Aðgerðir gegn peningaþvætti

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:38:16 (2330)


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. 9. þm. Reykv. og gera athugasemd við 15. gr. frv. um að gildistaka þessara laga skuli vera bundin við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og þau rök sem hann flutti. Þetta stendur nú í mörgum þeim frv., sem Alþingi er að fjalla um, m.a. frv. sem liggja fyrir umhvn. Ég spurði að því hvort ekki mætti taka þennan hortitt í burtu þegar um er að ræða mál sem menn eru sammála um að horfi til bóta þó að hvatinn sé að einhverju leyti runninn undan rifjum þessa samnings. Varla er það ætlun þeirra sem að þessum frv. standa að þarna sé um svo alvarlegan atburð að ræða, þ.e. inngönguna í Evrópska efnahagssvæðið, að í lagasafnið þurfi raunverulega að koma ný tímatalsviðmiðun fyrir og eftir inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið. Að öðru leyti hljótum við að vera sammála tilgangi frv., þ.e. því sem frv. er ætlað að gera og verður það að sjálfsögðu skoðað í þeirri nefnd sem um það fjallar. Ég skal ekki fara frekar út í efnisatriði þess.
    Það voru hins vegar lokaorð hæstv. viðskrh. sem stungu mig dálítið þegar hann sagði eitthvað á þá leið að inngangan í Evrópska efnahagssvæðið mætti ekki leiða til þess að Ísland yrði griðastaður fyrir ólögmæta starfsemi. Þá vaknar sú spurning hvort sú hætta sé á fleiri sviðum og hvort það hafi verið athugað hve mikil hætta þar er á ferðinni og hvort ekki þurfi víðar að reisa sérstaka varnarmúra en með þessu frv. og öðru sem boðað er af hæstv. dómsmrh.