Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 285 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og Tékkneska og slóvakíska sambandslýðveldisins (TSSL) en þessi samningur var undirritaður í Prag 20. mars 1992.
    Samningurinn er að mestu byggður á fríverslunarsamningum milli einstakra EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins 1972--1973, þ.e. fríverslun með iðnaðarvörur og heimild til verðjöfnunar í tilviki Íslands til álagningar tolla og fjáröflunartolla eða verðjöfnunar á vörur unnum að hluta eða öllu leyti úr landbúnaðarhráefnum. Jafnframt felur samningurinn við tékkóslóvakíska sambandslýðveldið í sér að komið er á fullri fríverslun með fisk og fiskafurðir milli EFTA-ríkjanna og tékkóslóvakíska sambandslýðveldisins strax við gildistöku.
    Tékkóslóvakísa sambandslýðveldið sýndi mikinn velvilja í garð Íslands með því að samþykkja þetta þar sem samningsaðilinn hefur fyrir sitt leyti 10 ára aðlögunartíma við að fella smám saman niður höft við innflutning iðnaðarvara til Tékkóslóvakíu samkvæmt fríverslunarsamningnum. Landbúnaðarvörur sem slíkar falla utan fríverslunarsamningsins. Einstök EFTA-ríki gerðu þó samhliða fríverslunarsamningnum tvíhliða samning um þær vörur við tékkóslóvakíska sambandslýðveldið.
    Í tvíhliða samningi Íslands og Tékkóslóvakíu er einungis um að ræða vörur sem ekki eru framleiddar hér á landi, einkum ávexti.
    Fríverslunarsamningurinn hefur verið staðfestur af hálfu allra annarra samningsaðila en Íslands og Liechtenstein. Samningurinn öðlast gildi hvað Ísland varðar á fyrsta degi annars mánaðar eftir að staðfestingarskjöl um fullgildingu hans hafa borist vörsluaðila, sbr. 39. gr. samningsins.
    Ríkisstjórnir Tékkneska og slóvakíska sambandslýðveldisins hafa nú komist að samkomulagi um að sambandslýðveldið verði leyst upp og stofnuð verði tvö sjálfstæð og fullvalda ríki frá og með 1. jan. 1993. Einnig hefur verið ákveðið að koma á tollabandalagi milli þessara tveggja ríkja frá sama tíma með frjálsu vöruflæði og þjónustu án allra tolla og annarra viðskiptahindrana og með samræmdum tollum gagnvart þriðju ríkjum. Sameiginlegu tollaráði verður komið á fót til að sjá um framkvæmd tollabandalagsins. Ríkisstjórnir sambandslýðveldisins hafa lýst því yfir að þær muni taka yfir öll réttindi og skyldur sem tékkóslóvakíska sambandslýðveldið hefur gagnvart þriðju ríkjum. Er þannig stefnt að því að GATT-skyldur og réttindi tékkóslóvakíska sambandslýðveldisins verði tekin yfir af lýðveldunum tveimur. Sama mun eiga við um aðra samninga eins og þennan.
    Varðandi fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og tékkóslóvakíska sambandslýðveldisins hefur þannig orðið að samkomulagi að yfirtakan verði leyst með sérstakri bókun, protokoll, þar sem EFTA-ríkin sjö annars vegar skrifa undir og hin nýju ríki tvö hins vegar. Yrði þetta gert á sameiginlegum fundi ríkjanna í apríl nk. Áður en gengið verður formlega frá yfirtöku á réttindum og skyldum samkvæmt samningnum með þessum hætti er stefnt að því að hann verði framlengdur til bráðabirgða með gagnkvæmum yfirlýsingum þann 11. des. nk.
    Í athugasemdum við þáltill. er gerð ítarleg grein fyrir samningnum sem og fyrir viðskiptum Íslands við tékkóslóvakíska sambandslýðveldið og undanfara þess á undanförnum árum og vísast til þeirra

upplýsinga.
    Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að tillögu þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.