðu því út af fyrir sig að svo skyldi að málum staðið. Ég vil fullvissa hv. þm. um það að ég hygg gott til samstarfsins við þingnefndina um þetta mál eins og önnur sem þar hafa verið unnin í vor, sumar og það sem af er þessum vetri.
    Ég vil taka þetta fram vegna þess að ég hefði sjálfur kosið að frv. kæmi fyrr fram. Ég bendi á að þetta gæti orðið til þess vegna þess að margir þeirra aðila sem hér voru nefndir til sögunnar af ræðumönnum hafa þegar kynnt sér eða starfað að gerð frv. og fengið ærin tækifæri til að láta sitt álit í ljós.
    Ég sný mér þá, virðulegur forseti, að því sem fram kom í máli hvers hinna þriggja þingmanna sem hér hafa talað og vil fyrst víkja máli mínu að hv. 6. þm. Norðurl. e. Það er rétt hjá hv. þm. að þátttaka banka í atvinnufyrirtækjum með þeim hætti sem tillaga er gerð um í frv. mun að mínu áliti kalla á nýja stefnumótun í starfsemi bankanna, stefnumótun sem ég tel þarfa. Í raun og veru má að vissu leyti segja að með þessum ákvæðum, og reyndar ákvæðunum sem hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði að umtalsefni um heimildir til yfirtöku og tímabundins rekstrar, þá er verið að færa þessa löggjöf til samræmis við veruleikann vegna þess að þau ákvæði sem nú gilda hafa ekki dugað nægilega vel á prófstein lífs og starfs. Það er þess vegna sem þessar breytingar eru gerðar og ég mun víkja að þeim nánar þegar ég kem að beinum spurningum hv. 4. þm. Norðurl. e. Fyrirmyndin er fengin úr evrópskri löggjöf og felur þess vegna í sér samræmingu á okkar ákvæðum og þeim sem almennt gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði sem væntanlegt er. Þar er ekki síst Þýskaland til fyrirmyndar. Ég held að við gætum haft mikið gagn af því þótt ég taki undir með hv. 6 þm. Norðurl. e. að það kunni að taka nokkurn tíma að sveigja það stóra hafskip sem er hið íslenska lánakerfi um þær gráður sem þarf til þess að það taki virkari þátt í eflingu atvinnulífs til nýsköpunar og framfara í okkar þjóðarbúskap.
    Ég vil nefna, vegna beinnar spurningar hv. 6. þm. Norðurl. e., og reyndar vék hv. 4. þm. sama kjördæmis að því sama, að það hefur verið unnið að margháttuðum undirbúningi að því að breyta ríkisbönkum í hlutafélög. Það er hins vegar ekkert í reynslu grannþjóða okkar, sem hafa lent í erfiðleikum í sínum bankamálum, sem styður þá skoðun að það sé ekki rétt stefna að breyta þessum ríkisbönkum okkar í hlutafélagsform. Ekkert þeirra landa sem hefur lent í þeim erfiðleikum sem hér er gjarnan til vitnað hefur brugðið á það ráð að breyta sínum hlutafélagsbönkum, sem sumir hverjir eru að fullu í ríkiseign, í ríkisbanka með beinni ábyrgð ríkisins. Það vekur að sjálfsögðu upp spurningu um þessa breytingu hvað það er sem menn eiga við þegar þeir vara við því vegna þess að breytingin hefur ekki eingöngu það gildi að takmarka ábyrgð. Hún hefur það gildi að veita aðhald. Hún hefur það gildi að setja öllum bönkunum sams konar starfsskilyrði þannig að samkeppnin sé á jafnræðisgrundvelli. Hún veitir stjórnendum, hinum daglegu stjórnendum, þeim sem aðalfundur eða þingið hefur valið, aðhald sem er skilgreint í arðkröfu af því fé sem bundið er í fyrirtækinu. Þetta tel ég heilbrigt og eðlilegt og nauðsynlegt en það breytir því ekki að það er rétt hjá hv. 6 þm. Norðurl. e. að það er meðal mikilvægustu hlutverka ríkisvaldsins að bera ábyrgð á heilbrigði fjármálakerfisins. Mín skoðun er að því hlutverki verði þeim mun betur sinnt sem ríkið ber minni ábyrgð á einstökum stofnunum sama kerfis. Í þessu liggur mikilvæg aðgreining. Það er þarna sem hundurinn er grafinn, til þess að ríkið geti sem best sinnt því hlutverki sínu að bera ábyrgð á heilbrigði fjármálakerfisins má það sem minnst vasast í því hvernig einstakar stofnanir þessa sama kerfis eru reknar á viðskiptalegum grundvelli. Ég vona að hv. þm. geti orðið mér sammála um þetta. Í þessu felst ekki að það sé á nokkurn hátt úr því dregið hversu mikilvægt, traust, fjármálakerfið er fyrir atvinnulífið, fyrir farsæld þjóðarinnar, því að það er sannarlega rétt, en það er þessi hugsun, virðulegi þingmaður, sem ég vil leggja

mikla áherslu á og sem er að sjálfsögðu höfuðtilgangur tillögunnar að breyta ríkisbönkunum í hlutafélagsbanka og veita þeim þar nýtt svigrúm en um leið nýtt aðhald.
    Síðan er spurt um það hvort svigrúm sé á okkar fjármagnsmarkaði fyrir hugsanlega sölu hlutabréfa ríkisins í Búnaðarbankanum svo maður tali umbúðalaust um hlutina. Ég hef leitað álits þeirra sem gerst til þekkja og þeim ber öllum saman um að þær hugmyndir sem lýst er í fjárlagafrv. séu mjög vel innan marka þess sem mögulegt er. Um það munu lagðar fram greinargóðar skýrslur þegar þar að kemur en ég tek fram að það er ákaflega mikilvægt að undirbúa þessa breytingu sem best og halda aðgreindum þessum tveimur skrefum, hinu fyrra að breyta ríkisbönkunum í hlutafélagsbanka að öllu leyti í eigu ríkisins og hinu síðara sem fer eftir aðstæðum á lánamarkaði og í þjóðarbúskapnum yfirleitt hvort og hvenær ráðlegt sé að selja og að hve miklu leyti þá hluti sem þannig verða myndaðir í þessum bönkum.
    Vegna beinnar spurningar frá hv. 6. þm. Norðurl. e. um það hvort ráðgert sé að breyta kröfunum um stofnfé gagnvart starfandi sparisjóðum þá er svarið nei. Það er ekki ráðgert að breyta þeim. Það er engin hugmynd uppi um það. Þá var spurt með ábyrgðarsparisjóðina sem á eru lagðar kvaðir í þessum tillögum, að ábyrgðunum verði breytt í stofnfé. Það er beinlínis sérstakt ákvæði um það í fyrsta ákv. til brb. í frv. þar sem eru sérreglur. Hið nýja stofnfé svari þá til ábyrgðanna sem áður voru veittar og ekki gerð krafa um að fullnægja kröfum frv. þótt að sjálfsögðu sé það æskilegt. Ég bendi á það sem hér var áður talað að sparisjóðirnir eru á margan hátt þarfar stofnanir en margir þeirra hafa býsna grannan grunn til þess að reka á lánastarfsemi.
    Ég ætla ekki að gera vaxtamálin að umtalsefni í nákvæmum greinum. Við áttum um það nokkur orðaskipti áðan. Ég vil ítreka það sem fram kom hjá mér áðan að það er afar mikilvægt að vaxtaákvarðanir séu með þeim hætti að fjárhagslegur grundvöllur lánakerfisins sé sem traustastur. Þar kem ég aftur að þeim sjónarmiðum sem fram komu í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 6. þm. Norðurl. e. að afar mikilvægt sé fyrir okkar þjóðarbúskap að lánakerfið standi traustum fótum. Undir það tek ég og það er að sjálfsögðu eitt mikilvægasta sjónarmiðið þegar vaxtamálin eru rædd.
    Ég kem þá að spurningum og athugasemdum hv. 18. þm. Reykv. Hv. 18. þm. Reykv. spurði: Hvað er það sem knýr á um að tengja gildistöku þessa frv., sem í mörgum greinum er að sjálfsögðu þarft hvað sem líður aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði, við gildistöku þess samnings? Svarið er fólgið í hinum gagnkvæma rétti sem með samningnum er stofnaður, þ.e. fyrir okkar stofnanir til þess að starfa á grundvelli íslenskra reglna á hinu Evrópska efnahagssvæði og fyrir stofnanir sem staðfestu hafa og starfsstaði innan hins Evrópska efnahagssvæðis að starfa hér. Við erum m.a. að heimila þessum stofnunum að starfa hér og viljum þá fá rétt til þess að starfa þar og þar í liggur kannski mikilvægasta tengingin við gildistöku samningsins.
    Um nýmæli sem tengjast ráðningu bankastjóra með hæfikröfum og takmörkuðum ráðningartíma, þá þakka ég það að hv. 18. þm. hafði orð á því sem sjálfsagt er, en það er svo stundum með það sem er sjálfsagt er eiginlega enn sjálfsagðara þegar það er sagt. Ég þakka þingmanninum fyrir að hafa vakið athygli þingheims á þessum ákvæðum.
    Um Lánastofnun sparisjóða spurðu bæði 18. þm. Reykv. og 4. þm. Norðurl. e. Hér er gert ráð fyrir því að Lánastofnun sparisjóða breytist í viðskiptabanka sem starfað geti með sama hætti og þeir. Þetta er gert að eindregnum óskum Samtaka sparisjóðanna og til þess að lánastofnunin geti betur sinnt sínu þjónustuhlutverki við sparisjóðina. Hið sérstaka form þess fyrirtækis á sér ekki hliðstæður í nálægum löndum hefur torveldað starf lánastofnunarinnar í samskiptum við erlenda banka, m.a. hvað varðar fjárútvegun fyrir hina mörgu smáu sparisjóði. Með þessu er það skýrt að lánastofnunin hefur sömu stöðu að íslenskum lögum og viðskiptabankar en heldur um leið sérkennum sínum sem þjónustustofnun fyrir sparisjóðina. Þetta vona ég að svari spurningum þingmannsins því hér er fyrst og fremst verið að stuðla að því að þjónustuhlutverkið haldist en bankahlutverkið fái sömu stöðu og í viðskiptabönkunum.
    Þá vék hv. 18. þm. Reykv. líka nokkuð að þátttöku banka í atvinnurekstri. Ég get í sjálfu sér vísað til þess sem ég áður sagði um það mál og mun reyndar koma nokkuð að því hér á eftir þegar ég sný mér að spurningum hv. 4. þm. Norðurl. e. varðandi 45. og 46. gr. frv. Það var líka spurt af 18. þm. Reykv. um einkabankana og stöðu þeirra samkvæmt íslenskum lögum og samkvæmt þessum tillögum. Ég vil láta það koma fram að ég tel ekki ástæðu til að gera ráð fyrir því rekstrarformi í okkar löggjöf. Aðalreglan verður hlutafélagsform og stefnt að almenningshlutafjáreign í slíkum hlutafélögum. Ég tel það vera heppilegasta fyrirkomulagið. Hitt er rétt að vera má að í þeim lögum sem nú gilda um fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri, þar sem erlendum bönkum og fjármálastofnunum er heimilað að eiga ákveðinn hlut í íslenskum bönkum, geti erlendur banki sem hefur starfsleyfi, t.d. samkvæmt EES-rétti, eignast hér hlut í banka. Það er þá vegna þess að hann fullnægir þeim kröfum sem þar eru gerðar. Þetta vona ég að nægi sem svar en það er ekki mitt áform að taka þar upp neitt sem sérstaklega helgaði slíkum rekstri rétt.
    Um bankaeftirlitið er hverju orði sannara að þar er þörf á að hafa öfluga og styrka starfsemi. Ég vil þó alls ekki gera því skóna hér að þar standi til að fjölga. Ég vil benda á að eitt af því sem mjög hefur verið rætt og tengist reyndar heimildarákvæðum þessa frv. fyrir banka og sparisjóði að tengjast vátryggingastarfsemi að þróunin er kannski ekki síður frá hinum vængnum, þ.e. að vátryggingafélögin gerist í vaxandi mæli umsvifamikil með verðbréfaumsýslan og lánastarfsemi, að sennilega væri rétt að tengja saman

tryggingaeftirlitið og bankaeftirlitið. Það má vel vera að út úr því geti komið öflugri stofnun. Það er mál sem rætt hefur verið innan ríkisstjórnarinnar og innan þessara atvinnugreina og í því kann að felast möguleiki til að efla þessa starfsemi án þess að fjölga fólki, jafnvel með því að fækka fólki. Þetta vil ég nefna hér.
    Um eignarhald og yfirstjórn sparisjóðanna langar mig til að svara hv. 18. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e. því að í þessum tillögum felast ekki breytingar í grundvallaratriðum á stjórnskipan sparisjóðanna nema hvað það varðar sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi, þ.e. dæmi eru um þriggja manna stjórn í sparisjóðum. Hér er gert skylt að fyrir sparisjóðum séu fimm manna stjórnir. Það má vel vera að þetta valdi einhvers staðar röskun á valdajafnvægi í sparisjóðum úti um land. Þó hygg ég að þau dæmi muni vandfundin. Ég veit að Samtök sparisjóðanna gáfu þessu sérstakan gaum þegar breytingartillagan var gerð og hún er ekki gerð að þeim forspurðum. Það sem ég átti við þegar ég nefndi í minni framsöguræðu að það kynni að vera ástæða til að skoða sjálfan grundvöllinn fyrir vali í þessar stjórnir þar sem er réttur þeirra sem eiga stofnfé í sjóðunum, og það er oft orðið býsna fyrnt og fornt og margerft, ásamt fulltrúum sveitarstjórna. Það kann að vera ástæða til þess að huga nokkuð að því hvort það sé eðlilegt fyrirkomulag. Ég ætla mér að snúa mér að því verkefni. Ég geri mér það ljóst að það er vandmeðfarið og það átti ég við. Þarna er víða um fámennisstjórnir að ræða sem eru eins og sænska akademían, sjálfskipaðar og sjálfvaldar. Þetta er málið sem ég átti við þegar ég ræddi þetta. Ég taldi ekki rétt að blanda þessu hér saman og bind reyndar vonir við að sameining sveitarfélaga geti breytt grundvelli þessa starfs nokkuð vegna þess að þá þarf að grípa til sérstakra úrræða af því að stjórnir í sparisjóðum eru bundnar við sveitarstjórnir. Reyndar minni ég hv. þm. á að þegar sýslurnar hurfu þurfti að gera sérstakar breytingar þess vegna vegna þess að sýslunefndir áttu í sumum tilvikum fulltrúa í sparisjóðsstjórnum. Þetta er hins vegar ekki tekið hér til meðferðar að öðru leyti en því að ákvæði er um myndun fulltrúaráðs við sérstakar aðstæður sem ég held að geti orðið býsna þarflegt til þess einmitt að hafa farveg fyrir breytingar í sparisjóðunum vegna breytinga á sveitarfélögum.
    Ég þarf ekki að segja margt fleira um það sem fram kom hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 18. þm. Reykv. um stjórnarfyrirkomulag í sparisjóðum. Í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. kom fram að honum fannst ekki skýrt hvað verða mundi um takmörkun eignarhalds erlendra banka eða fjármálastofnana í íslenskum bönkum eftir að þessi lög höfðu verið sett. Ég talaði alveg skýrt og beinlínis um þetta mál í minni framsöguræðu. Þar sagði ég að sú takmörkun sem er í gildandi lögum geti staðið út aðlögunartímann. Ég sagði reyndar ekkert um það sem þá tæki við en það lá að sjálfsögðu í mínum orðum að þá hyrfi hún. Ég bendi á að þingið hefur það í sinni hendi þegar fjallað verður um málið sjálft, þ.e. fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi, og ég held að það sé eðlilegast að geyma þá umræðu þangað til það mál kemur hér til umræðu. Ég vil hughreysta hv. 4. þm. Norðurl. með því að það er ekki áform stjórnarinnar að hverfa frá þeirra stefnu að breyta ríkisviðskiptabönkum í hlutafélagsbanka enda fjallaði ég um þetta í minni framsöguræðu með alveg með skýrum orðum, að hér væri ekki verið að gera annað en það að færa inn í ein lög ákvæði þau sem nú gilda enda þingið ekki búið að fjalla um það mál sem hv. þm. tók hér upp.
    Ég vil hins vegar vegna ummæla þingmannsins um heimsku mannanna --- og þá væntanlega með gagnályktun um visku sjálfs sín --- taka undir með honum að meðal þess viturlegasta sem gert var í þeirri stjórn sem hv. þm. sat í ásamt mér og fleiri góðum mönnum var að selja hlut ríkisins í Útvegsbanka Íslands til þess að stofna Íslandsbanka og ná þannig fram sameiningu í íslenska bankakerfinu. Það er einmitt frá þeim tíma, frá þeirri ögurstund, sem starfsfólki hefur fækkað í íslenska bankakerfinu. Ég vil minna hv. þm. á það þegar því var hér á árum áður jafnan stillt upp í fréttum og umræðum um vanda sjávarútvegsins að það væri einlægt verið að gera kröfur til hans um aukna hagræðingu á sama tíma og menn munaði ekkert um það að hafa tvær togaraáhafnir í bankaútibúum í tiltölulega litlum bæjum úti um land. Þetta hefur nefnilega breyst, virðulegi þingmaður, einmitt vegna þeirrar ákvörðunar sem tekin var í fyrri ríkisstjórn sem ég þykist vita að hafi enn ekki fennt yfir í minni þingmannsins. (Gripið fram í.) Ekki ætla ég að segja neitt um það, hv. þm. En nóg um þetta.
    Ég vil líka minna á það vegna þess sem fram kom hjá þingmanninum, að gott væri að virkja það fjármagn sem fáanlegt væri til framfara í landinu, að ríkisstjórnin sem nú situr hefur einmitt ákveðið að verja fimmtungi þess sem inn kemur vegna sölu á fyrirtækjum í ríkiseigu til rannsókna- og þróunarstarfa. Þetta er meðal merkari ákvarðana sem teknar hafa verið því hún færir og virkjar fjárstofn, sem nú er bundinn í störfum sem aðrir geta sinnt jafn vel og ríkið, í það sem gera þarf og í það sem koma skal. Þetta er einmitt dæmi um það sem fólst í orðum þingmannsins, að hann vildi virkja það fé sem er til í landinu til góðra verka og framfara. Þarna eru þessar tvær hugmyndir tengdar saman, virðulegi þingmaður.
    Um eiginfjárhlutföllin og þær kröfur sem nú eru gerðar samkvæmt BIS-reglunum, sem samþykktar voru hér á þinginu fyrr á árinu og öðlast munu gildi um áramót, þá minni ég á að, þegar það mál var rætt, kom það mjög skýrt fram að bankarnir og sparisjóðirnir uppfylltu þessar kröfur yfirleitt miðað við reikningsuppgjörið um síðustu áramót. Ég hef þá trú að þeir muni geta mætt þessum kröfum um komandi áramót. Þó er því ekki að neita að vissir erfiðleikar hafa verið í rekstri sumra banka en ég vil fullvissa þingmanninn um að þessum kröfum verður mætt. Til þess verða fundin þau ráð sem duga. Ég tel að það sé fullkomlega rétt og ábyrg skoðun að horfa mjög til þess að tryggja þetta. Ég treysti á að þau sjónarmið ráði þá öðrum ákvörðunum sem teknar eru í landinu, m.a. um skattlagningu, vexti og fleira sem oft

kemur hér til umræðu.
    Þá vék hv þm. að 44., 45. og 46. gr. frv. sérstaklega. Í 44. gr. er fólgin víkkun á starfssviði banka og sparisjóða. Þar er almenn skilgreining á starfseminni og þar er m.a. gefin heimild til vátryggingastarfsemi í sérstökum félögum, verðbréfaumsýslu og fjármögnunarleigustarfsemi með tilteknum hætti. Það er til samræmis við þær starfsreglur sem gilda munu á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það er aðalástæðan. Hin efnisástæðan, sem ég kýs að nefna, er sú að þetta er þróun sem reyndar hefur gætt í starfsemi stofnana okkar hvort sem er og er ástæða til að reyna að sníða lagarammann að henni þannig að hagsmuna almennings, innstæðueigenda og viðskiptamanna, sé gætt sem best við þær nýju aðstæður.
    Ég kem þá 45. gr. Þar tel ég að hv. 4. þm. Norðurl. e. hafi farið svolítið út úr efninu vegna þess að í 1. mgr. þessarar greinar er alveg óbreytt ákvæði 2. mgr. 29. gr. og 2. mgr. 33. gr. gildandi laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Þar er almenn heimild án takmörkunar til yfirtöku eigna til fullnustu krafna. Þetta er fullkomlega óbreytt og ef þingmaðurinn telur að þetta standi galopið þá er það svo nú þegar af því að ákvæðið er óbreytt. Það er hins vegar mjög skýrt í þessari lagagrein að heimildin til þess að stunda aðra starfsemi en almennt er heimiluð með lögunum er tímabundin og hin ótakmarkaða heimild til þess að yfirtaka kröfur er takmörkuð við skilyrði nauðsynjar til að fullnusta kröfur. Í því er fólgin mjög veigamikil takmörkun þannig að því verður ekki með nokkru móti samsinnt að hér séu galopnar heimildir. Þær eru það ekki, virðulegi þingmaður, en þær eru hins vegar teknar hér upp til þess að koma til móts við kröfur hversdagslífsins í landinu. Það hefði verið afar óheppilegt að koma í veg fyrir t.d. yfirtöku afgangsins af Álafossi á sínum tíma eins og gert var. Til þess að koma því um kring þarf núna sérstakar tilfæringar, stofnun hlutafélaga og fleira af því tagi sem ég tel að eigi að geta gengið samkvæmt almennum reglum. Og hér er að danskri fyrirmynd í 2. mgr. 45. gr. einmitt innleitt að bönkum sé heimilt að stunda tímabundið aðra starfsemi. En það er rétt hjá þingmanninum að orðið ,,tímabundið`` er ekki nánar skilgreint þarna. En ég endurtek, heimildirnar sem 45. gr. veitir eru takmarkaðar við það að tryggja fullnustukröfu. Þess vegna verða þær ekki með nokkrum hætti skildar þannig að þær séu galopnar.
    Ég kem þá að 46. gr. og vil segja um hana, sem ég hef að vísu nokkuð vikið að áður í mínu máli, að ég tel að það væri hið besta mál ef þingið féllist á þessa tillögu einmitt til þess að virkja bankana betur til framfara í atvinnulífinu, kalla þá meira til ábyrgðar á því sem þar gerist, gera þá betur meðvitaða um sinn ábyrgðarhlut í því að tryggja framfarir og rekstrargrundvöll fyrirtækjanna sem eiga í viðskiptum við þá. Ég tel að þetta hafi reynst vel í þeim löndum sem hafa slíka löggjöf. Við höfum fylgt annarri löggjafarhefð þar til þetta frv. verður samþykkt.
    Að endingu um heimildir erlendra banka til að starfa hér á landi og þau orð sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lét falla um 86. gr. frv. þá vil ég taka það skýrt fram um 84. og 86. gr. frv. að hér eru ákvæði um að þau bankafyrirtæki og sparisjóðir, sem hafa staðfestu innan ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa þar lögmætt starfsleyfi, geti starfað hér á grundvelli þess leyfis á sama hátt og okkar bankar og sparisjóðir geta starfað á EES-svæðinu á grundvelli íslensks starfsleyfis. Þetta eru sérstök ákvæði vegna EES-samningsins eins og ég vék að í svari mínu til hv. 18. þm. Reykv. Þetta er ekki takmörkun á þeirri heimild sem almennt var veitt með lögunum frá í mars 1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi þar sem segir að útibúum sé heimilt að starfa hér frá erlendum bönkum og fjármálastofnunum. Reglugerðarheimildin í 86. gr. er nákvæmlega það, reglugerðarheimild. Hún er ekki heimild til þess að banna fyrirtækjum frá löndum utan EES til þess að starfa hér. Þvert á móti er hún í raun og veru bara staðfesting á því að þeim sé heimilt að starfa hér samkvæmt þeim lögum sem um þau mál hafa verið sett. Og það er gert í tvennum lögum. Í fyrsta lagi lögunum um fjárfestingu erlendra aðila hér á landi. Í öðru lagi með breytingu á viðskiptabankalögunum. Ég vil minna á þetta og tek það fram að geðþóttavald ráðherra er ekki til staðar í 86. gr. Það fer að lögum um það að bankar mega setja hér upp útibú, en að sjálfsögðu áskiljum við okkur rétt til þess að starfsemi þeirra fari að íslenskum lögum og reglum. Reyndar á ég þess von að hv. 4. þm. Norðurl. e. sé mér sammála um það.