Fjáraukalög 1991

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 14:41:25 (2349)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það getur stundum farið saman tímaleysi og ágreiningur því að það tekur stundum tíma að leysa úr ágreiningi. Það er alveg hárrétt að fjáraukalög fyrir liðið ár koma venjulega ekki fram fyrr en í marsmánuði. Þetta frv. kom fram í lok mars og var til umræðu í byrjun apríl. Þess vegna gafst ekki mikill tími til að leysa málið. Það er rétt.
    Ég hef ekki gögn Ríkisendurskoðunar hjá mér þannig að ég get því miður ekki svarað spurningunni betur en ég gerði áðan. Ég hvet hins vegar til að hv. fjárln. fái þá aðila fjmrn. sem um þetta mál fjalla og Ríkisendurskoðunar til að ræða um hvernig eigi að bókfæra þetta lán. Ég satt að segja veit ekki nákvæmlega hvernig þetta var sett upp á sínum tíma. Ég hélt, það er sjálfsagt mitt misminni, að þetta hefði verið gert með þeim hætti að Sandgerði hefði tekið lánið og þess vegna væri það ekki fært hinum megin. Ef þetta liggur fyrir með þessum hætti þá finnst mér eðlilegt að fjárln. ásamt Ríkisendurskoðun og fulltrúum fjmrn. kanni málið og leysi úr því eins og eðlilegt getur orðið.