Fjáraukalög 1991

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 13:51:57 (2344)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. eyddi ekki löngum tíma í að mæla fyrir frv. að þessu sinni, lét sér duga að vísa til ræðu sem flutt var á síðasta þingi enda var málið þá lagt fram og fór til 1. umr. og til hv. fjárln. en var ekki útrætt. Málið strandaði m.a. á því að um ákveðna þætti þess og framsetningu varð nokkur ágreiningur. Það var ágreiningur sem er ekki nýr af nálinni og endurspeglast í skoðanaskiptum sem ekki hafa fengið endanlega afgreiðslu milli fjmrn. annars vegar og Ríkisendurskoðunar hins vegar um framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings sem vöktu deilur og urðu til þess að málið varð ekki útrætt. Ég kem nánar að því síðar.
    Það er kannski, hæstv. forseti, ekki ástæða til að fara mörgum orðum um frv. Það er verið að fá hér lagalega staðfestingu á raunverulegum niðurstöðum af fjárgreiðslum í og úr ríkissjóði og niðurstöðu einstakra ráðuneyta og stofnana eins og reynsla seinasta árs skar úr um eða eins og endanlegar niðurstöður urðu. Á síðasta vori, þegar málið var til umræðu, varð nokkur umræða um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, um hvernig staðið hefði verið að tekjuöflun og sparnaðarhugmyndum ríkisstjórnarinnar og hvernig þær hefðu náð fram að ganga á seinsta ári. Sú umræða verður ekki endurtekin hér, a.m.k. ætla ég ekki að hafa frumkvæði um það fyrst hæstv. ráðherra tók þann kostinn að vísa til fyrri ræðuhalda enda gefst ábyggilega kostur á því að ræða við hæstv. ríkisstjórn á næstu dögum og vikum um þau mál öll sömul, bæði í sambandi við umræður um fjárlög fyrir næsta ár og svo einnig í sambandi við efnahagsaðgerðir ef þær koma einhvern tíma til með að líta dagsins ljós. Maður veit auðvitað ekki með neinni vissu um það eins og er en væntir þess sannarlega að ríkisstjórnin taki til höndum og láti eitthvað frá sér heyra til þess að bregðast við því alvarlega ástandi sem nú er í efnahags- og atvinnumálum.
    Það eru aðeins nokkur atriði sem mig langar til að nefna eða árétta í sambandi við frv. sem liggur fyrir og er til hér meðferðar. Ég vil í fyrsta lagi lýsa stuðningi mínum við þær hugmyndir sem hér eru settar fram og skilgreindar eða vel afmarkaðar í meðförum þingsins varðandi fjárveitingar sem stofnunum er heimilt að flytja milli ára eða geyma ef það má orða það svo. Þetta hefur viðgengist varðandi fjárveitingar til viðhalds og stofnkostnaðarverkefna um nokkurt árabil en ekki með eins skýrum hætti verið framkvæmt varðandi fjárveitingar til rekstrar.
    Fjmrn. hefur sett sér leikreglur sem eru skýrðar í greinargerðinni varðandi þessar yfirfærslur, hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja til að þær séu heimilar og eru þær reglur tilgreindar hér. Ég ætla ekki að fara um það mörgum orðum en vil þó nefna í sambandi við það skilyrði að til þess að fá flutta heimild milli ára, greiðsluheimild yfirfærða, þurfi ástæðan að vera að vel hafi til tekist með hagræðingu og/eða flutning verkefna milli ára hjá viðkomandi stofnun og fjárveitingin verið yfirfærð með tilvísun til þess. Ég get tekið undir þetta en vil aðeins segja að ég tel að það þurfi að vanda mjög þær vinnuaðferðir sem fjmrn. mótar sér nú í þessu efni því að það kemur auðvitað til með að hafa áhrif á það hvernig stofnanir fara með þessar fjárveitingar og hvernig stjórnendur haga sér þegar þeir velta fyrir sér hvernig nýta megi best þá fjármuni sem stofnanirnar þær hafa til meðhöndlunar.
    Við getum nefnt dæmi um þetta. Sjálfsagt er í einhverjum tilvikum hægt að finna dæmi þess að stofnanir hafi reynt að eyða fjárveitingu fyrir áramót til þess að tapa ekki af henni af því að hún fékkst ekki yfirfærð og jafnvel ekki staðið eins vel að málum eins og hægt hefði verið ef stofnunin hefði átt það víst að eiga fjárveitinguna geymda. Í sumum tilfellum hafa forstöðumenn stofnana talið að stofnun ætti skilið að eiga geymda eða yfirfærða fjárveitingu því þannig hafi rekstri verið háttað en fjmrn. sem úrskurðaraðili komist að niðurstöðu um það að leikreglurnar hafi ekki verið að þeirra höfði og því strikað fjárveitinguna út. Ég vil aðeins undirstrika þetta og beina því til hæstv. fjmrh. að vel sé vandað til verka þegar

þessar vinnureglur verða settar og síðan kynntar fyrir forsvarsmönnum og stjórnendum stofnana þannig að þeir viti nokkuð vel að hverju þeir ganga.
    Þá vil ég benda á að það er örlítið misræmi á þessu frv. annars vegar og því frv. sem lagt var fram í vor hvað varðar þessar yfirfærslur. Nú er gert ráð fyrir því undir verkefnum fjmrn. að yfirfæra tæpar 300 millj. kr. sem er sá listi eða sú upphæð sem stofnunum var heimilt að geyma á milli ára 1990 og 1991 sem ekki var í frv. eins og það lá fyrir í fyrravor en er nú skýrt eða áréttað í þessu frv.
    Þá langar mig aðeins að koma að þessum ágreiningi sem uppi hefur verið milli fjmrn. annars vegar og Ríkisendurskoðunar hins vegar um framsetningu á fjárlögum og fjáraukalögum þegar gengið er frá niðurstöðum hvers árs til þess að endanlegar niðurstöður fjárlaga og fjáraukalaga séu í samræmi við ríkisreikning eins og hann kemur til með að líta út þegar frá honum er gengið. Þetta er ekki nýtt mál og var síðast til umræðu í þjóðfélaginu fyrir nokkrum vikum þegar fjmrn. gaf út yfirlýsingar um það hver væri staða ríkisfjármála á þessu ári sem nú er að líða. Ríkisendurskoðun kom síðan með aðra niðurstöðu sem var byggð á nokkuð öðrum forsendum. Það er auðvitað óviðunandi að þessar stofnanir geti ekki komið sér saman um það eða réttara sagt að við fáum ekki niðurstöður í það hvernig leggja á þessar upphæðir fram þannig að öllum sé skiljanlegt og ekki sé misvísun í því hvernig ein opinber stofnun túlkar niðurstöðuna. Nógu er villugjarnt í frumskógi fjármála ríkisins og ýmsum efnahagsmálum svo ekki sé verið að villa enn um fyrir fólki, svo jafnvel munar milljörðum króna þegar verið er að reyna að átta sig á því hver sé hin raunverulega niðurstaða.
    Það hafa þegar komið til umfjöllunar nokkrar athugasemdir frá Ríkisendurskoðun og þær hljóta að koma til umræðu í fjárln. næstu daga þegar fjárln. fjallar um frv. sem hér er til 1. umr. Það er auðvitað í samræmi við það sem kom fram strax í fyrravor og Ríkisendurskoðun telur nauðsynlegt að taka til athugunar áður en fjáraukalög eru frágengin.
    Ég ætla aðeins til upprifjunar að nefna þessi atriði en ekki ræða þau að öðru leyti efnislega. Ég vísa til þess að fjárln. á eftir að fjalla um þetta og það á síðan eftir að koma til umræðu aftur á hv. Alþingi við 2. umr. Ég hefði gjarnan viljað heyra álit fjmrh. hvað þessa þætti eða þessi mál varðar. Það eru t.d. lántökur vegna framkvæmda við Sandgerðishöfn. Á árunum 1990 og 1991 var unnið að verulega kostnaðarsömum framkvæmdum við þá höfn og fjárveitingar voru ekki í fjárlögum til að greiða framkvæmdir að fullu heldur var tekið til þess erlent lán. Þá er spurningin: Á þessi framkvæmd ekki að koma öll fram í þessu fjáraukalagafrv. svo ljóst sé hver hin raunverulegu umsvif í hafnarframkvæmdum voru á þessu ári?
    Svipaða sögu er að segja um Framkvæmdasjóð aldraðra. Þar gerir Ríkisendurskoðun líka athugasemd og hefur hún komið til umræðu áður við umræðu um annað frv. sem hér var lagt fram af hæstv. heilbr.- og trmrh. og verður ekki rætt frekar að þessu sinni. Hér er nefnd yfirtaka á lánum vegna Byggðastofnunar. Hér er nefnd niðurfelling á lánum vegna Hitaveitu og Rafveitu Seyðisfjarðar svo eitthvað sé nefnt af því sem nú þegar liggur fyrir og kann að vera að fleira komi upp þegar málið er skoðað í fjárln.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég vildi aðeins koma þessum atriðum á framfæri. Í fyrsta lagi þessu með yfirfærslu á fjármunum milli ára sem ég tel að sé mikilvægt markmið og geti komið til með að hafa þau áhrif að stofnanir nýti fjármuni sína betur og það auðveldi þeim hagræðingu í rekstri sínum. Það er enn fremur óviðunandi að ekki skuli fást niðurstaða í því hvernig staðið er að framsetningu fjárlaga og fjáraukalaga þannig að skiljanlegt sé öllum þeim sem um þurfa að fjalla.