Aðgerðir gegn peningaþvætti

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 16:47:13 (2332)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Forseti. Þessi ágæta umræða um íslenskt mál leiðir náttúrlega til þess að menn hljóta að þróa áfram þetta orð, þvætti, með forskeytum af ýmsu tagi. Sumir mundu hér fyrr meir hafa kallað orð viðskrh. áðan, þegar hann var að fara yfir þetta mál, kattarþvott en seinna meir kann að fara svo að menn noti hér í þingsölum orðið kattarþvætti í tengslum við mál af þessu tagi. Það eru ekki mín orð í dag.
    Varaðandi gildistökuákvæðið vil ég segja þetta: Burt séð frá málinu að öðru leyti finnst mér sjálfsagt að gildistökuákvæðin séu bara venjuleg í svona frumvörpum og standi þar: Lög þessi öðlast þegar gildi, o.s.frv. ef þau verða samþykkt á annað borð. Síðan er auðvitað eðlilegt, ef samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verður gerður að lögum, að þá sé þar safngildistökuákvæði fyrir þau mál sem sérstaklega tengjast þessum samningi frekar en það verði í lagasafninu, eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Suðurl., þannig að það sé rétt eins og hlutirnir hafi gerst fyrir eða eftir EES og menn séu að ganga hér inn í nýtt tímatal. Það er ekki svo þó að Evrópskt efnahagssvæði sé mikilvægt og þó að við höfum verið upplýst um það í morgun í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar að frv. til laga um kirkjugarða og líkbrennslur fáist ekki flutt á Alþingi enn vegna þess að það sé eftir að samræma ákvæði þess samningnum um Evrópskt efnahagssvæði.