Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spurði nokkurra spurninga. Hvað líður samsvarandi samningum við önnur ríki Mið- og Austur-Evrópu? Eins og hv. þm. er kunnugt er lokið samningum af þessu tagi við ríkin Tyrkland, Ísrael og nú Tékkóslóvakíu. Samningarnir eru að heita má frágengnir að því er varðar Pólland. Þeir eru á samningastigi en vel á veg komnir að því er varðar Rúmeníu og Búlgaríu. Að því er varðar Slóveníu, af því að minnst var á ríki fyrrum Júgóslavíu, er kominn á samstarfssamningur og ákvörðun um að taka upp samningaviðræður við Slóveníu. Þetta er því allt saman á góðum vegi.
    Önnur spurning var: Hvað verður um þessa samninga ef og þegar EFTA sem fríverslunarsamtök líða undir lok? Svarið er að samningarnir eru að formi til tvíhliða samningar við hvert einstakt ríki og munu því halda gildi sínu. Að öðru leyti ræðst þróun slíkra viðskiptasamninga mjög af því hvað gerist á vettvangi GATT á næstu árum.