Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta var stutt og snarplega flutt ræða af hálfu hæstv. utanrrh. þegar hann mælti fyrir þessari þykku bók. Ég vil leyfa mér að leggja fyrir hann tvær, þrjár spurningar í sambandi við þetta mál en byrja á því að fagna því að þessi samningur hefur tekist og reyndar ekki seinna vænna að ganga frá honum áður en ríkið sem samið var við af hálfu EFTA líður undir lok. Það skiptir svo sem ekki öllu máli því eins og hér er upplýst munu hin nýju lýðveldi, það tékkneska annars vegar og slóvakíska hins vegar yfirtaka skuldbindingarnar þannig að það kemur út á eitt.
    En það vekur þá spurningu í mínum huga: Hvernig er þessum málum á veg komið gagnvart öðrum lýðveldum Mið- og Austur-Evrópu? Er samningagerð af þessu tagi þar, þar sem til að mynda fullkomin fríverslun með fisk fæst, sem er meira en sagt verður um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og kunnugt er? Þar náðist sú samningskrafa ekki fram. Þess vegna er að sjálfsögðu fagnaðarefni ef samningar eru að takast við lönd utan samnings Evrópska efnahagssvæðisins um þetta atriði. Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. utanrrh. hvernig þau mál eru stödd gagnvart t.d. löndum eins og Ungverjalandi og e.t.v. Póllandi eða nýju lýðveldunum í norðanverðri Júgóslavíu, Króatíu o.s.frv.
    Í öðru lagi spyr ég: Hvað verður um samninga af þessu tagi? Er í ljósi núverandi aðstæðna í EFTA á einhvern hátt vikið að því hvernig fara skuli með fríverslunarsamning af þessu tagi þegar EFTA nánast líður undir lok á næstu árum, ef svo fer? Mundu þá t.d. gagnkvæm fríverslunarkjör Íslendinga annars vegar og Tékkneska og slóvakíska lýðveldisins hins vegar breytast í einhvers konar tvíhliða samning? Mér finnst ekki óeðlilegt að spurt sé því að það er hálfankannalegt að vera að fullgilda samning af þessu tagi á Alþingi við þær aðstæður að endalok EFTA virðast blasa við án þess að menn hafi í huga hvað eigi að taka við til þess að spara sér tvíverknað þannig að ekki þurfi að fara í að endursemja um þessa hluti alla saman eða ganga einhvern veginn frá þeim með öðru móti.
    Ég vona að hæstv. utanrrh. flokki það ekki undir óeðlilegar tafir á framgangi málsins eða málþóf þaðan af síður þó maður leyfi sér að leggja fyrir hann eins og tvær spurningar af þessu tagi.