Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:14:16 (2327)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Um leið og sjálfsagt er að samsinna því að huga þurfi að markaðsaðstæðum þegar ákvörðun um sölu á verðbréfum af hálfu ríkisins er tekin, það gildir jafnt um ríkisskuldabréf, hlutabréf sem og önnur verðbréf, vil ég láta það koma fram að hugsanleg sala á hlutum ríkisins í atvinnufyrirtækjum og lánastofnunum upp á 1.000--1.200 millj. kr. er mjög lítið brot af heildarumsvifum á íslenska fjármagnsmarkaðnum. Af þeim sökum hef ég ekki ástæðu til að ætla annað en þetta sé hægt, enda liggja fyrir um það glöggar greinargerðir frá þeim sem gerst til þekkja.